Í því sneri herra Baggi hurðarhúninum og gekk inn. Nú var það Tókaeðlið í honum sem hafði betur. Nú var honum sama þótt hann sleppti bæði svefni og morgunmat til að sýnast kaldur karl. Og þetta um litla ræfilinn skjálfandi á mottunni æsti hann svo upp, að hann vissi ekkert hvað hann gerði. Oft á tíðum harmaði Baggaeðlið í sér hvað hann gerði núna og álasaði sjálfum sér: „Bilbó, þú varst meiri fábjáninn, þú gekkst inn og steigst sjálfur loðnum tánum út í kviksyndið.“
„Afsakið mig,“ sagði hann, „en mér varð á að heyra nokkur orð til ykkar. Ég ætla mér ekki einu sinni að láta sem ég viti hvað þið eruð að bralla, né tilvísun ykkar til innbrotsþjófa, en ég tel að það sé rétt skilið hjá mér (því nú var komið að því sem hann taldi varða heiður sinn) að þið álítið mig einskis nýtan. En eitt vil ég barasta segja ykkur. Það eru ekki nokkur einustu merki á húsdyrum mínum — ég ætti að vita það því að hurðin var máluð fyrir viku — og ég er alveg sannfærður um að þið hljótið að hafa villst á húsum. Þegar ég sá ykkur, hvern á fætur öðrum standandi á þrepskildinum mínum, grunaði mig strax að þetta væri allt tómur misskilningur eða gabb. En segjum nú svo, ef þetta ætti að vera rétta húsið, þá á ég heimtingu á því að þið gerið mér grein fyrir, hvað þið viljið mér og hvað ég á að gera. Hver veit nema ég yrði yðar þjónustufús, jafnvel þó þið senduð mig til að leysa þrautir í austasta austrinu og berjast við villtustu Varúlfa og Varorma í Hinstuauðnum, því að langalangalangalangafabróðir minn var enginn annar en Bolabrestur Tóki, og —“
„Jájájá, við vitum sosum allt um það, en það var fyrir svo langalöngu,“ sagði Glóinn. „En ég var að tala um þig. Og þú þarft ekkert að segja mér um það, að merkið var á hurðinni – sem er venjulegt í iðngreininni, eða var það að minnsta kosti. „Æfðan innbrotsþjóf vantar gott starf með mikilli spennu og hæfilegum launum,“ þannig er venjulega lesið úr því. En eins má setja Æfðan fjársjóðaleitara í staðinn fyrir innbrotsþjóf, ef þú vilt það heldur. Sumir hafa líka tekið upp það starfsheiti. Það kemur í sama stað niður. Gandalfur sagði okkur að hér um slóðir væri einmitt einn slíkur á lausum kjala og hann hefði mælt sér mót með honum hér í miðvikudagsteinu.“
„Auðvitað var merkið á hurðinni,“ sagði Gandalfur. „Því að ég hafði sjálfur sett það þar. Og af ósköp eðlilegum ástæðum. Þið báðuð mig um að finna þann fjórtánda í leiðangurinn, og ég valdi herra Bagga. Og ekki þarf annað en að einhver ykkar segi að ég hafi valið rangan mann eða rangt hús, og þá verðið þið aftur þrettán með allri þeirri ógæfu sem þeirri tölu fylgir, eða þið hættið við allt saman og snúið ykkur aftur að því að grafa kol úr jörð.“
Hann byrsti sig svo illilega framan í Glóin að dvergurinn seig saman í stólnum og þegar Bilbó ætlaði eitthvað að fara að gebba sig, sneri hann sér að honum, gretti sig og yggldi kafloðnar brýrnar svo að Bilbó sá það ráð vænst að láta strax aftur munninn svo small í. „Það var rétt,“ sagði Gandalfur. „Um þetta þarf ekki frekar að þjarka. Ég hef valið herra Bagga og það ætti að vera ykkur nægilegt. Ef ég segi að hann sé fyrirtaks Innbrjótur, þá er hann Innbrjótur, eða kemst upp á lagið að stela með tímanum. Hann hefur af miklu meiru að má en þið getið ímyndað ykkur, og langtum meiru en hann hefur sjálfur hugmynd um. Ég er handviss um að þegar þið hafið lifað af leiðangurinn (ef þið þá gerið það) þá getið þið þakkað mér fyrir valið á honum. Jæja, Bilbó drengur minn, farðu nú að sækja lampann svo að við getum brugðið svolitlu ljósi yfir þetta allt saman.“
Svo vatt Gandalfur í sundur skinnrollu í ljósinu frá stóra lampanum með rauða skerminum og líktist það einna helst landabréfi.
