Stjörnurnar voru byrjaðar að kvikna fyrir aftan hann á fölum himni þó nætursortinn sækti að, þegar hobbitinn skreiddist inn um töfradyrnar og laumaðist þar með inn í fjallið. Það var miklu auðveldara en hann hafði búist við. Þetta var enginn inngangur drísildjöfla né heldur var hann neitt líkur grófri gangagerð Skógálfanna. Þessi göng höfðu hagleiksdvergar grafið á hátindi veldis síns og hæfileika. Þráðbein eins og reglustrika með sléttu gólfi og sléttum veggjum lágu þau með jöfnum og aflíðandi halla beint áfram —að einhverju fjarlægu innra opi í myrkrinu einhvers staðar fyrir neðan.
Brátt kom að því að Balinn bað Bilbó að láta sér „Ganga vel!“ og ákvað að þar við skyldi sitja sem hann enn gat séð móta dauft fyrir dyrunum og heyrt, vegna einhvers einkennilegs hljómburðar ganganna, hvíslið frá hinum sem orðið höfðu eftir fyrir utan. Svo setti hobbitinn á sig hringinn og niður bergmálsins varð honum sem áminning um að sýna enn meiri hobbitavarkárni en venjulega, þegar hann þokaðist hljóðlaust neðar og neðar í myrkrið. Hann skalf af ótta en ósýnilegur svipur hans var alveg ákveðinn og óhagganlegur. Hann var nú orðinn breyttur frá því hann fyrst hljóp af stað vasaklútslaus frá Baggabotni endur fyrir löngu. Nú hafði hann ekki notað neinn vasaklút langa lengi. Hann losaði um sverðið í slíðrunum, spennti beltið fastar og hélt áfram.
„Nú liggurðu á endanum laglega í því, Bilbó minn Baggi,“ sagði hann við sjálfan sig. „Þú steigst beint út í foræðið þarna um kvöldið í undarlega heimboðinu og nú verðurðu að hafa þig upp úr því og gjalda dýru verði fyrir það! Hjálpi mér hvað ég var og er mikill bjáni!“ sagði sú ættkvíslin í honum sem hafði minnst Tókablóð í sér. „Ég hef ekki nokkra minnstu þörf fyrir einhverja drekafjársjóði og ég gæti verið fullkomlega laus við allt þetta drasl og unað mér ágætlega alla ævi, ef ég aðeins gæti vaknað upp af draumi og uppgötvað að þessi fjandans göng væru ekki annað en forstofan heima hjá mér!“
Auðvitað vaknaði hann ekki, heldur hélt lengra áfram og áfram, þangað til hann sá ekki glitta hið minnsta í dyrnar fyrir aftan sig. Hér var hann allsendis aleinn. En bráðlega fannst honum verða hlýrra. „Skyldi þetta vera ylur af einhverri glóð sem virðist koma hérna á móti mér?“ hugsaði hann.
Jú, raunar, því lengra sem hann hélt óx það og óx, þangað til enginn vafi lék á því lengur. Framundan eygði hann roðaljós sem varð æ rauðara. Og nú var heldur enginn vafi á því að heitt var orðið í göngunum. Litlar rakatjásur svifu upp í móti framhjá honum og hann fór að svitna. Þá tóku að berast að eyrum hans mallandi hljóð eins og búbblaði af bólum í bullsjóðandi potti, en saman við blönduðust þó skruðningshljóð eins og risavaxinn köttur væri að mala. Það breyttist síðan, svo enginn vafi var á, í gúlgrandi kverkahljóð frá einhverju feiknarlegu dýri, hrjótandi í fastasvefni þarna niðri í rauðu glóðinni beint fyrir framan hann.
Þá sagði Bilbó hingað og ekki lengra. Og þegar honum skömmu síðar tókst að þoka sér aftur úr sporunum, var það sú mesta hetjudáð sem hann nokkru sinni vann. Í öllum þeim stórkostlegu viðburðum sem yfir hann dundu næst á eftir var engin sambærileg við þessa. Hér háði hann hið virkilega stríð, aleinn í ganginum, áður en hann hafði einu sinni augum litið þá gífurlegu ógn sem beið hans. Sem sagt, eftir stuttan stans, hélt hann áfram og þið skuluð bara ímynda ykkur hvernig hann kom út úr enda gangsins með samskonar opi, eins að stærð og lögun og efri dyrnar. Út um það gægðist lítill hrokkinkollur hobbitans. Fyrir neðan sig sá hann blasa við hinn voldugasta og dýpsta sal eða dyflissu-höllina, eins og hann var kallaður, sem hinir fornu dvergar höfðu holað út beint undan rótum fjallsins. Salurinn var að mestu hulinn myrkri svo að varla var hægt að ímynda sér gífurlega víðáttu hans, en hérna nærmegin á klettagólfinu bjarmaði af mikilli glóð. Glóð Smeygins!
