Выбрать главу

Þetta hefði hann betur látið ósagt, því að drekinn rauk til og spúði hræðilegum eldbólstrum á eftir honum, og þó Bilbó hlypi sem fætur toguðu upp eftir göngunum var hann ekki kominn nærri nógu langt til að hollt væri fyrir hann, þegar Smeyginn tróð ógeðslegum hausnum að opinu fyrir aftan hann. Sem betur var hausinn og þar með kjafturinn of stór til þess að hann gæti troðið þeim inn, en út um nasirnar stóð eld- og gufustrókurinn á eftir Bilbó svo hann var næstum búinn að vera. Hann ráfaði áfram blindandi í miklum sviða og skelfingu.

Hann hafði verið svo ánægður með allt samtal sitt við Smeygin að hann gleymdi sér undir lokin, en hann áttaði sig á mistökum sínum, hrökk við og sá að sér.

„Dragðu aldrei dár að drekum, Bilbó bjáninn þinn,“ sagði hann við sjálfan sig og þetta átti einmitt eftir að verða eitt af uppáhalds orðatiltækjum hans á síðari árum og næstum því máltæki. „Ekki erum við víst alveg búnir að bíta úr nálinni með þetta ævintýri,“ bætti hann við og það var líka nokkuð til í því.

Degi var tekið að halla þegar hann kom aftur út úr dyrunum og féll í yfirlið út yfir „dyraþrepið“. En dvergarnir tóku vl á móti honum, lífguðu hann við og græddu sviðasárin eftir því sem þeir gátu. Langur tími leið áður en hárið á hnakkanum óx aftur og brunablettirnir á hælunum greru. Vinir hans gerðu allt hvað þeir gátu til að hressa hann við, en þeir biðu líka spenntir eftir að fá að heyra sögu hans, sérstaklega voru þeir ákafir að fá að vita af hverju drekinn hafði verið með þessi ógnar læti og hvernig Bilbó hefði sloppið frá honum.

En hobbitinn var áhyggjufullur og önugur, svo þeim ætlaði ekki að takast að ná neinu upp úr honum. Þegar hann fór yfir það í huganum sem hann hafði látið út úr sér við drekann, iðraðist hann margs af því og langaði ekki til að fara að endurtaka það. Gamli þrösturinn sat þarna á kletti skammt frá og hallaði undir flatt eins og hann væri að hlusta á allt sem sagt var. Og það er til sannindamerkis um hvað Bilbó var í afleitu skapi að hann þreif upp stein og kastaði honum að þrestinum sem gerði ekki annað en að flögra snögglega til hliðar og setjast aftur.

„Skrattans fuglinn!“ sagði Bilbó fúll. „Mér finnst hann vera að hlusta á okkur og mér er ekkert um hann gefið.“

„Láttu hann í friði!“ sagði Þorinn. „Þrestir eru góðir og vinalegir fuglar — mér sýnist þessi líka vera mjög gamall, kannski er hann síðasti afkomandi stofnsins sem hér lifði áður, en þeir voru svo gæfir að þeir settust á hendur föður míns og afa. Þetta var langlífur stofn einhvers konar töfrafugla og hver veit nema þessi hafi þá verið á lífi og hann sé nú orðinn tvö hundruð ára eða meira. Dalverjar komust upp á lagið með að skilja tungumál þeirra og notuðu þá sem sendiboða til Vatnabyggðar og víðar.“

„Jæja, þá ætti hann að hafa tíðindi að færa til Vatnaborgar, eftir allt sem hér hefur á gengið, ef hann er á höttunum eftir slíku,“ sagði Bilbó. „Þó býst ég varla við að þar séu margir eftir sem hafa mikinn áhuga á þrastamáli.“

„Nú, en hvað var það þá sem gerðist?“ hrópuðu dvergarnir. „Haltu nú áfram með sögu þína!“

Svo að Bilbó leysti frá skjóðunni um allt sem hann gat munað, og hann viðurkenndi meira að segja að sér liði bölvanlega yfir því að drekinn myndi hafa ráðið um of í gátur hans, þegar hann gat nú líka stuðst við tjaldbúðaleifarnar og hestana til viðbótar. „Ég er næstum viss um að hann veit nú að við komum frá Vatnaborg og fengum liðsinni þaðan. Því hef ég það hryllilega á samviskunni að hann muni næst láta til sín taka þar. Ég vildi óska að ég hefði aldrei nefnt það í galsanum að ég væri Tunnuknapi. Það getur nú hver blindur héri hér um slóðir séð, að þar er vísað til Vatnabúa.“

