Þá gleymdu dvergarnir aftur gleði sinni og sjálfhælnu grobbi stundinni áður og koðnuðu niður í máttvana skelfingu. Þeir urðu enn að reikna með Smeygni. Það gengur ekki að taka ekkert tillit til heils dreka í áætlunum sínum, allra síst ef hann er rétt á næsta leiti.
Varla er hægt að segja að drekar hafi mikið gagn af öllum sínum auðæfum, en þeir vita upp á hár um allar sínar eigur, einkanlega ef þeir hafa lengi ráðið yfir þeim og þar var Smeyginn engin undantekning. Hann hafði skipt úr óværum draumi (þar sem hann hafði átt í leiðindum með riddara einn að vísu veimiltítu að vexti, en með fjári hvasst sverð og mikið hugrekki) yfir í blund og upp af blundinum hrökk hann og glaðvaknaði. Hann hafði fundið keiminn af undarlegum andblæ í hellinum. Skyldi vera einhver dragsúgur frá þessu litla gati? Hann hafði aldrei verið ánægður með það, þó að það væri ósköp lítið og nú góndi hann á það tortrygginn og botnaði ekkert í því að hann skyldi ekki hafa lokað því fyrir löngu. Upp á síðkastið var hann heldur ekki frá því að hann hefði heyrt einhver hljóð af daufri barsmíð eða sparki langt fyrir ofan sig, sem barst niður í bæli hans. Hann hreyfði sig og teygði upp hálsinn og reigði í allar áttir til að þefa. Þá sá hann allt í einu að bikarinn var horfinn!
Þjófar! Eldur! Morð! Annað eins hafði aldrei fyrir hann komið alla sína tíð síðan hann tók sér búsetu í Fjallinu! Ofsareiði Smeygins yfirgekk allan þjófabálk — það var sama fólskan sem kemur aðeins yfir ríkt fólk sem á langtum meira en það getur nokkurn tímann notið, skyndilega saknar það einhvers sem það hefur lengi átt en aldrei haft neitt gagn né áhuga á. Eldgusurnar þeyttust fram úr kjaftinum á honum, salurinn fylltist af reyk og hann skók rætur fjallsins. Hann þrýsti hausnum árangurslaust á litlu holuna, svo vatt hann upp á endilangan skrokkinn á sér og öskrandi neðan úr djúpunum æddi hann eins og undirheimaþruma upp úr djúpu bæli sínu út um salardyrnar, volduga ganga berghallarinnar og upp og út um Aðalhliðið.
Eina hugsun hans var að þrælkemba allt fjallið þangað til hann hefði klófest þjófinn til að rífa hann í tætlur og trampa á honum. Hann hlykkjaðist út um Hliðið, vatnið gaus upp í ærandi gufumekki og hann þeyttist í logabáli upp í loftið og settist á fjallstindinn í grænum og rauðglóandi eldtungum. Dvergarnir heyrðu hryllingsþytinn af flugi hans og þrýstu sér inn að klettaveggnum í þeirri von að leynast fyrir hryllilegum glyrnum drekans í veiðiham.
Þar hefðu þeir líkast til allir verið drepnir, ef Bilbó hefði ekki enn einu sinni sýnt snarræði. „Fljótt! Fljótt!“ hrópaði hann gapandi. „Dyrnar! Göngin! Hér getum við ekki verið.“
Þeir brugðu skjótt við orðum hans og voru um það bil að skríða inn í göngin, þegar Bifur æpti upp yfir sig: „Frændur mínir, Vambi og Bógur — við höfum steingleymt þeim. Þeir eru eftir niðri í dalnum hérna fyrir neðan!“
„Þeir verða drepnir og allir hestarnir okkar líka og við missum allar vistir okkar,“ stundu hinir. „Við fáum ekkert að gert.“
„Vitleysa!“ sagði Þorinn og náði aftur að viðhalda virðingu sinni og jafnaðargeði. „Við getum ekki skilið þá eftir. Svona nú herra Baggi og Balinn og þið tveir, Fjalar og Kjalar farið strax inn — Drekinn má ekki ná okkur öllum. En þið hinir, komið með reipin. Fljótir nú!“
Þetta varð ein sú versta stund sem þeir höfðu fram til þessa gengið í gegnum. Hræðileg reiðiöskur Smeygins glumdu yfir háfjallasölunum. Hann gæti hvenær sem er ætt í fossandi logabáli niður hlíðina eða sveimað í kring og fundið þá þarna á snarbrattri hamrabrúninni þar sem þeir voru að hamast við að hífa upp kaðlana. Upp komst Bógur og enn var öllu óhætt. Og upp komst sjálfur Vambi, blásandi og másandi þó vissulega brakaði í og tognaði á tauginni og enn var allt með felldu. Upp komust ýmis verkfæri og pokar af vistum en svo skall líka ógnin yfir þá.
Súrrandi hvinur heyrðist. Rautt ljós litaði toppana á standklettunum. Drekinn steypti sér niður.
