Íbúar vatnaborgarinnar Ásgerðis héldu sig flestir innan dyra því að vindurinn stóð úr svarta Austrinu og var nístingskaldur. Þó voru fáeinir á ferli á bryggjunum, sem þótti gaman að fylgjast með stjörnunum speglast í lygnu skjóli víkurinnar eftir því sem þær birtust á himninum. Frá Vatnaborg var útsýni að mestu byrgt til Fjallsins eina, af lágum hæðum meðfram norðurenda vatnsins, þar sem Hlaupá rann út í það úr norðri. Menn gátu venjulega aðeins greint hátindinn þó í alheiðu veðri væri og jafnvel þá vildu menn heldur forðast að líta þangað, því að fjallið var eitthvað svo óhugnanlegt og hryllilegt, jafnvel í morgunbirtu. En nú sást ekkert til þess, það lá hulið í myrkrinu.
En skyndilega kom tindurinn í ljós glampandi, þegar snöggur blossi reið yfir það og slokknaði aftur.
„Sko!“ sagði einhver. „Aftur þessi ljósagangur! Síðustu nótt sáu varðmennirnir þessa blossa sífellt vera að kvikna og slokkna frá miðnætti til morguns. Eitthvað er á seyði þar upp frá.“
„Kannski er Konungurinn undir Fjalli byrjaður að móta gullið,“ sagði annar. „Það er nú nokkuð um liðið síðan hann lagði af stað norður. Kominn tími til að gömlu söngvarnir fari að rætast.“
„Hvor kóngurinn?“ spurði annar beiskri röddu. „Það er eins líklegt að þessi ljósagangur sé ekkert annað en eyðandi eldur drekans, eina Konungsins undir Fjalli sem við höfum nokkurn tímann þekkt.“
„Skelfingar óheillakráka geturðu verið!“ sögðu hinir. „Þú boðar nú líka flóð og eitraðan fisk. Geturðu ekki heldur reynt að finna upp á einhverju skemmtilegra?“
Þá gaus allt í einu upp mikið bál langtum neðar og nær yfir hlíðunum svo norðurendi vatnsins endurspeglaðist gullroðinn. „Konungurinn undir Fjalli!“ hrópuðu þeir. „Auðlegð hans er sem sólin, silfrið sem gosbrunnar og árnar renna í gullstrengjum! Áin hleypur í gulli út frá Fjallinu!“ hrópuðu þeir fagnandi og alls staðar voru menn að spenna upp glugga og fótatak heyrðist tifa hlaupandi til og frá.
Það var kominn upp gífurlegur spenningur og hrifning. En harðneskjulegi karlinn æddi sem fætur toguðu til Borgarstjórans. „Drekinn er á leiðinni nema ég sé kolruglaður!“ hrópaði hann. „Brjótið niður brýrnar! Til vopna! Til vopna!“
Þá voru viðvörunarlúðrar í skyndi knúnir og hljómarnir bergmáluðu um klettóttar strendur. Fagnaðarlætin þögnuðu og gleðin breyttist í skelfingu. En fyrir bragðið kom drekinn ekki að þeim alveg varbúnum.
Ekki þurfti þó lengi að bíða, þvílíkur var hraðinn á honum. Þeir sáu hann nálgast eins og þjótandi eldglæringar og vaxa og verða æ skærari eftir því sem nær dró og nú var ekki annað að sjá en að spádómar gömlu sagnanna hefðu farið eitthvað úrskeiðis. Enn var þó að vísu nokkur tími til undirbúnings. Öll ílát í borginni voru fyllt vatni, sérhver stríðskappi vopnaðist, sérhver bogaör og kastspjót höfð viðbúin og brúin til lands brotin niður og henni steypt í sjóinn, áður en hvininn frá hræðilegu aðflugi Smeygings bar yfir borgina og vatnið gáraðist rautt sem eldur undir skelfilegum vængjatökum hans.
Hann sveimaði hátt yfir æpandi og veinandi og hrópandi mannsöfnuðinum. Þá steypti hann sér yfir brýrnar en þar var leikið á hann! Brúin var horfin og allir óvinir hans vörðust nú úti á sækringdri eyjunni með hyldýpi allt í kring — of djúpt, dimmt og kalt fyrir hans smekk. Ef hann lenti í vatninu, myndi rísa upp nóg móða og gufa til að hylja allt landið í þoku í marga daga. En vatnið var honum voldugra, það myndi slökkva í honum áður en hann kæmist aftur upp úr því.