Og þar lá hann raunar endilangur þessi líka tröllaukni roðagullni dreki, og var steinsofandi. Það ólgaði út frá kjafti hans og nösum og sluppu við og við út reykjarhnoðrar, en eldar hans lágu í dái. Fyrir neðan hann, undir öllum útlimum og risavöxnum upphringuðum hala og raunar allt í kringum hann til allra hliða lágu ósegjanlegir haugar af dýrgripum, smíðagulli og hráu gulli, gimsteinum og skartgripum og silfrinu í hrúgum í roðalituðum bjarmanum.
Smeyginn hafði brotið saman leðurvængina eins og ómælanlega voldug leðurblaka. Hann hallaði sér nokkuð á aðra hliðina svo að hobbitinn gat auðveldlega séð niður með síðum hans og í langan fölleitan kviðinn allan stráðan gimsteinum og brotagulli af því að liggja svo lengi og fast á sínum dýra beði. Fyrir aftan hann á nálægustu veggjum mátti óljóst greina brynjur, skjaldarmerki, hjálma og axir, sverð og spjót hangandi og hvarvetna stóðu raðirnar af stórum kerum og fötum fullum af svo miklum auðæfum að ómögulegt væri að reikna þau út.
Það lýsir svo sem ekki neinu að segja að Bilbó hafi staðið á öndinni. Það eru einfaldlega engin orð lengur til í málinu til að lýsa steingerðri furðu hans, síðan Menn breyttu tungumálinu sem þeir áður höfðu lært af álfum á unaðsdögum heimsins. Bilbó hafði oft heyrt sungið og sagt frá drekagulli, en dýrðin, glitið, frægð slíks fjársjóðs hafði aldrei fyrr komið honum til hugar. Hjarta hans var barmafullt og gripið sömu heillun og þrá dverganna eftir gulli. Og hann starði hreyfingarlaus, hafði næstum steingleymt hinum hræðilega varðliða fyrir neðan sig, við þessa sýn gullsins svo ómetanlegs og óteljanlegs.
Hann starði að því er virtist óstöðvandi á gullið þar til hann skreið, næstum gegnum vilja sínum, út úr skugga dyraopsins yfir gólfið að næsta jaðri fjársjóðahaugsins. Fyrir ofan hann lá sofandi drekinn, hræðileg ógn jafnvel þó í svefni væri. Bilbó greip stóran bikar tvíhentan, svo þungan að hann gat varla borið hann, gaut svo skelfdu auga upp fyrir sig. Smeyginn hreyfði væng, opnaði kló, og hriktið í hrotum hans breytti um tón.
Þá lagði Bilbó á flótta. En drekinn vaknaði ekki — ekki ennþá — heldur skipti yfir í aðra drauma græðgi og ofbeldis, liggjandi þarna í salnum á öllu því sem hann hafði sjálfur stolið, meðan litli hobbitinn stautaði smástígur upp eftir löngum göngunum. Hjartað í brjósti hans hamaðist, fæturnir titruðu og skulfu ennþá meira undir honum en áður á niðurleiðinni. Hann ríghélt þó bikarnum og hugsaði ekki annað en: „Mér tókst það! Þetta skal sýna þeim það og sanna! Líkari auðkýfingi en innbrjóti, verð ég að segja! Þeir skulu ekki heldur lengur kalla mig það!“
Sem þeir heldur ekki gerðu. Balinn var yfir sig glaður að sjá hobbitann sinn aftur. Og hann var ekki aðeins undrandi heldur miklu fremur fagnandi glaður að sjá hann þannig heilan á húfi. Hann lyfti Bilbó upp og bar hann síðasta spölinn út undir bert loft. Þá var miðnætti og skýin höfðu hulið stjörnurnar, en Bilbó lá með augun lokuð, gapti og naut þess svo að anda aftur að sér ferska loftinu að hann tók varla eftir æsingnum í dvergunum né hvað þeir lofuðu hann upp í hástert, klöppuðu á bakið á honum og lýstu ekki aðeins sjálfa sig, heldur allar ættir sínar um ókomnar aldir, honum þjónustufúsar.
Dvergarnir voru enn að láta bikarinn ganga á milli sín hönd úr hönd og tala hástemmt og dásamlega um björgun þessa mikla dýrgrips, þegar allt í einu fór að braka í berginu fyrir neðan þá eins og þetta væri gamalt eldfjall sem hefði ákveðið að byrja aftur að gjósa. Dyrnar fyrir aftan þá voru næstum aftur en þó stór steinn í kverkinni milli stafs og hurðar. En út um langan ganginn heyrðist þessi líka hræðilegi undirgangur, langt neðan úr djúpinu, með öskrum og trampi svo jörðin titraði undir fótum þeirra.