Выбрать главу

„Bíddu við! Bíddu við!“ sagði fuglinn. „Máninn rís. Miðaðu á holkrikann undir vinstra brjóstinu þegar drekinn flýgur og snýr sér við yfir þér!“ Og meðan Bárður dokaði við af undrun sagði fuglinn honum fleiri fregnir ofan frá Fjalli og allt sem hann hafði heyrt.

Svo spennti Bárður boga sinn aftur og í þetta skipti alveg aftur að eyra. Drekinn var að venda sér til baka á lágflugi og rétt þegar hann nálgaðist, birtist máninn upp yfir austurbakkanum og varpaði silfruðu gliti um risavaxna vængi hans.

„Örin mín góð!“ sagði bogmaðurinn. „Svarta örin mín! Þig hef ég geymt mér til síðasta skots. Aldrei hefurðu brugðist mér og alltaf hef ég fengið þig aftur. Ég erfði þig frá föður mínum og hann frá forfeðrum sínum. Hafirðu nokkurn tímann komið úr dvergasmiðjum hins sanna Konungs undir Fjalli, þá farðu nú og dugðu mér vel.“

Drekinn steypti sér nú enn neðar en nokkru sinni og þegar hann vatt sér til í loftinu og renndi sér niður, blasti við kviðurinn á honum allur glitrandi af gimsteinasalla í tunglskininu — nema á einum bletti. Stórboginn small. Svarta örin þeyttist beint af streng og hitti í holkrikann á vinstra brjósti undir framfætinum sem hann hafði glennt langt til hliðar. Inn skall hún og hvarf, jafnt oddur, skaft sem fanir, slíkur ægikraftur var á henni. Með glymjandi skræk svo menn misstu heyrn, tré ultu um koll og klettar sprungu, skaust Smeyginn spúandi eldi hátt í loft upp, tók kollsteypu og hrapaði niður úr háalofti sem logandi þrumufleygur.

Drekinn skall beint niður á borgina. Í síðustu fjörbrotum hans splundraðist öll byggðin í óttalegu neistaflugi og spýtnabraki. Og vatnið gusaðist upp. Feikilegur gufustrókur þyrlaðist upp og var hann skjannahvítur í myrkrinu undir tungl að sjá. Það heyrðist hvissandi hviss, þjótandi gusugangur og svo hljóðnaði allt. Það voru endalok Smeygins og borgarinnar Ásgerðis, en eigi Bárðar.

Vaxandi tungl reis hærra og hærra á himninum og kaldur vindur hvein. Hann tætti hvíta þokuna í tilbjagaðar súlur og æðandi ský og hrakti hana burt til vesturs slitna í sundur í ótal tjásur yfir mýraflóunum miklu lengst vestur undir Myrkvið. Hér og þar mátti sjá stóran bátaflota eins og ótal dökka díla á víð og dreif um yfirborð vatnsins og frá þeim bar vindurinn harmakvein íbúa Ásgerðis yfir eyddri borg, týndum eigum og rústuðum húsum. En þó mátti þetta fólk prísa sig sælt, ef það hefði hugsað út í það, en til þess var varla hægt að ætlast á þeirri stundu. Um þrír fjórðungar íbúanna höfðu að minnsta kosti sloppið lifandi, skógar þeirra, akrar og engi, allir nautgripir og flestir báta þeirra voru óskemmdir og drekinn var dauður. En fólk var í rauninni ekki enn farið að gera sér neina grein fyrir hvaða þýðingu það hafði.

Brátt safnaðist fólkið saman í sorgmæddum hópum á vesturbakkanum, það skalf í nöprum vindinum og beindi umkvörtunum sínum og reiði fyrst gegn Borgarstjóranum, sem hafði orðið of fljótur á sér að hlaupast burt úr borginni meðan enn voru þó nokkrir sem vildu verja hana.

„Hann kann að vera góður til kaupmangs — einkum eigin kaupmangs,“ muldruðu sumir, „en hann er til einskis nýtur ef eitthvað alvarlegt bjátar á!“ Á hinn bóginn gátu þeir ekki nógsamlega lofað hugrekki Bárðar en einkum þó síðasta volduga örvarskot hans. „Ef hann hefði ekki fallið,“ sögðu þau öll, „myndum við gera hann að konungi okkar. Bárður Drekabani af ætt Girions. Æ, hvaða vandræði að hann skyldi farast!“

En í miðju tali þeirra, steig stór maður fram úr skugganum. Hann var holdblautur, svart hárið lafði rennvott fram yfir andlit hans og herðar og hörkulegur glampi var í augum.

„Bárður er ekki fallinn!“ hrópaði hann. „Hann steypti sér á kaf út af Ásgerði, þegar óvinurinn var veginn. Ég er Bárður af ætt Girions. Ég er drekabaninn!“

„Bárður konungur! Bárður konungur!“ æptu allir í kór, en Borgarstjórinn gnísti skjálfandi tönnum.

