Hafðu ekki meiri samskipti við dverga en þú kemst hjá!“
„Dverga!“ hrópaði Bilbó í uppgerðarundrun.
„Þú skalt ekki tala við mig í svona tón!“ sagði Smeyginn. „Ég ætti nú að þekkja lyktina (og raunar bragðið líka) af dvergum — enginn þekkir það betur en ég. Og þú skalt heldur ekki ímynda þér að ég geti étið dvergriðinn hest, án þess að vita það! Þú munt hljóta illan endi, ef þú velur þér slíka að vinum. Þjófótti Tunnuknapi, mín vegna máttu fara burt til þeirra og skila þessu frá mér.“ En hann forðaðist að segja Bilbó að einni lyktinni gat hann ómögulega botnað í, það var hobbitalyktin. Hún var gjörsamlega utan við alla hans lífsreynslu og olli honum ógurlegum heilabrotum.
„Það er ekki ólíklegt að þú hafir fengið gott verð fyrir bikarinn sem þú stalst frá mér í gærkvöldi,“ hélt hann áfram. „Svona, viðurkenndu það, fékkstu ekki uppgripaverð fyrir hann? Eða kannski ekki neitt! Jæja, einmitt það, það væri svo sem eftir þeim. Og ætli þeir séu ekki að lúskrast fyrir utan, meðan þú ert látinn vinna allt það hættulegasta og ná í það frá mér, sem þú getur handa þeim, þegar ég er ekki nógu vel á verði? Og þú býst víst við að fá þinn réttlátan skerf? Þú ímyndar þér það þó ekki! Þú mátt vera heppinn ef þú sleppur lifandi burt frá þeim.“
Bilbó var farinn að finna til mestu óþæginda. Hvenær sem skimandi glyrnur Smeygins fóru framhjá honum í myrkrinu varð hann gripinn undarlegum skjálfta og einhverri óskiljanlegri löngun til að gefa sig fram og segja drekanum allan sannleikann. Í raun og veru var hann í mikilli hættu á að komast á vald drekans. En hann reif sig upp úr því og tók aftur til máls.
„Ó, Smeyginn hinn Mikli og Máttugi, fátt virðist þú vita,“ sagði hann. „Því að það var ekki gullið eitt sem hingað togaði okkur.“
„Ha! Ha! Þarna komstu upp um þig, „okkur“, “ sagði Smeyginn og hló við hátt. „Þér hefði alveg verið óhætt að segja „okkur fjórtán“ og ekki vera að leyna mig neinu, Herra Lukkutala! En gaman er að heyra, að þið hafið átt önnur erindi hingað um slóðir en að stela gullinu mínu. Skyldi þá vera að ferðin yrði ekki algjör tímasóun?
Ég veit ekki heldur hvort þú hefur hugsað út í það, að jafnvel þótt þér tækist að stela gullinu frá mér smámsaman — á svo sem hundrað árum — þá kæmistu ekki mjög langt með það? Það er lítið gagn að því í fjallshlíðinni? Einskisnýtt í skóginum? Hjálpi mér! Hefurðu aldrei leitt hugann að þessu? Þú færð fjórtánda hlut, býst ég við, eða eitthvað í þá veruna, ætli það hafi ekki verið skilmálarnir, he, he? En hvað um afhendingarskilmála? Hvað um flutninginn? Hvað um vopnaða landamæraverði og tollgjöld? Hehehe!“ Og Smeyginn skellihló. Hann var illvígur og rotinn og vissi að ágiskanir sínar myndu ekki vera fjarri lagi, þótt hann grunaði að vísu að Vatnabúar stæðu aðallega á bak við þessar áætlanir og að mestur hluti ránsfengsins yrði eftir þar í borginni þarna við vatnsbakkann sem á yngri árum hans nefndist Ásgerði.
Ykkur finnst það kannski ótrúlegt, en vesalings Bilbó brá mjög illa við allar þessar bollaleggingar. Fram að þessu hafði hann beint allri sinni hugarorku og einbeitni að því einu að komast sem fyrst til Fjallsins og finna leyniganginn. Hann hafði aldrei nennt einu sinni að hugsa út í það, hvernig ætti að flytja fjársjóðinn burt og allra síst hvernig hann ætti að fara að því að koma sínum hlut burt alla leið í Baggabotn, undir Hólinn.
Og nú fór líka ótuktarleg tortryggni að grafa um sig í huga hans — höfðu dvergarnir líka gleymt þessu mikilvæga atriði, eða var það með ráðum gert og höfðu þeir hann allan tímann að fífli? Þannig áhrif hafði drekaræðan á þann sem var svo óreyndur. Bilbó hefði auðvitað átt að vera skynsamari en þetta, en sannleikurinn var sá að Smeyginn var ákaflega drottnandi persónuleiki.