„Svona, svona! Það verður nú ekkert við því gert, og það er líka alltaf hætta á að mönnum verði það á að tala af sér við dreka, eða svo hef ég heyrt,“ sagði Balinn og vildi umfram allt hughreysta hann. „Ég get ekki betur séð en að þú hafir staðið þig mjög vel, ef ég á að segja eins og er — svo mikið er víst að þú hefur komist að merkilegum upplýsingum og sloppið aftur lifandi, og það er meira en flestir geta sagt sem hafa átt orðaskipti við Smeygin. Það getur vissulega verið blessun og komið sér vel að vita að það er varnarlaus snöggur blettur á demantsbrjóstbrynju gamla ormsins.“

Svo viku þeir við umræðuefninu og fóru að ræða alls kyns sagnir af drekadrápum, sumum sögulegum, öðrum vafasömum og goðsagnakenndum og að lýsa hinum margvíslegustu stungum og sverðalögum, kviðristum og alls kyns herbrögðum, tækjum og tólum sem beitt hefði verið til að koma þeim fyrir kattarnef. En almennt kom fram sú skoðun að það myndi ekki vera eins auðvelt og það virtist að koma drekum að óvörum. Ef menn reyndu að stinga einhvern eða berja á þeim sofandi, væru meiri líkur á að allt misheppnaðist, fremur en djörf árás beint framan að þeim. Allan tímann hlýddi þrösturinn áhugasamur á tal þeirra, þar til að stjörnurnar fóru að lokum að gægjast fram, þá þandi hann vængi sína hljóðlega og flaug burt. En allan tímann meðan þeir töluðu og skuggarnir lengdust varð Bilbó órólegri og ónotalegt hugboð náði valdi á honum.

Loks gat hann ekki orða bundist. „Mér finnst við vera algerlega andvaralausir hérna,“ sagði hann, „og ég skil ekki hversvegna við þurfum endilega að sitja hér fyrir utan. Þið sjáið að drekinn hefur þegar sviðið allan fallega græna gróðurinn, það er komin nótt og orðið kalt. En ég finn það einhvern veginn á mér, gegnum merg og bein, að hann á eftir að gera aðra árás hérna. Smeyginn veit nú mæta vel hvernig ég komst niður í salinn og þá þarf ekki að sökum að spyrja, að hann gerir sér grein fyrir hvar útgangurinn er. Hann gæti malað alla fjallshlíðina niður í sand og salla, ef hann teldi þess við þurfa, til að loka innganginum okkar, og ef honum tækist í leiðinni að lemja okkur í klessu, því ánægðari yrði hann.“

„Ósköp ertu eitthvað svartsýnn, herra Baggi!“ sagði Þorinn. „En hvers vegna hefur Smeyginn þá ekki lokað fyrir neðra opið, ef honum er svo mikið í mun að loka fyrir göngin? Hann hefur ekki gert það, eða ættum við þá ekki að hafa frétt eitthvað frá honum?“

„Ég veit það ekki, nei, satt að segja veit ég það ekki — því að fyrst í stað vildi hann einmitt nota göngin til að ginna mig inn, að því er ég býst við. Kannski vill hann ekki raska neinu, af því að hann ætlar að fara á veiðar í kvöld, eða vegna þess að hann vill ekki spilla svefnskála sínum ef hægt er að komast hjá því. — En hver sem ástæðan er, bið ég ykkur um að vera ekki lengur að þrefa um þetta við mig. Smeyginn kemur nú yfir okkur á hverri stundu og eina von okkar til að fá lífi haldið er að koma okkur vel inn í göngin og loka dyrunum.“

Bilbó var svo mikil alvara að loksins létu dvergarnir undan óskum hans. Þó voru þeir alls ófáanlegir til að loka dyrunum — það fannst þeim alltof viðurhlutamikið, því að enginn þeirra hafði hugmynd um hvort eða hvernig þeir ættu þá að opna þær aftur að innanverðu, og sú tilhugsun var þeim ekki að skapi að lokast inni svo að engin leið væri að komast út, nema í gegnum bæli drekans. Þar við bættist að allt virtist svo kyrrlátt hvort sem var úti fyrir eða inni í göngunum. Því héldu þeir enn lengi vel kyrru fyrir og töluðust við inni í göngunum rétt fyrir innan opnar dyrnar.