Выбрать главу

Bárður tók að sér framkvæmdir og skipaði öllu fyrir eftir sínu höfði, þótt hann segðist ætíð gera það í nafni Borgarstjórans. Það var mesta puð að stjórna öllu þessu fólki og sjá um að tryggja velferð þess og undirbúa húsagerð. Líkast til hefðu flestir farist um veturinn, sem skall á svo skyndilega upp úr veturnóttum, ef hjálp hefði ekki borist utan að. En hjálpin kom svo fljótt af því að Bárður sendi þegar í stað hraðboða upp eftir Skógánni til að biðja álfakónginn liðveislu, og svo vildi til að hraðboðarnir þurftu ekki langt að fara, því að þeir mættu hersveitum hans á miðri leið, aðeins þremur dögum eftir fall Smeygins.

Álfakonungurinn hafði fengið fréttirnar frá flugumönnum sínum og frá fuglum sem voru vinir álfa og því vissi hann þegar margt af því sem gerst hafði. Allt sem vængi hafði var nú líka á ferð og flugi kringum auðnir drekans. Loftið var iðandi af fuglahópum með örum vængjaslætti og hraðfleygum sendiboðum fram og aftur um himininn. Yfir jöðrum Myrkviðar þagnaði ekki blístrið, vælið og kvakið, og fréttirnar bárust langt út yfir skóginn: „Smeyginn er dauður!“ Laufið suðaði, eyru voru hvesst. Jafnvel áður en Álfakóngurinn reið af stað höfðu fréttirnar borist alla leið vestur í furuskóga Þokufjalla. Björn heyrði þær í bjálkahúsi sínu og dríslarnir settust að ráðstefnu í hellum sínum.

„Nú spyrst víst ekki meira til Þorins Eikinskjalda, er ég hræddur um,“ sagði Álfakóngurinn. „Honum hefði verið nær að gerast gestur minn. Samt er þetta illra hóta stormur,“ bætti hann við, „sem engu blæs góðu.“ Því að hann hafði heldur ekki gleymt sögnunum um auðlegð Þrórs. Því var það einmitt sem sendiboðar Bárðar mættu honum á miðri leið með fjölmenni spjótliða og bogliða og þéttum krákuhópum sveimandi yfir, því að þær héldu að nýtt stríð væri að brjótast út, meira en þekkst hafði á þeim slóðum langalengi.

En þegar konungurinn heyrði hjálparbeiðni Bárðar sýndi hann einstakt göfuglyndi, því að hann var í rauninni höfðingi góðrar og hjálpsamrar þjóðar. Því beindi hann göngunni sem fyrst hafði stefnt beint á fjallið, niður með Skógánni í áttina að Langavatni. Nú hafði hann hvorki næga báta né fleka fyrir allan herinn, svo að þeim seinkaði á landleiðinni, en þó sendi hann miklar birgðir af matvælum niður eftir ánni. Álfar eru annars léttir á fæti og þó þeir væru þá lítt vanir fenjunum eða hinu svikula landi milli Skógarins og Vatnsins, gekk ferð þeirra greiðlega. Aðeins fimm dögum eftir fall drekans komu þeir fram á vatnsbakkann og sáu rústir borgarinnar. Þeim var vel fagnað við komuna eins og við mátti búast og borgarbúar ásamt Borgarstjóra voru reiðubúnir að semja um sanngjarnt endurgjald í framtíðinni fyrir hjálp álfakonungsins.

Brátt höfðu þeir ráðið ráðum sínum. Borgarstjórinn skyldi verða eftir með konum og börnum, hinum öldnu og vanhæfu og auk þess með fjölda smiða og hagleiksálfa. Og þeir fóru í óða önn að fella tré og fleyta þeim niður úr skóginum. Svo var farið að reisa fjölda kofa á bakkanum til varnar gegn vetrarkuldunum og þá var byrjað undir stjórn Borgarstjórans að skipuleggja nýja borg sem skyldi verða ennþá fegurri og stærri en sú gamla, en hún skyldi þó ekki rísa á sama stað og áður. Hún átti að standa norðar upp með ströndinni, því að æ síðan höfðu þeir ímugust á vatninu þar sem hræ drekans lá. Hann fengi aldrei snúið aftur á sinn gullna beð, heldur lá skrokkurinn þarna kaldur sem grjót, í hlykkjum á grynningum. Þar mátti öldum saman sjá risavaxin skinin bein hans í logni innan um rústahrúgur gömlu borgarinnar. En fáir þorðu að sigla yfir þann bölvaða stað og engir þorðu að kafa þar niður í hryllingsvatnið, ekki einu sinni til að tína upp gimsteinana sem hrundu utan af rotnandi hræi hans.

