Выбрать главу

„Hvað í ósköpunum á jörð og undir skyldi hafa komið fyrir?“ sagði Þorinn. „Það hefur þó víst ekki verið drekinn, úr því að herra Baggi getur haldið áfram að æpa.“

Enn vildu þeir bíða af sér allan grun í nokkur andartök, en heyrðu engin drekahljóð, nei, raunar engin hljóð nema fjarlæg vein Bilbós. „Komið hingað einn eða tveir með eitt eða tvö ljós!“ Þá tók Þorinn af skarið. „Ætli við megum ekki til með að fara og hjálpa innbrjótnum okkar!“

„Þá er komið að okkur að hjálpa,“ sagði Balinn, „og ég er líka reiðubúinn að fórna mér. Enda held ég að það sé óhætt nú sem stendur.“

Glóinn kveikti þá á fleiri blysum og svo laumuðust þeir allir af stað hver á eftir öðrum, skutust meðfram veggnum eins hratt og þeir gátu. Það leið heldur ekki á löngu áður en þeir mættu Bilbó sjálfum sem kom til móts við þá. Hann hafði verið fljótur að ná sér af hræðslunni þegar hann sá ljósin nálgast og koma til sín.

„Þetta var ekki nema leðurblaka sem rakst á mig, svo ég missti blysið, ekkert verra en það,“ sagði hann sem svar við spurningum þeirra. Þó þeim létti, voru þeir samt önugir yfir því að hann skyldi vera að hræða þá til einskis, en hitt veit ég ekki hvað þeir hefðu sagt ef hann hefði skýrt þeim þar á staðnum frá Erkisteininum. En við þá lauslegu sýn af fjársjóðnum sem þeir höfðu fengið á leiðinni, lifnaði bál í dvergahjörtum þeirra, og þegar kveikt er upp í hjörtum dverga, jafnvel hinna virðulegustu, með gulli og gimsteinum verða þeir skyndilega djarfir og jafnvel árásargjarnir.

Þar með þurfti ekki lengur að kenna dvergunum tökin. Allir urðu þeir nú logandi af áhuga að skoða allt í salnum meðan tækifæri gæfist og strax reiðubúnir að fallast á þá einföldu skýringu að Smeyginn myndi hafa brugðið sér burt af bæ. Nú vildi hver um annan þveran fá sitt eigið logandi blys og þegar þeir í birtunni frá því horfðu fyrst til annarrar handar og svo til hinnar, hvarf þeim allur ótti, og þeir skelltu jafnvel skollaeyrum við allri varúð. Þeir létu móðan mása og voru með sköll og læti, meðan þeir hófu alls kyns dýrgripi á loft, ýmist af fjárhaugnum eða frá veggjunum, lyftu þeim upp í ljósið, gældu við þá og fóru fingrum um þá.

Fjalar og Kjalar urðu gleiðir af gáska og þegar þeir komu auga á margar gullhörpur sem héngu þar á vegg strengdar silfurstrengjum, tóku þeir þær niður og slógu tóninn. Og þar sem þetta voru töfrahörpur (og drekinn hafði aldrei snert þær, enda ekki sérlega tónelskur) þá voru enn fegurstu samhljómar í þeim. Og salurinn sem svo lengi hafði verið þögull ómaði nú af tónlist. En flestir dverganna voru hagsýnni og hugsuðu meira um þessa heims gæði: Þeir sópuðu saman gimsteinum og fylltu vasana og sáldruðu því sem þeir ekki gátu tekið með, niður á milli fingranna og stundu við. Þorinn var þar fremstur í flokki en hann var alltaf að svipast um eftir einhverju sem hvergi fannst. Það var Erkisteinninn, en hann minntist þó ekki á það við neinn þeirra.

Þá tóku dvergarnir brynjur og stríðstól ofan af veggjunum og vopnuðust þeim. Vissulega sýndist Þorinn konunglegur þegar hann var kominn í hringabrynju úr gylltum hringum, með silfurskefta öxi og mittisgjörð alsetta skarlatssteinum.

„Herra Baggi,“ hrópaði hann. „Hér er fyrsta afborgun af þínum hlut! Farðu úr gömlu úlpunni og klæddu þig í þessa!“

Þar með færði hann Bilbó í litla hringabrynju sem hafði sýnilega verið smíðuð fyrir ungan álfaprins endur fyrir löngu. Hún var úr silfurstáli, sem álfar kalla míþríl og fylgdi henni belti með perlum og kristöllum. Á höfuðið fékk hobbitinn léttan hjálm úr stöppuðu leðri með stálspöngum og kinnbjargir alsettar hvítum gimsteinum.

