Выбрать главу

Þeir féllust á það í ráðaleysi sínu og Þorinn steig fyrstur fram við hlið Bilbós.

„En farið nú varlega!“ hvíslaði hobbitinn, „og eins hljóðlega og þið framast megið! Það gæti verið að enginn Smeyginn lægi niðri, en á hinn bóginn gæti hann líka legið þar í leyni. En við skulum alls ekki taka neina óþarfa áhættu!“

Neðar og neðar þokuðust þeir. Dvergarnir jöfnuðust auðvitað ekki á við hobbitann í hljóðlæti, þeir voru símásandi og blásandi og alltaf að rekast á og bergmálið virtist magna hættulega öll þeirra búkhljóð. En þó Bilbó væri alltaf öðru hvoru að nema staðar og hlusta, heyrðist ekki bofs að neðan. Þegar nálgaðist botninn setti Bilbó upp hringinn og fór á undan. En hann hafði eiginlega enga þörf fyrir hringinn: niðri var algjört myrkur og þeir því allir ósýnilegir, hvort sem þeir höfðu hring eða ekki. Raunar var myrkrið svo algjört að hobbitinn kom óvænt fram í opið, fálmaði með hendinni út í tómið, valt fram yfir sig og á hausinn niður í salinn!

Þar lá hann á grúfu og þorði sig ekki að hræra og varla að anda. En ekkert bærði þar á sér. Og þar var ekki neina ljósglætu að sjá — jú, nema þegar hann reisti upp höfuðið, þá sá hann föla skímu fyrir ofan sig en langt úti í myrkrinu. Svo mikið var víst að það var ekki glóð úr drekaeldi, þó ekki vantaði ormastybbuna allt í kring og brennibragðið af loftgufum á tungu.

Loks þoldi herra Baggi ekki lengur við. „Fjandans maðkurinn þinn, Smeyginn!“ skrækti hann upphátt. „Hættu þessum feluleik. Láttu mig heldur fá ljós og ljúktu því af að éta mig ef þú getur náð mér!“

Dauft bergmál barst um ósýnilegan salinn, en hann fékk ekkert svar.

Bilbó reis á fætur, en nú hafði hann misst allar áttir og vissi ekki hvert hann ætti að snúa sér.

„Nú er ég alveg hættur að botna í því hvað Smeyginn er að leika sér með mig,“ sagði hann. „Það er bara enginn heima, að ég held, í dag (eða í kvöld, eða hvaða tími sólarhringsins sem er). Ef Óinn og Glóinn hefðu nú tinnuboxið með sér, gætu þeir kannski kveikt ljós og við fengið tækifæri til að litast um, áður en allt fer aftur til fjandans.“

„Ljós!“ hrópaði hann. „Getur ekki einhver kveikt ljós?“

Dvergunum hafði að sjálfsögðu orðið mikið um, þegar Bilbó féll fram yfir sig niður þrepin og lenti með rassaköstum á salargólfinu. Þeir sátu því í hnipri ráðalausir þar sem hann hafði skilið við þá í gangaopinu.

„Siss, suss!“ dussuðu þeir á hann þegar þeir heyrðu köllin í honum, og þó að það hjálpaði honum til að gera sér grein fyrir í hvaða átt þeir væru, leið enn langur tími áður en hann fékk nokkuð annað út úr þeim. En þegar Bilbó á endanum fór að láta eins og galinn og öskra og stappa í gólfið og heimta „ljós!“ á skrækustu tónunum, lét Þorinn undan og sendi þá Óin og Glóin af stað aftur efst upp í göngin til að leita í farangrinum.

Eftir nokkurn tíma sáust þeir snúa aftur með blaktandi ljós. Óinn var með svolítið furublys logandi í hendi, en Glóinn með knippi af blysvafningum undir hendinni án þess að kveikja á þeim. Bilbó skundaði hratt til móts við þá að gangaopinu og tók við blysinu. En það var ekki hægt að aka dvergunum til að kveikja á hinum vafningunum, né fá þá til að koma til hans niður á gólfið. Þorinn útskýrði það hógværlega og afsakandi, með því að herra Baggi væri ennþá hinn opinberi sérfræðilegi innbrjótur þeirra og snuðrari. Ef hann vildi hætta á að kveikja ljós, þá væri það hans mál. Þeir ætluðu að bíða í göngunum eftir að fá skýrslu frá honum. Svo þeir sátu áfram í sínum sessi nálægt útganginum og fylgdust með.

