Выбрать главу

Umræðurnar beindust nú að brígslum drekans um dvergana. Bilbó hefði helst aldrei viljað heyra þau orð, eða að minnsta kosti vildi hann geta treyst því að dvergarnir væru algjörlega heiðarlegir, þegar þeir lýstu því yfir að þeir hefðu aldrei hugsað út í, hvað yrði um fjársjóðinn eftir að þeir hefðu unnið hann. „Við litum einungis á þetta sem algjöra örvæntingartilraun,“ sagði Þorinn, „og það gerum við enn. Og enn er það skoðun mín að eftir að við höfum unnið hann, verði nógur tími til að íhuga hvað við eigum að gera við hann. Hvað viðkemur þínum hlut, herra Baggi, vil ég fullvissa þig um að við erum þér yfirmáta þakklátir og þú getur mælt þér út þinn fjórtánda hlut strax og við höfum eitthvað til skiptanna. Hitt þykir mér leitt að þú skulir hafa svona miklar áhyggjur af flutningi fengsins, þar verð ég að viðurkenna að erfiðleikarnir eru miklir — löndin eru ekki orðin síður villt en áður, heldur þvert á móti — en við skulum gera hvað sem við getum og taka okkar þátt í flutningskostnaðinum þegar sá tími kemur. Þú verður auðvitað sjálfur að ráða hvort þú trúir mér eða ekki!“

Út frá þessu fóru þeir að tala vítt og breitt um hinn mikla fjársjóð og Þorinn og Balinn rifjuðu upp hvernig hann hefði verið forðum daga. Þeir veltu því fyrir sér hvort allur fjársjóðurinn lægi enn óskemmdur í djúpa salnum, hvort þar héngju enn uppi spjótin miklu sem dvergarnir höfðu smíðað fyrir heri hins volduga Blaðorðins konungs (sem var löngu dauður). En þau voru öll með þríhertum oddum og sköftin greypt með gullþráðum, en vopn þessi voru aldrei afhent né greitt fyrir þau, þar voru líka skildir smíðaðir fyrir ævaforna stríðskappa og hinn mikli gullbikar Þrórs með tveimur höldum, hamraður og grafinn með myndum af fuglum og blómum og augu fuglanna og frjóhnappar blómanna voru úr gimsteinum. Þar voru spangabrynjur gylltar og silfraðar og algjörlega ógagnfærar. Þar var hálskeðja Girions höfðingja á Dal gerð úr fimm hundruð smarögðum grænum sem grasi, sem hann gaf elsta syni sínum og átti henni að fylgja brynja úr dvergsoðnum hringjum þvílíkum sem höfðu aldrei áður þekkst, því að þeir voru fléttaðir úr hreinu silfri sem þó hafði kraft á við þrefalt stál. En fegurstur af öllu var hinn voldugi hvíti gimsteinn, sem dvergarnir höfðu fundið undir dýpstu rótum Fjallsins — Fjallshjartað, hinn mikli Erkisteinn Þráins.

„Erkisteinninn! Erkisteinninn!“ muldraði Þorinn dreyminn í myrkrinu, sitjandi með hökuna á hnjánum.

„Hann var eins og hnöttur með þúsund fáðum flötum. Hann lýsti eins og silfur í arineldi, eins og vatn í sólskini, eins og mjöll undir stjörnum, eins og regn í tunglskini!“

En Bilbó hafði losað sig undan allri eftirsókn í fjársjóði. Meðan þeir töluðu saman um alla þessa dýrð, heyrði hann varla hvað þeir sögðu. Hann sat yst út við dyrnar og sperrti annað eyrað til að hlusta á hvin að utan, en hitt var viðbúið bergmáli bak við hjal dvergana, fyrir einhverri hreyfingu djúpt að neðan.

Myrkrið varð æ meira og Bilbó æ órólegri. „Lokiði dyrunum!“ grátbændi hann þá. „Ég óttast þennan dreka alveg inn í merg og bein. Mér finnst kyrrðin miklu uggvænlegri en allar drunurnar síðustu nótt. Lokiði dyrunum áður en það verður of seint!“

Eitthvað í rödd hans vakti sérstakan óhug með dvergunum. Rólega reis Þorinn á fætur, hristi af sér draumana og sparkaði steinnibbunni við dyrastafinn frá. Svo ýttu þeir á hurðina og hún féll aftur með skelli og smelli. Enginn vottur um skráargat var sýnilegur að innan. Þeir voru innilokaðir í Fjallinu!