„Mikið er ég ánægður með þetta,“ hugsaði Bilbó, „en hræddur er ég um að ég líti út eins og bjáni. Hvað þeir myndu nú hlæja að mér heima á Hólnum ef þeir sæju mig! Gaman væri samt að hafa nú spegil við hendina til að sjá hvernig ég lít út.“

Þrátt fyrir það hélt herra Baggi betur höfði en dvergarnir undan álögum fjársjóðsins. Meðan dvergarnir héldu endalaust áfram að skoða og dásama dýrgripina, varð hann fljótt leiður á því. Hann settist á gólfið og fór áhyggjufullur að hyggja að framhaldinu. „Ég vildi gefa marga svona gullbikara,“ hugsaði hann „fyrir hressandi drykk úr trékönnu Bjarnar bónda!“

„Þorinn!“ hrópaði hann loks hátt. „Hvað tekur nú við? Víst erum við nú vel vopnaðir en hvaða gagn er okkur að vopnum gegn Smeygni hinum Ógurlega? Við þurfum ekki að ímynda okkur að við höfum unnið fjársjóðinn aftur. Við erum ekki einu sinni að leita að gulli, heldur einungis að reyna að sleppa út héðan og nú höfum við ögrað gæfunni nógu lengi!“

„Þú hefur lög að mæla!“ svaraði Þorinn og var eins og hann kæmi til sjálfs sín. „Við verðum víst að koma okkur burt! Ég get vísað ykkur leiðina út. Þó þúsund ár liðu, myndi ég aldrei gleyma þessum húsakynnum.“ Svo hrópaði hann til hinna að þeir skyldu safnast saman og með blysum hátt upp lyftum yfir höfði sér, héldu þeir út um galopnar dyrnar en gátu þó ekki stillt sig um að horfa ágirndaraugum um öxl.

Þeir höfðu aftur farið í gömlu kuflana sína utan yfir skínandi brynjurnar og tjásulegar hettur yfir bjarta hjálma, og þannig fylktu þeir liði að baki Þorins og mynduðu beina röð blysa í myrkrinu. Þeir stöðvuðu þó oft, hlustandi í máttvana ógn á einhver hljóð sem boðuðu komu drekans.

Þó allar gömlu skreytingarnar væru illa farnar og allt brotið og bramlað eftir hamaganginn í ófreskjunni, þekkti Þorinn hér hvern gang og beygju. Þeir fetuðu sig upp langa stiga og héldu eftir víðum göngum glymjandi af bergmáli, sneru enn við og upp enn meiri stiga og aftur meiri stiga. Þrepin voru slétt, höggvin beint í bergið, breið og glæsileg. Áfram hærra og hærra héldu dvergarnir en engin lifandi vera varð á vegi þeirra, aðeins hvimandi skuggar sem flýðu ljósin blaktandi í súgnum.

En öll þessi þrep voru ekki ætluð fyrir hobbitafætur og Bilbó þreyttist ákaflega á þeim og var að því kominn að gefast upp, þegar voldug þekja opnaðist skyndilega yfir höfði þeirra, svo há og víð að blysin drógu ekki til að lýsa upp hvelfinguna. En daufa hvíta skímu lagði inn um eitthvert op, langt fyrir ofan og loftið var svo dásamlega ferskt. Og lengra framundan barst dauft ljós inn um stórar dyr sem héngu allar kolbeyglaðar á lömunum og hálfbrenndar.

„Þetta er hinn mikli salur Þrórs,“ sagði Þorinn, „salur mikilla veisluhalda og ráðsfunda. Nú eigum við skammt eftir að Framhliðinu.“

Þeir fóru í gegnum salinn þar sem allt var brotið og bramlað, fúnandi borð og allt í niðurníðslu, stólar og bekkir liggjandi í kös á hvolfi, splundrað og fúið. Þar lágu hauskúpur og beinagrindur á víð og dreif út um allt gólf innan um drykkjarkönnur og skálar og brotin drykkjarhorn og allt á kafi í ryki. Þegar leiðin lá út um fleiri dyr á fjarlægari enda salarins, barst vatnsniður til eyrna þeirra og það tók að birta upp í ljósgrámann.

„Hér eru upptök Hlaupár,“ sagði Þorinn. „Héðan vellur hún fram af miklum krafti og út um Hliðið. Fylgjum henni eftir.“

Þeir sáu gat í berginu og út úr því spýttist ólgandi vatnsflaumur sem rann síðan hratt í iðuköstum eftir mjórri rás sem hafði verið höggvin bein og djúp af fornum meistarahöndum. Eftir bakkanum lá steinlagður vegur svo víður að margföld fylking gæti farið eftir honum. Þeir hlupu á harðastökki og komu fyrir beygju — og sjá! við þeim blasti skínandi dagsljósið. Fyrir framan þá reis voldugur hliðbogi og mátti greina á honum brotnar slitrur af úthöggnum skreytingum, allar kvarnaðar og grómteknar. En sólin sendi föla birtu sína gegnum móðuna inn á milli Fjallrananna og gullgeislar hennar lituðu steinlögnina undir þröskuldinum.