Выбрать главу

Eftir þennan reiðilestur lutu Dvergarnir höfði og báðu hann auðvitað auðmjúkir fyrirgefningar. „En hvað leggur þú til að við gerum, herra Baggi?“ spurði Þorinn kurteislega.

„Ég hef enga hugmynd um það sem stendur — ef þið eigið við, hvernig við eigum að taka með okkur fjársjóðinn. Það getur ekki byggst á neinu öðru en því að heppnin verði með okkur og að við getum með einhverju móti losnað við Smeygin. Það er ekki mitt fag að losna við dreka, en ég skal þó gera allt sem í mínu valdi stendur til að brjóta heilann um það. Sjálfur hef ég alls enga von um það og vildi bara vera kominn heill heim aftur.“

„Látum það nú liggja milli hluta í bili! En hvað eigum við til bragðs að taka núna, á þessari stundu?“

„Jæja, ef þið viljið raunverulega þiggja ráð mín, þá mundi ég segja að við getum ekkert annað gert en haft hægt um okkur þar sem við erum nú. Á daginn væri okkur vafalaust óhætt að skríða út til að anda að okkur hreinu lofti. Kannski væri á það hættandi eftir nokkurn tíma að einn eða tveir okkar yrðu valdir til að fara niður að birgðastöðinni okkar við ána og sækja okkur meiri vistir. En fyrst um sinn ættum við allir að halda okkur vel inni í göngunum að næturlagi.

Og nú skal ég gera ykkur tilboð. Hér er ég með hringinn og ég skal strax í hádeginu skríða þangað niður — hver veit nema Smeyginn sé enn sofandi — og aðgæta annars hvað hann ætlast fyrir. Kannski ég gæti komist á snoðir um eitthvað, hver veit, því að — „allir ormar hafa snöggan blett“ eins og faðir minn var vanur að segja, en ég efast þó um að hann hafi byggt það á eigin reynslu.“

Að sjálfsögðu þekktust dvergarnir ákafir þetta boð. Nú voru þeir þegar farnir að meta Bilbó litla öðrum fremur. Hann var orðinn eins og raunverulegur foringi í ævintýri þeirra. Hann var farinn að hafa sínar eigin hugmyndir og áætlanir. Um hádegisbil lagði hann af stað í annan könnunarleiðangur niður í fjallið. Auðvitað leist honum svo sem ekkert á það, en honum fannst það þó ekki eins afleitt nú, þegar hann vissi undan og ofan af því hvað biði hans. Hefði hann hinsvegar vitað meira en hann vissi um dreka og hvað þeir geta verið fjári slungnir, hefði hann kannski verið enn hræddari og ekki jafn vongóður um að koma að honum sofandi.

Þegar hann lagði af stað skein sól í heiði úti fyrir, en inni í göngunum var myrkt eins og af koldimmri nótt. Ljósið frá hálfopinni dyragáttinni hvarf brátt þegar hann lagði af stað niður. Hann hafði svo hljótt um sig að jafnvel blærinn af blíðustu golu hefði ekki getað verið hljóðari og hann gat ekki að sér gert að vera þó nokkuð hreykinn af sjálfum sér, þegar hann nálgaðist neðri útganginn. Þar sást nú aðeins hinn daufasti bjarmi.

„Jæja, svo gamli Smeyginn er þreyttur og sofandi,“ hugsaði hann. „Hann getur ekki séð mig og hann skal heldur ekki fá að heyra neitt í mér. Vertu nú kátur Bilbó!“ Hann hlýtur að hafa verið búinn að gleyma eða aldrei fengið neitt að heyra um þefskyn dreka. Einnig er það nokkuð óþægileg staðreynd, að þeir geta lygnt aftur auga en þó fylgst með öllu meðan þeir sofa, einkum ef tortryggni þeirra hefur einu sinni verið vakin.