Þeir höfðu með naumindum komist inn um gangaopið með alla bögglana, þegar Smeyginn kom þjótandi úr norðri, lét logatungurnar sleikja fjallshlíðarnar og barði stórum leðurvængjunum með ærandi hvin. Logandi andardráttur hans sveið grasið utan dyra og spýttist jafnvel örlítið inn um dyrasmáttina sem þeir höfðu skilið eftir, svo þeir sviðnuðu þar sem þeir lágu í felum. Blossandi eldar gusuðust upp og kolsvartir skuggar dönsuðu um klettana. Aftur féll myrkur yfir þegar hann var farinn hjá. Hestarnir hvinu af skelfingu, slitu upp tjóðrin og hentust burt á harðastökki. Drekinn steypti sér niður til að elta þá og var horfinn.
„Það er úti um vesalings klárana!“ sagði Þorinn. „Ekkert kemst undan Smeygni ef hann hefur fest auga á því. Hér stöndum við eftir og hér megum við dúsa nema einhvern okkar langi til að skakklappast allar þessar vegalengdir um opnar víðáttur niður að ánni með Smeygin yfir höfði sér!“
Það var sannarlega ekki skemmtileg tilhugsun! Þeir skriðu til öryggis lengra niður í göngin og þar lágu þeir og skulfu enda þótt þar væri bæði heitt og loftlaust, þangað til föl dögunin gægðist inn um dyragættina. Alla nóttina höfðu þeir við og við heyrt drunurnar frá fljúgandi drekanum glymja við, fara framhjá og þagna út í fjarskann þar sem hann hringsólaði um fjallshlíðarnar.
Drekinn þóttist mega ráða það af hestunum og leifum tjaldbúðanna sem hann fann, að menn hefðu komið ríðandi upp frá ánni og vatninu og klifið fjallshlíðina upp úr dalnum þaðan sem hestarnir höfðu staðið. En hann kom ekki auga á neitt op í hlíðina hvernig sem hann skimaði og litla vikið undir háum klettunum hafði haldið úti ofsalegustu logatungunum. Lengi sveimaði hann yfir í árangurslausri leit þangað til reiði hans rénaði í dögun og hann sneri aftur inn á gullinn beð sinn og lagðist til svefns — til að safna kröftum á ný. En hann myndi ekki gleyma og aldrei fyrirgefa þjófnaðinn þó að hann yrði á þúsund árum að molnandi steini. Og hann gat svo sem beðið. Hægt og hljóðlega skreið hann aftur inn í bæli sitt og lygndi aftur lævísum glyrnunum.
Þegar birti upp dró úr skelfingu dverganna. Þeir gerðu sér ljóst að einhver hætta hlaut að fylgja því að leita á slíkan rassmalagest og því engin ástæða til að blikna eða blána strax. Auk þess var engin leið fyrir þá að komast undan eins og Þorinn benti svo réttilega á. Hestarnir voru týndir eða drepnir og nú myndu þeir verða að bíða langalengi áður en Smeyginn losaði nógsamlega um varðstöðu sína svo að þorandi væri fyrir þá að fara þessa löngu leið til baka fótgangandi. Sem betur fer hafði þeim tekist að bjarga töluverðum vistum, sem myndu endast þeim lengi enn.
Þeir ræddu fram og aftur um það hvað nú væri til ráða, en komu alltaf að sama vandamálinu, að engin leið virtist sýnileg til að ryðja Smeygni úr vegi — en þetta hafði alltaf verið veikasti hlekkurinn í áætlun þeirra og gat Bilbó ekki látið hjá líða að benda þeim á það. En þá fór fyrir þeim eins og oft hendir þá sem ekki vita sitt rjúkandi ráð, að þeir skelltu allri skuldinni á hobbitann og fóru nú að skamma hann einmitt fyrir það sem þeir áður voru svo hrifnir og þakklátir fyrir: — Hvað þurfti hann að vera að taka gullbikarinn og reita Smeygin þannig til reiði.
„Hvað annað hefði ég sosum átt að gera sem innbrjótur,“ andmælti Bilbó reiðilega. „Ég var ekki ráðinn til að drepa dreka, það er hlutverk stríðskappa, mitt verk er að stela fjársjóði. Ég byrjaði líka reglulega vel. Eða bjuggust þið kannski við því, að ég kæmi berandi á bakinu til ykkar með alla fjársjóði Þrórs? Ef einhver ætti að vera óánægður, þá held ég að ég mætti nokkuð segja. Þá hefðuð þið þurft að taka fimm hundruð innbrjóta með ykkur en ekki einn. Vissulega er það mikill heiður fyrir afa ykkar að hann skyldi hafa verið svona ofsalega auðugur, en þið gáfuð mér aldrei hið minnsta í skyn, hve gífurlegir fjársjóðir hans voru. Það tæki mig hundrað ár að bera þá hingað út, þó ég væri fimmtíu sinnum stærri en ég er, og Smeyginn fylgdist með spakur eins og kanína.“