Выбрать главу

Grúi af leðurblökum sem rokið höfðu upp af svefni fyrir reykjandi blysum þeirra, flygsuðust yfir höfði þeirra. Þegar þeir hlupu áfram runnu þeir til á stéttinni enda var hún bæði öll slípuð og í slími eftir ferðir drekans. Fyrir framan þá rann áin í freyðandi boðaföllum í áttina niður að dalnum. Þeir losuðu sig við föl blysin og stóðu og störðu frá sér numdir. Þeir voru komnir að Framhliðinu og horfðu út á Dal.

„Jahérna!“ sagði Bilbó. „Aldrei bjóst ég nú við að ég myndi horfa framar út um þessar dyr. Og ég vissi ekki heldur að ég yrði svo yfir mig glaður af því að fá að sjá aftur sólina og finna vindinn í andlitinu. En, úff! Hvað gusturinn er kaldur!“

Vissulega! Bitur austanstrekkingur fór um loftið eins og ógn um komandi vetur. Hann sveigði út fyrir Fjallranana inn á dalinn, stynjandi meðal kletta. Eftir að þeir félagar höfðu verið lengi í steikjandi hita drekabælisins, sótti kuldahrollur að þeim í sólinni.

Allt í einu gerði Bilbó sér grein fyrir að hann var ekki aðeins þreyttur heldur líka banhungraður. „Það virðist vera liðið á morguninn,“ sagði hann, „svo að ég býst við að það ætti að vera kominn morgunverðartími — ef nokkur morgunverður er fáanlegur. En ég býst hins vegar ekki við að fordyraþröskuldur Smeygins sé vænlegasti staðurinn til að matast. Eigum við ekki heldur að fara eitthvert þangað sem við getum setið í friði um sinn!“

„Rétt segir þú!“ mælti Balinn. „Og ég held að ég viti af góðum stað sem við ættum að fara á. Það er gamli varðstaðurinn á suðvesturhorni Fjallsins.“

„Hvað skyldi vera langt þangað?“ spurði hobbitinn.

„Fimm klukkustunda gangur, myndi ég ætla. Og nú virðist mér leiðin ekki auðveld yfirferðar. Sjáið veginn þarna niður frá Hliðinu eftir vinstri bakka árinnar, hann virðist allur upprifinn og tættur. Og sko þarna! – þar sem áin vendir sér skyndilega í bugðu austur um Dal fyrir framan rústaborgina — þar var einu sinni brú og frá henni lágu þrep upp háan hægri bakkann og þaðan vegurinn í áttina að Hrafnaborg. Þar er (eða var) stígur frá veginum upp eftir hlíðinni að varðstöðinni. Það verður líka töluvert klifur, þótt gömlu þrepin standi þar enn.“

„Hjálpi mér!“ stundi Hobbitinn. „Endalaus ganga og endalaust klifur án matar í maga! Hvað skyldum við nú vera búnir að sleppa úr mörgum morgunverðum og öðrum máltíðum meðan við húktum inni í þessari andstyggðarinnar tímanlausu holu?“

Í rauninni höfðu tvær nætur og einn dagur liðið á milli (og ekki við algert matarleysi) síðan drekinn maskaði galdradyrnar og lokaði þá inni, en Bilbó hafði misst allt tímaskyn og fyrir honum hefði það jafnt getað verið ein nótt eða heil vika.

„Hættu nú alveg!“ sagði Þorinn hlæjandi — enda var honum farið að líka lífið með fulla vasa af glamrandi dýrum steinum. „Kallaðu nú ekki höllina mína andstyggðarinnar holu! Bíddu bara þangað til ég er búinn að hreinsa hana og gera upp!“

„Það verður nú varla fyrr en að Smeygni dauðum,“ sagði Bilbó daufur í dálkinn. „Og hvar skyldi hann líka vera niður kominn? Ég vildi gefa heilan morgunverð fyrir að fá að vita það. Ég vona bara að hann sé ekki uppi á Fjallstindinum að horfa niður til okkar!“

Sú nýstárlega hugmynd kom miklu róti á dvergana, og þeir féllust strax á hugmyndir Bilbós og Balins um að færa sig um set.