„Ég skal bara segja þér,“ hélt hann nú áfram að malda í móinn til að vera trúr vinum sínum og halda sínu fram, „að gullið var aðeins aukaatriði hjá okkur. Við komum hingað yfir hæð og undir hæð, bárumst fyrir vofum og vindum til Hefnda. Já vissulega, Ó, Smeyginn ótaldra auðæva, þú ættir að skilja að í allri auðsæld þinni hefurðu eignast fjölda hatrammra óvina?“
Þá brast út hláturinn hjá Smeygni — ofboðslegur glymjandi hávaði sem hristi Bilbó svo hann féll á gólfið en lengst uppi í ganginum brá dvergunum við og þeir hjúfruðu sig saman og ímynduðu sér auðvitað að hobbitinn hefði beðið þar snögg og hörmuleg endalok.
„Hefnd!“ snörlaði í honum og glampinn úr glyrnum hans lýsti upp allan salinn eins og í eldrauðu leiftri. „Hefnd! Hvaðan ætti sú hefnd að koma? Kóngurinn undir Fjalli er dauður og hvar ættu hans afkomendur að vera sem dirfðust að leita hefnda? Girion höfðingi á Dal er dauður og ég hef rifið í mig þegna hans eins og úlfurinn étur sauðina og hvar ættu þeir sonarsynir hans að vera sem dirfðust að koma nálægt mér? Ég drep hvar sem mér sýnist og enginn þorir að sýna mér mótspyrnu. Ég lagði lágt að velli hina voldugu fornu stríðskappa og nú fyrirfinnst enginn þeirra líki í öllum heimi. Þá var ég nú bara ungur og óhertur. Nú er ég gamall og sterkur, sterkur, sterkur. — Þjófur á Nóttu!“ þrumaði hann og kunni sér ekki læti, „brynja mín er á við tíu skildi, tennurnar flugbeitt sverð, klærnar sem spjót, halahögg mitt þrumufleygur, vængirnir ofsaveður og andardráttur minn dauði!“
„En mér hefur nú alltaf skilist,“ dirfðist Bilbó að gefa andsvör, en ósköp mjóróma samt, „að drekar séu eitthvað mýkri að neðanverðu, sérstaklega á, hérna, já, — á brjóstinu. En svo mikill bryndreki sem þú ert, hefur sjálfsagt hugsað út í það.“
Við þetta snarstöðvaðist drekinn í öllu sjálfhóli sínu, og var fljótur að taka við sér. „Upplýsingar þínar eru nú allsendis úreltar,“ hreytti hann út úr sér. „Ég er brynvarinn hátt sem lágt með járnplötum og hörðustu gimsteinum. Ekkert sverðsblað fær neins staðar unnið á mér.“
„Ég hefði getað sagt mér það sjálfur,“ sagði Bilbó. „Vissulega finnst hvergi líki Smeygins hins ógegnumstinganlega. Hvílík tign að klæðast vesti úr fínustu demöntum!“
„Já, víst er það sjaldgæft og undursamlegt,“ sagði Smeyginn yfir sig skjallaður. En hann vissi ekki að í fyrri ferðinni, meðan hann lá sofandi á fjársjóðnum, hafði hobbitinn þegar séð hina óvenjulegu undirbrynju, en sárlangaði að skoða hana nánar af sérstakri ástæðu. Drekinn velti sér á bakið. „Sjáðu!“ sagði hann. „Hvað segirðu við þessu?“
„Stórkostlegt, dásamlegt! Fullkomið! Lýtalaust! Yfirþyrmandi!“ hrópaði Bilbó hátt yfir sig, en með sér hugsaði hann: „Gamli bjáninn! Að hugsa sér, þarna er stór blettur í krikanum vinstra megin undir bringunni jafn húðnakinn og snigillinn út úr kuðungnum!“
Eftir að herra Baggi hafði fengið þessar upplýsingar, hafði hann aðeins áhuga á að komast burt sem allra fyrst. „Jæja, mér þykir það leitt, en ég vil ekki lengur halda yðar Tignarleika uppi á svona snakki,“ sagði hann, „né hindra þig í að njóta vel verðskuldaðrar hvíldar. Ég veit að það hefur ekki verið auðhlaupið hjá þér að handsama hestana á hlaupunum, eins og þú hlýtur að hafa verið stirður á öllum liðamótum eftir miklar innisetur. Og ekki er heldur auðvelt að grípa innbrjóta,“ bætti hann við sem lokakveðju um leið og hann skaust til baka upp í göngin.