En allir vopnfærir menn sem enn voru uppistandandi, þar á meðal flestir úr fylgdarliði álfakonungsins, bjuggu sig undir mikinn leiðangur að Fjallinu eina. Þannig gerðist það aðeins ellefu dögum eftir að Vatnaborg var lögð í rúst að fyrsta framvarðarfylkingin hélt gegnum klettahliðin við vatnsenda og upp um auðnirnar miklu.

XV. KAFLI

Stormskýin hrannast upp

Víkjum nú sögunni aftur að Bilbó og dvergunum. Alla nóttina uppi í varðskýlinu var einhver á verði, en þegar birti með morgninum, höfðu þeir enn ekki orðið varir við nein hættumerki. En áfram héldu fuglarnir að þyrpast að í æ þéttari flokkum. Hóparnir komu aðvífandi úr suðri og krákurnar sem enn höfðu tórað við Fjallið voru sífellt að velta sér og skrækja í loftinu fyrir ofan þá.

„Eitthvað furðulegt er á seyði,“ sagði Þorinn. „Farfuglatími á hausti er löngu liðinn og auk þess eru þetta mestallt staðfuglar, starar og snjótittlingar og hingað streyma hræfuglar úr öllum áttum svo það er engu líkara en blóðug orusta sé í vændum!“

Skyndilega benti Bilbó fram fyrir sig: „Sjáiði, þarna kemur gamli þrösturinn aftur!“ hrópaði hann. „Hann virðist þá hafa komist út úr hríðinni þegar Smeyginn malaði fjallshlíðina, en varla hafa þó sníglarnir sloppið eins vel!“

Vissulega var það gamli þrösturinn og um leið og Bilbó benti á hann, flaug hann nær þeim og settist á stein rétt hjá þeim. Svo blakaði hann vængjum og kvakaði, hallaði undir flatt eins og hann væri að leggja við eyru og enn kvakaði hann og hlustaði.

„Ég held að hann sé að reyna að segja okkur eitthvað,“ sagði Balinn. „En ég get ekki fylgst með tali slíkra fugla, það er svo hratt og erfitt. Getur þú skilið þetta, herra Baggi?“

„Nei, ekki reglulega vel,“ svaraði Bilbó (í raun og veru skildi hann ekki daut), „en mér finnst eins og sá gamli sé töluvert æstur og uppveðraður.“

„Ég vildi bara að hann væri hrafn!“ sagði Balinn.

„Nú, ég hélt að þér væri lítt um þá gefið. Þú vildir sem minnst tala, ef þeir voru í nánd, meðan við vorum hér að leita.“

„Það voru krákur! Og það meira að segja óvenju andstyggilegar og tortryggilegar skepnur og eftir því frekar. Skildirðu ekki öll þau ókvæðisorð sem þær görguðu á eftir okkur? En hrafnar eru allt annars eðlis. Á sínum tíma voru þeir miklir vinir Þrórsþjóðar, oft báru þeir okkur njósn og var launað með skrautmunum sem þeir sóttust eftir til að prýða hreiður sín. Þeir eru ákaflega langlífir og minni þeirra traust og varanlegt. Þannig geta þeir varðveitt lærdóma og borið vitneskju til unga sinna á milli kynslóða. Ég þekkti marga hrafna í klettum þegar ég var dvergabarn. Sjálf hæðin þar sem við erum nú heitir Hrafnaborg því að hér fyrir ofan byrgið áttu óvenjulega vitur og fræg hrafnahjón hreiður sitt, gamli Karki og kona hans. En ég býst nú varla við að neinn lifi eftir af þeim ættstofni lengur.

Varla hafði hann lokið orðum sínum, fyrr en gamli þrösturinn skríkti hátt og var horfinn á svipstundu.