„Girion var höfðingi á Dal, en aldrei konungur af Ásgerði,“ sagði hann. „Hér í Vatnaborg höfum við ætíð haft þann hátt á að kjósa okkur borgarstjóra úr hópi hinna öldnu og vitru, og aldrei viljað sætta okkur við völd einfaldra stríðsmanna. Lofum „Bárði konungi“ að snúa aftur til síns konungsríkis — á Dal sem nú mun frelsast fyrir hans eigin hetjudáð, svo enginn fær aftrað heimför hans. Og hverjir sem kjósa geta fylgt honum ef þeir vilja heldur lifa við kalda kletta í skugga Fjallsins en á grænum bökkum vatnsins. En skynsamlegra tel ég þó fyrir alla að verða hér eftir og taka þátt í endurreisn borgar okkar og njóta hér síðan velsældar í friði og auðlegð.“

„Við viljum Bárð konung!“ hrópaði fólkið sem næst stóð og svaraði Borgarstjóranum fullum hálsi. „Við höfum fengið nóg af gamlingjum og gróðapungum!“ Og fólkið sem fjær stóð tók undir: „Upp með Bogmanninn, niður með gróðapungana,“ þangað til hrópin kváðu við um alla bakkana.

„Ég skal verða síðastur til að vanmeta Bárð Bogmann,“ sagði Borgarstjórinn en varlega (því að nú stóð Bárður sjálfur við hlið hans). „Hann hefur í kvöld unnið sér einstakan sess sem velgerðarmaður borgar okkar og um hetjudáð hans mætti kveða marga söngva. — En hversvegna, Ó, þér samborgarar mínir?“ — og hér reis Borgarstjórinn á fætur og talaði mjög hátt og skýrt — „já, hversvegna að skella allri skuldinni á mig? Hvað hef ég gert af mér til þess að ég verði settur af? Hver vakti drekann af svefni, má ég spyrja? Hverjir hlutu dýrar gjafir og mikla hjálp frá okkur og töldu okkur trú um að hinir fornu söngvar myndu rætast? Hverjir spiluðu á velvilja okkar og fagra drauma? Hvernig gull hafa þeir nú sent niður eftir ánni til að launa okkur? Drekaeld og rústir! Frá hverjum eigum við að krefjast bóta fyrir allt okkar tjón eða heimta hjálp við ekkjur og munaðarleysingja?“

Eins og þið sjáið hafði Borgarstjórinn ekki fengið stöðu sína út á ekki neitt. Og sá varð árangurinn af ræðu hans að í bili hætti fólkið alveg að hugsa um að eignast kóng, en beindi allri reiði sinni að Þorni og félögum hans. Hent voru á lofti æsileg og beisk orð úr öllum áttum og sumir þeirra sem áður höfðu galað hæst forna söngva, heyrðust nú yfirgnæfa öll hróp með ásökunum um að dvergarnir hefðu vísvitandi spanað drekann gegn þeim.

„Bjánaskapur!“ mælti Bárður. „Hvað ætli þið náið ykkur niðri á þessum vesalingum? Vafalaust hafa þeir farist fyrstir allra í eldunum í Fjallinu, áður en Smeyginn réðist á okkur.“ Og þá allt í einu í miðju kafi, meðan hann var að tala, læddi að honum hugsuninni um hina frægu fjársjóði undir Fjalli sem lágu þar nú eigandalausir og gæslulausir, og hann þagnaði skyndilega. Hann íhugaði betur orð Borgarstjórans um viðreisn á Dal, þar sem gullnar klukkur skyldu aftur hringja, ef hann bara fengi einhverja menn til fylgdar við sig.

Loksins tók hann aftur til máls: „Nú er, herra Borgarstjóri, ekki rétti tíminn til að vera með nein brígsl, né framkvæma stjórnarfarslegar umbyltingar. Nú hafa allir fyrst og fremst verk að vinna. Meðan svo er, mun ég áfram þjóna þér, þó svo kunni að fara — eftir nokkurn tíma að ég hugsi aftur til orða þinna og vilji flytja mig aftur til heimkynna minna í Norðri með þeim sem vilja fylgja mér.“

Að svo mæltu þrammaði hann burt til að hefja uppsetningu búða til að annast sjúka og særða. En Borgarstjórinn glotti honum á bak og sat eftir á jörðinni. Hann hugsaði margt en sagði fátt, nema hvað hann skipaði mönnum með harðri hendi að sækja handa sér eld og mat.

Hvert sem Bárði varð nú gengið meðal fólksins heyrði hann, líkt og eld í sinu, alla vera að rausa og velta fyrir sér hinum miklu auðæfum sem nú stóðu gæslulaus. Menn sáu í hillingum að þar myndu þeir geta fengið fullar bætur fyrir allan sinn missi og mikinn afgangsauð til kaupa á alls kyns neysluvarningi úr Suðri og sú hugsun varð til að létta þeim mjög í skapi í öllum þeirra nauðum. Það veitti heldur ekki af, því að nóttin var bæði köld og ömurleg. Skýli fundust aðeins handa fáum (eitt fékk Borgarstjórinn) og matur var af skornum skammti (ekki einu sinni Borgarstjórinn fékk nóg). Þá nótt urðu margir svo veikir af vosbúð, kulda og harmi að þeir dóu, þótt þeir hefðu sloppið ómeiddir úr rústum borgarinnar og næstu daga voru þar mikil veikindi og hungur.