„Sjáðu nú Þorinn, þennan uppdrátt gerði Þrór afi þinn,“ og til að svara æstum spurningum Dverganna bætti hann við. „Þetta er uppdráttur af Fjallinu eina.“
„Ég sé nú ekki að það komi okkur að miklu gagni,“ sagði Þorinn vonsvikinn eftir að hafa rennt augum yfir það. „Ég man sjálfur vel eftir Fjallinu og öllu næsta umhverfi þess. Það þarf enginn að segja mér hvar Myrkviður er eða Visnuheiðar þar sem Stóru drekarnir æxlast.“
„Þarna er líka teiknuð rauð drekamynd við Fjallið,“ sagði Balinn, „við ættum nú heldur ekki að eiga í neinum vandkvæðum með að finna hann, ef við nokkurn tímann komumst þangað.“
„En einu atriðinu hafið þið ekki tekið eftir,“ sagði vitkinn, „og það eru leynidyrnar. Sko þarna rúnamerkið undir Vesturhlíðinni og hendina sem bendir þangað frá hinum rúnunum? Þar er verið að sýna leyniinnganginn að Neðri sölum.“ (Sjáið kortið í bókarlok með rúnatextanum og skýringar við það).
„Hann kann að hafa verið leynilegur í þá daga,“ sagði Þorinn, „en hvernig getum við treyst á að hann sé enn leynilegur? Gamli Smeyginn hefur nú hafst þar við svo lengi, að hann veit sjálfsagt allt sem hægt er að vita um þessa ranghala.“
„Það kann að vera – en hann hefur þó varla notað ganginn mikið.“
„Af hverju?“
„Af því að hann er of þröngur fyrir hann. „Fimm feta háar dyrnar og þrír mega ganga hlið við hlið,“ segja rúnirnar, og Smeyginn getur ekki smeygt sér ofan í svo þrönga holu, jafnvel ekki meðan hann var ungur og enn síður nú eftir að hann hefur steytt sig út af svo mörgum dvergum og Dalverjum.“
„Mér fyndist það nú alveg nógu víður gangur fyrir mig,“ tísti í Bilbó (sem þekkti ekkert til dreka, en var vel kunnugur hobbitaholum). Hann var orðinn svo spenntur og áhugasamur, að hann steingleymdi að halda sér á mottunni. Hann hafði líka svo mikið dálæti á landabréfum og í forstofunni hékk uppi stórt kort af sveitinni í kring og þar hafði hann merkt inn á með rauðu bleki allar uppáhalds gönguleiðir sínar. „Hvernig ætti líka að vera hægt að fela svo stórar dyr fyrir nokkrum sem ætti leið framhjá þeim, hvað þá fyrir drekanum?“ spurði hann. En hann var nú bara lítill hobbiti, það verður að hafa í huga.
„Með ýmsu móti,“ sagði Gandalfur. „En hvernig nákvæmlega þessar dyr eru huldar vitum við ekki fyrr en við komum að þeim. Eftir því sem sagt er á kortinu ímynda ég mér að dyrunum sé þannig hagað að utanverðu, að þær líti út eins og sjálf fjallshlíðin án þess að nokkra missmíði sjái á. Þannig fara Dvergar einmitt að — held ég, er það ekki rétt?“
„Jú, víst er um það,“ sagði Þorinn.
„Og nú þarf ég að bæta við,“ hélt Gandalfur áfram, „því sem ég áður gleymdi að minnast á, að kortinu fylgir lykill, lítill og skrýtinn lykill. Hér er hann!“ sagði hann og rétti Þorni svolítinn lykil með löngum pípulegg og flóknu lykilskeggi, allt úr silfri. „Gættu hans vel!“
„Svo skal gert,“ sagði Þorinn og festi hann á fína keðju um hálsinn, sem hann huldi undir jakkanum. „Nú finnst mér hlutirnir vera farnir að skýrast. Þessi viðbót breytir öllu til batnaðar. Fram að þessu höfum við ekki haft neina skýra hugmynd um, hvað við gætum gert. Við ætluðum bara að fara austur eins hljóðlega og varlega og hægt væri, upp á von og óvon, allt til Langavatns. Þá myndu vandræðin upphefjast —“