Nú sáu þeir litla skuggamynd hobbitans halda ljósinu á lofti og leggja af stað út á gólfið. Meðan hann var næst þeim sáu þeir öðru hvoru glampa eða glitra á eitthvað þegar hann rak tærnar í gullmuni. En það dró úr ljósstyrknum eftir því sem hann færðist fjær í víðáttumiklum salnum. Svo sýndist þeim að hann lyftist, færðist upp á við í rykkjum og dansaði eða sveiflaðist í loftinu. Bilbó var þá að klifra upp á hinn volduga fjársjóðshaug. Brátt komst hann upp á toppinn en hélt áfram að færa sig til og frá. Svo sáu þeir hann allt í einu nema staðar og lúta niður sem snöggvast en vissu ekki hvers vegna.

Það var Erkisteinninn, Fjallshjartað. Eða Bilbó réði þannig í það eftir lýsingu Þorins, enda var það augljóst að ekki gátu verið tveir þvílíkir gimsteinar, jafnvel ekki í svo stórkostlegum fjársjóði, jafnvel hvergi í heiminum. Þegar hann var að klöngrast um uppi á haugnum hafði sama hvíta blikið og hann fyrst sá, farið að lýsa fyrir framan hann og líkt og dregið fætur hans að sér. Þegar nær dró birtist svolítil kúla með daufum innsæjum bjarma. Og nú þegar hann kom alveg að henni hverfðist hún í neistum síflikrandi lita á yfirborðinu, sem endurspegluðust og greindust í sundur við flöktandi ljósið frá blysi hans. Og þegar hann loks laut niður, stóð hann á öndinni. Þessi voldugi gimsteinn skein nú fyrir fótum hans af sínu innra ljósi, og þannig hafði hann verið skorinn og slípaður af hinum miklu meisturum dverganna, sem grófu hann út úr hjarta Fjallsins endur fyrir löngu, að hann drakk einnig í sig allt það ljós sem féll utan á hann og ummyndaði það í tugþúsund neista hvítrar ljósadýrðar saman við dreift sindur regnbogans.

Skyndilega færðist armur Bilbós fram líkt og togaður af töfrunum. Smágerð hönd hans gat þó ekki gripið utan um steininn, því að hann var óvanalega stór og þungur. En hann lyfti honum upp, lokaði augunum og stakk honum í dýpsta vasa sinn.

„Nú er ég þó sannkallaður þjófur!“ hugsaði hann með sér. „En samt verð ég auðvitað að skýra dvergunum frá því — einhvern tímann. Þeir sögðu líka að ég mætti sjálfur stinga út og velja minn hluta!“ En samt hafði hann óþægilega á tilfinningunni að útstunga og val gæti líklega ekki gilt um þennan dýrðlega gimstein og af því kynnu að hljótast vandræði.

Áfram hélt hann. Og nú fór hann hinum megin niður dýrgripahauginn og neistinn frá blysi hans hvarf úr augsýn dverganna. En aftur kom Bilbó í ljós, langt fyrir handan á kreiki á salargólfinu.

Þannig hélt hann áfram þar til hann kom að stóru dyrunum á andspænni hlið. Þegar hann opnaði þær kom súgur á móti honum og hressti hann við en munaði minnstu að hann slökkti ljósið. Hann gægðist varlega út um dyrnar og sá glytta í mikla ganga og dimma og víða stigafætur sem lágu upp í hálfrökkur. Enn var ekki hægt að finna nein ummerki né hljóð frá Smeygni. Bilbó var um það bil að snúa við og fara aftur inn í salinn þegar eitthvert kolsvart flygsi steypti sér yfir hann og straukst við vangann. Hann skrækti og ætlaði að víkja sér undan, hnaut aftur fyrir sig og féll. Hann missti blysið á hausinn niður á gólfið og það slokknaði á því!

„Það hefur bara verið leðurblaka, býst ég við og vona,“ sagði hann eymdarlega. „En hvað á ég nú að gera? Hvar eru nú áttirnar Austur, Suður, Norður og Vestur?“

„Þorinn! Balinn! Óinn! Glóinn! Fjalar! Kjalar,“ hrópaði hann eins hátt og hann gat — en það hljómaði þó ósköp mjóróma í allri þessari kolsvörtu víðáttu. „Ljósið slokknaði! Getur ekki einhver ykkar komið að hjálpa mér.“ Sem snöggvast hafði hann misst allan móð.

Dvergarnir heyrðu dauf hróp hans, þó þeir greindu engin orðaskil nema „Hjálp!“