„Við verðum að fara héðan,“ sagði Dóri. „mér finnst eins og hann stari aftan á hnakkann á mér.“

„Þetta er ósköp kaldur og ömurlegur staður,“ sagði Vambi. „Jú, víst er hér nóg af vatni til að drekka en ég sé engan mat. Ósköp hlýtur drekinn oft að hafa verið svangur hérna.“

„Komum okkur! Komum okkur burt!“ hrópuðu allir hinir. „Finnum leiðina hans Balins!“

Engin fær leið virtist undir klettaveggnum á hægri bakkanum, svo þeir afréðu að þramma urðina niður eftir vinstri bakka árinnar og þar var auðnin svo yfirþyrmandi að Þorinn missti alveg góða skapið. Þeir komu að brúnni sem Balinn hafði minnst á, hún var löngu hrunin og steinbrotin úr henni lágu á víð og dreif í grunnri en hávaðasamri ánni. Þeir óðu þó auðveldlega yfir hana, fundu fornu þrepin upp á háan bakkann. Eftir nokkurn spöl viku þeir út af gamla veginum og komu brátt í djúpa laut í skjóli við kletta. Þar hvíldu þeir sig um sinn og snæddu morgunverð eftir því sem aðstæður leyfðu, en mest var það bara kram og vatn. (Þið viljið kannski fá að vita, hvað kram er, en ég get fáu svarað, því að ég þekki ekki uppskriftina. Það er einna líkast kexi, geymist endalaust og talið gefa góða næringu, en ekki er það lystarlegt, lítið gaman að borða það nema til að tyggja. Vatnabúar bökuðu það til að hafa með sér á löngum ferðalögum).

Og enn lögðu þeir af stað. Vegurinn sveigði nú til vesturs og fjarlægðist ána, en þeir nálguðust háöxl suðurrana Fjallsins. Loks komu þeir á krókóttan fjallastíginn upp í brattann og urðu að stauta sig silalega hver á eftir öðrum upp eftir honum, þangað til þeir komu síðla kvölds upp á hrygginn og sáu vetrarsólina síga niður í vestri.

Hér komu þeir að flötum palli opnum til þriggja átta en norðan megin lá hann upp að klettavegg með dyrum á. Frá dyrunum var mikið útsýni til austurs, suður og vesturs.

„Hérna,“ sagði Balinn, „var í gamla daga varðstöð og inn af dyrunum er klefi úthöggvinn í bergið sem var varðliðsstofa. Nokkrar slíkar varðstöðvar voru allt í kringum Fjallið. En það sýndist ekki hafa neitt upp á sig að standa vörð um neitt á velmektardögum okkar, og verðirnir nutu slíkra þæginda að sjálfsagt hafa þeir orðið andvaralausir — annars hefði okkur ef til vill gefist lengri frestur til viðvörunar um komu drekans og allt farið öðru vísi. Samt ættum við að geta legið hér í felum og í öruggu skjóli um sinn og fylgst vel með öllu sem er að gerast.“

„Ég sé nú ekki að neitt gagn sé í því, ef sést hefur til okkar fara hingað,“ sagði Dóri sískimandi í áttina að Fjallstindinum eins og hann byggist við að sjá Smeygin sitjandi þar eins og fugl á kirkjuturni.

„Við verðum nú samt að taka þá áhættu,“ sagði Þorinn. „Við komumst ekki lengra í dag!“

„Heyr, heyr!“ hrópaði Bilbó og henti sér flötum á jörðina.

Í varðliðastofunni hefði verið nóg rúm fyrir hundrað manns, og þar inn af var annar klefi, betur einangraður frá kuldanum úti. Staðurinn var með öllu yfirgefinn. Villt dýr sýndust ekki einu sinni hafa notfært sér hann á yfirráðatíma Smeygins. Þarna lögðu þeir nú frá sér bagga sína og sumir köstuðu sér niður og duttu samstundis út af, en aðrir settust við ytri dyrnar og töluðu um hvað nú væri helst til ráða. En hvernig sem þeir veltu því fyrir sér, komu þeir alltaf aftur að því sama: — Hvar var Smeyginn? Þeir horfðu í vestur og þar var ekkert, í austur og ekkert heldur, og í suður og engin merki sáust um drekann, en hinu tóku þeir eftir að ótrúlega mergð fugla dreif þar að og flykktust saman í stórum hópum. Þeir horfðu á þetta undarlega fyrirbæri, en urðu engu nær, þegar fyrstu svalköldu stjörnurnar birtust á festingunni.

XIV. KAFLI

Eldur og vatn

Nú er ykkur, eins og dvergana, sjálfsagt farið að lengja eftir að vita, hvað orðið hafi um Smeygin. Við verðum þá að taka til við þar sem frá var horfið, þegar hann hafði knasað leynidyrnar og flogið burt í ofsareiði fyrir tveimur dögum.