Og það mátti heldur ekki tæpara standa. Þeir höfðu ekki fært sig ýkja langan spöl niður eftir göngunum þegar ægilegt reiðarslag skall á allri Fjallshlíðinni eins og hamagangur úr ótal voldugum slaghömrum, — eins og risavöxnum eikarbolum hefði verið sveiflað af tröllum yfir fjallinu. Klettarnir glumdu, veggirnir sprungu og steinar hrutu úr gangaloftinu yfir höfðum þeirra. Hvað gerst hefði, ef dyrnar hefðu enn staðið opnar, er ekki gott að segja. Þeir flýðu enn lengra niður eftir göngunum, fegnastir því að vera enn á lífi, en áfram heyrðu þeir þrumurnar og dunurnar hamast fyrir utan af óstjórnlegu æði Smeygins. Hann braut heilu björgin í smátt, maskaði veggi og kletta með reiðarhöggum frá risavöxnum halanum, þangað til hályftir hamrar tjaldbúðahvammsins þeirra, sviðin grastóin, þrastarsteinninn, sniglaskriðnu veggirnir og mjóa syllan leystust upp í bendu af grjóti og salla sem rann í hrikalegri jarðskriðu niður í dalinn.

Smeyginn hafði yfirgefið bæli sitt í þögulli leynd, hafið sig hljóðlaust á loft, látið sig svífa þunglega og hægt í myrkrinu eins og óheillakráka, látið berast með vindinum yfir vesturhlíðar Fjallsins, í þeirri von að koma að óvörum að einhverju eða einhverjum sem þarna væru á ferli og ennfremur að njósna um hvar gangaopið væri sem þjófurinn hafði notað. Allur þessi ofboðslegi hamagangur var eins og útrás fyrir reiði hans þegar hann fann engan og sá ekkert, ekki einu sinni þar sem hann ímyndaði sér að opið hlyti að vera.

Eftir að hann hafði hleypt æði sínu út með þessum hætti, leið honum strax miklu betur, því að nú trúði hann því einlæglega að hann yrði ekki fyrir meira ónæði úr þessari átt. Hins vegar átti hann fleiri misgerða að hefna. „Tunnuknapi!“ snörlaði í honum. „Fótspor þín lágu upp frá vatnsbakkanum og vafalaust hefurðu komið upp eftir ánni. Ég þekki ekki þessa lykt af þér, en þó þú sért enginn Vatnabúi, hefurðu vafalaust notið atbeina þeirra. Þeir skulu líka fá að kenna á mér og komast að því hver er hinn raunverulegi Konungur undir Fjalli.“

Svo rauk hann upp í eldkófi og hentist af stað eins og byssubrenndur til suðurs niður með Hlaupá.

XIII. KAFLI

Enginn heima

Á meðan þessu fór fram sátu dvergarnir eftir í myrkrinu steinhljóðir. Þeir höfðu litla matarlyst og töluðu enn færra. Þeir vissu ekkert hvað tímanum leið og þorðu varla að hreyfa sig. Þeim fannst jafnvel hvíslið af vörum sér bergmála og glymja í göngunum. Ef þeir skyldu festa svefn vöknuðu þeir aftur upp í sama myrkrinu og þögninni. Að lokum, eftir margra daga bið að því er þeim fannst, þegar þeir voru að kafna og lamast af loftleysi stóðust þeir ekki lengur mátið. Þeir hefðu jafnvel fagnað því að heyra þó einhver hljóð að neðan til vitnis um að drekinn væri kominn aftur inn í sitt bæli. Það var í þessari þögn sem þeir nú óttuðust mest slungin svikabrögð hans, en þeir gátu ekki setið hér til eilífðar.

Þorinn tók til máls: Látum reyna á dyrnar!“ sagði hann, „ég þarf hið bráðasta að finna fyrir vindinum í andliti mér eða deyja ellegar. Ég held ég vildi heldur láta Smeygin kremja mig til dauðs undir berum himni en að kafna hér!“ Svo nokkrir dverganna risu á fætur og þreifuðu sig til baka þangað sem dyrnar höfðu verið. En þeir komust brátt að því að efsti hluti ganganna hafði verið mölrifinn niður og leiðin lokuð af brotagrýti. Hvorki myndi nú lykillinn né aðrir þeir töfrar sem dyrnar höfðu áður hlýtt, nokkru sinni megna að opna þær dyr aftur.

„Þar með erum við gengnir í gildru!“ stundu þeir. „Þetta eru endalokin. Við deyjum hér.“

En eins og áður þegar dvergarnir voru sem kvaldastir, fann Bilbó til einkennilegs léttis fyrir brjósti, eins og þungri byrði hefði verið létt undan faldi hans.

„Svona nú, svona nú!“ sagði hann. „Hvar sem líf er finnst von,“ eins og faðir minn var vanur að segja og líka „Allt er þá þrennt er.“ Ég er að hugsa um að fara niður um göngin enn einu sinni. Ég fór það áður tvisvar, þegar ég vissi að drekinn var niðri, hví þá ekki að hætta á það nú í þriðja sinn, þegar ég er ekki einu sinni viss um að hann sé á staðnum. Þetta er nú einu sinni orðin eina leiðin til að komast út. Ég held líka að í þetta skipti ættuð þið allir að fylgja mér.“