Öskrandi sveigði hann aftur yfir borgina. Svört örvahríð þusti upp móti honum, örvarnar skullu og glömruðu á brynplötum hans og gimsteinahúðuðum kviði og féllu aftur logandi niður út úr brennandi andardrætti hans og steyptust hvissandi í vatnið. Engin flugeldasýning sem þið gætuð ímyndað ykkur í öllum heiminum kæmist í hálfkvisti við þessa sjón í náttmyrkrinu. Við smellina frá bogastrengjunum og glyminn frá lúðrunum varð drekinn óður. Hann ærðist og blindaðist af þessum endemum. Enginn hafði þorað að berjast við hann í margar aldir, og þeir hefðu ekki heldur þorað það nú, ef ekki hefði gripið í taumana þessi náungi með rámu röddina (Bárður hét hann), sem var sífellt á þönum milli bogliðanna og Borgarstjórans að biðja hann um að skipa þeim að berjast til hinsta manns.
Eldspýjurnar gengu blossandi út frá skoltum drekans. Hann hringsólaði nokkra stund hátt í lofti yfir borginni og lýsti upp allt vatnið en trén á bökkunum skinu eins og látún eða blikuðu sem blóð og bar við æðandi kolsvart skuggaflökt fyrir neðan trjástofnana. Svo steypti hann sér niður, beint í gegnum örvahríðina, tillitslaus í reiði sinni, hirti ekki einu sinni um að snúa brynvörðu hliðunum á sér gegn óvinunum, aðeins að setja alla borgina í bál og brand.
Eldur gaus upp af stráþekjunum og viðarsperrunum þar sem hann steypti sér niður og framhjá og aftur í kring, þó búið væri að gegnbleyta öll húsin áður en hann kom. Enn skvettu hundrað hendur meira vatni á húsin hvar sem neisti kviknaði. Aftur hóf drekinn sig á loft. Hann sveiflaði halanum og þakið á Stóra húsinu brast og skall niður. Óslökkvandi bál risu hátt til himins í náttmyrkrinu. Önnur sveifla og enn ein og annað hús og enn eitt stóðu í björtu báli og hrundu. Enn gat engin ör stöðvað Smeygin, það verkaði ekki meira á hann en flugubit á mýrunum.
Menn voru þegar farnir að varpa sér í vatnið allt um kring. Konum og börnum var hlaðið í báta á markaðshöfninni. Menn köstuðu frá sér vopnum. Alls staðar var grátur og gnístran tanna, þar sem rétt áður höfðu verið sungnir dýrðarsöngvar um dvergana. Nú formæltu menn nafni þeirra. Sjálfur Borgarstjórinn var á leiðinni að stóra gyllta bátnum sínum, hann vonaðist til að hann gæti látið róa honum burt í öllu þessu uppnámi og bjargað sjálfum sér. Brátt yrði öll borgin gjöreydd og brunnin niður að vatnsborði.
Það var einmitt ætlun drekans. Honum stóð alveg á sama þó allir kæmust í bátana. Á eftir gæti hann skemmt sér við þá íþrótt að veiða þá eða fólkið gæti hafst við í bátunum þangað til þau syltu í hel. Ef þau reyndu að komast í land skyldi hann taka hressilega á móti þeim. Næst ætlaði hann líka að kveikja í öllum skóginum á ströndinni og svíða akra og engi. En fyrst í stað skemmti hann sér betur en nokkru sinni við að eyða sjálfri borginni.
Enn var þó dálítill flokkur bogliða sem hélt uppi vörnum inn á milli brennandi húsanna. Foringi þeirra var Bárður sá hinn harðleiti, sem áður hafði verið hæddur fyrir að spá allskyns óförum eins og flóðum og eitruðum fiski, þótt þeir vissu að hann væri mikilsháttar maður og hugrakkur. Hann var afkomandi að langfeðgatali frá Girion höfðingja á Dal, en eiginkona hans og barn höfðu sloppið úr rústunum niður eftir Hlaupá, endur fyrir löngu. Hann hélt uppi stöðugri örvahríð af stórum ýviðarboga sínum, þangað til hann var búinn með allar örvar nema eina. Eldarnir bárust óðfluga nær úr öllum áttum. Félagarnir voru að yfirgefa hann. Nú spennti hann bogann í hinsta sinn.
Skyndilega kom eitthvað flaksandi út úr myrkrinu og settist á öxl hans. Honum brá við — en það var þá bara gamall þröstur. Alls ósmeykur settist fuglinn við eyra hans og tók að hjala við hann. Mikið varð hann glaður þegar hann komst að því að hann skildi mál fuglsins, þetta var þá einn af þröstunum af Dal.