Óneitanlega virtist Smeyginn vera steinsofandi, eins og hann væri dauður og útkulnaður, það heyrðust varla minnstu hrotur frá honum, aðeins smáblástur frá ósýnilegri andgufu, þegar Bilbó gægðist enn einu sinni frá opinu. Hann var rétt í þann veginn að stíga út á gólfið þegar hann varð skyndilega var við örmjóan en hvassan roðageisla undan lygndu augnaloki á vinstra auga Smeygins. Hann þóttist þá aðeins sofa! Hann var að fylgjast með gangaopinu! Bilbó hörfaði undan í skyndi og þakkaði hringnum sínum sæla fyrir. Þá mælti Smeyginn:

„Svona nú, þjófur! Ég finn lyktina af þér og loftinu sem kemur inn með þér. Ég heyri þig líka anda. Komdu nú og gjörðu svo vel! Bjargaðu þér sjálfur, hér er af nógu að taka handa þér!“

En Bilbó var nú ekki alveg svo blár í drekafræðum að hann félli fyrir þessu bragði og hafi Smeyginn ímyndað sér að honum tækist svo auðveldlega að ginna þjófinn nær, þá varð hann ábyggilega fyrir vonbrigðum. „Nei, þakka þér kærlega fyrir, Ó, Smeyginn hinn Hrikalegi!“ svaraði Bilbó. „Ég kom ekki til að þiggja gjafir, heldur langaði mig aðeins til að heimsækja þig og vita hvort þú værir í reynd svo mikill sem sagnirnar herma. Ég trúði þeim ekki.“

„En trúirðu þeim nú?“ spurði drekinn og gekkst upp við hólið, þó hann vissi að þetta væri tómt fals.

„Sannlega komast söngvar og sagnir eigi í hálfkvisti við raunveruleikann, Ó, Smeyginn, Æðstur og Voldugastur af öllum Plágum,“ svaraði Bilbó.

„Það kalla ég að þú sért kurteis af þjófi og lygara að vera,“ sagði drekinn. „Þú þykist þekkja vel nafn mitt, en ég kem ekki lyktinni af þér fyrir mig. Leyfist mér að spyrja hver ertu og hvaðan kemurðu?“

„Víst máttu það! Ég kem undan hæð og undir hæð og yfir hæð lá leið mín og um lofthæðir. Ósénn geng ég.“

„Því get ég vel trúað,“ sagði Smeyginn, „en varla er það venjulegt nafn þitt.“

„Ég er gátugreiðir, vefskeri, flugstingur. Svo var ég valinn sem einskonar happatala.“

„Dálagleg nöfn!“ hnussaði í drekanum. „En happatölur hitta ekki alltaf á hnappinn.“

„Ég gref vini mína lifandi og drekki þeim og dreg þá síðan aftur á lífi upp úr vatninu. Ég var bundinn fast í bagga en þó fékk enginn baggi bundið mig.“

„Ekki virðist það nú trúlegt,“ sagði Smeyginn háðslega.

„Ég er bjarnvinur og arngestur. Ég er Hringfari, Lukkugapi og Tunnuknapi,“ hélt Bilbó áfram og var nú orðinn meira en lítið grobbinn af gátum sínum.

„Það var þó eitthvað betra!“ sagði Smeyginn. „En láttu nú ekki hugmyndaflugið hlaupa alveg með þig í gönur!“

Svona á einmitt að tala við Dreka, ef maður vill ekki segja þeim til síns rétta nafns (sem auðvitað á aldrei að gera), en heldur ekki að espa þá upp með neinni þverúð (og það er heldur ekki skynsamlegt). Enginn dreki stenst ánægjuna af gátuleikjum og það gildir hann einu hvað hann eyðir löngum tíma í að ráða þær. Og hér var komið saman heilmikið gátuefni sem Smeyginn botnaði ekki nokkurn skapaðan hlut í (þó ég sé viss um að þið skiljið það öll, sem kannist nú við ævintýrin sem Bilbó hafði lent í). En hann þóttist þó strax geta ráðið í sitt hvað og því klúkkaði illyrmislega í honum.

„Ég þóttist vita það strax í gærkvöldi,“ glotti hann með sjálfum sér. „Skyldu það ekki einmitt vera þessir Vatnabúar með eitthvert andstyggilegt ráðabrugg, þessir vesælu tunnumangarar að mér heilum og lifandi, nema ég sé einhver eðla. Það er nú orðið æði langt síðan ég hef litið inn til þeirra, það er tími til að kippa því í lag!“

„Jæja, einmitt það, Ó Tunnuknapi!“ sagði hann upphátt. „Áttu kannski við að hesturinn þinn hafi heitið Tunna, og þó svo sé kannski ekki, þá var hann samt nógu spikfeitur. Má vera að þú gangir nú ósénn, en svo mikið er víst að þú ert ógenginn hingað. Því ég vildi bara láta þig vita að ég át sex jálka í gærkveldi og hina skal ég líka hesthúsa og rífa í mig. Og um leið og ég vildi þakka fyrir þennan ágæta málsverð langar mig til að gefa þér gott ráð: