„Og löngu fyrr, ef ég þekki rétt í Austurveg,“ tók Gandalfur fram í.
Án þess að ansa því nokkru, hélt Þorinn áfram: „Þaðan ætluðum við að halda upp með Hlaupá, koma við í rústum Dalbæjar — gömlu borginni þar í dalnum undir skugga Fjallsins. En engum okkar leist þó á blikuna að fara inn um Aðalhliðið. Áin streymir beint út úr hliðinu gegnum Klettinn mikla sunnan í Fjallinu, og út um það op kemur Drekinn oftast — já, því miður alltof oft, nema hann hafi breytt um hætti.“
„Það kæmi heldur ekki til greina,“ sagði vitkinn, „nema við hefðum þá voldugan stríðskappa okkur til halds og trausts, jafnvel Hetju. Ég reyndi sosum að grafa einhvern slíkan upp; en allir stríðskappar eru uppteknir af að berjast hver við annan í fjarlægum löndum og því er fátt um þá hér um slóðir, eða þeir hreinlega fyrirfinnast ekki. Sverðin nú á dögum eru líka flest bitlaus, axirnar notaðar til að fella tré og skildirnir sem ágætis vöggur ungbarna eða sem potthlemmar. Og hér eru drekar þægilega fjarlægir (og því þjóðsagnakenndir). Því datt mér helst í hug að fá góðan innbrotsþjóf í lið með okkur — og hafði þá einmitt í huga þessar leynilegu hliðardyr á Fjallinu eina. Og hér höfum við þá hinn smávaxna Bilbó Bagga, sem á að vera hinn útvaldi og tilkallaði innbrjótur. Svo nú er ekki um annað að ræða en að halda áfram og koma sér niður á einhverja áætlun.“
„Jæja, þá það,“ sagði Þorinn og sneri sér að Bilbó með uppgerðarkurteisi, „svo framarlega sem sérfræðingur okkar í innbrotum gæti gefið okkur einhverjar nýjar hugmyndir eða tillögur.“
„Fyrst vildi ég nú fá að vita eitthvað meira um hvað allt þetta snýst,“ sagði Bilbó sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð innra með sér, hvað hann væri eiginlega að vilja, þó Tókaeðlið í honum væri jafn staðráðið og áður í að halda leiknum áfram. „Hvað eruð þið eiginlega að þvæla um gull og dreka og annað slíkt. Ég vil fá að vita hvernig gullið komst hvert og hverjum það tilheyrir og svo framvegis og svo framvegis.“
„Ó, hjálpi mér!“ sagði Þorinn, „hvað er að þér? Sástu ekki landabréfið? Og heyrðirðu ekki hvað við vorum að syngja? Og hefurðu ekki heyrt orð af því sem við höfum verið að ræða í margar klukkustundir?“
„Mér er alveg sama, ég vil fá einfalda og vafningalausa skýringu á þessu,“ sagði hann þrjóskur og setti upp uppgerðar merkikertisssvip (sem hann greip aðallega til ef einhverjir komu og vildu fá lán hjá honum) til að sýnast vitur og hygginn og hafa peningavit og almennt um leið til að uppfylla það álit sem Gandalfur hafði látið í ljós á honum. „Þá vildi ég fá að vita hver áhættan er, hvaða fjármuni ég þurfi sjálfur að leggja fram, hvaða tíma þetta taki og hver ágóðinn muni verða og svo framvegis,“ — en með þessu átti hann í stuttu máli við: „Hvað fæ ég út úr þessu? — og er nokkur von til að ég komist nokkurn tímann aftur til baka heill á húfi?“
„Nú, þá það,“ sagði Þorinn. „Endur fyrir löngu á dögum Þrórs afa míns, var fjölskylda okkar hrakin á brott af Norðurslóðum. Þau tóku alla fjársjóði sína og tæki með sér og settust að í þessu fjalli sem sjá má á kortinu. Annar forfaðir minn að langfeðgatali, Þráinn Gamli, hafði löngu áður fundið þennan stað, en nú hófu þeir þar námuvinnslu og grófu mikil jarðgöng með voldugri sölum og stærri vinnustofum en áður höfðu þekkst — en auk þess held ég að þeir hafi fundið töluvert gull og heilmikið af gimsteinum í fjallinu. Svo mikið er víst að þeir urðu stórauðugir og frægir. Afi minn varð Konungur undir Fjalli og var mikils metinn af þeim dauðlegu Mönnum sem bjuggu þar fyrir sunnan og voru smámsaman að færa byggð sína upp með Hlaupá og um dalinn sem Fjallið gnæfði yfir. Þar reistu þeir sér skemmtilega borg sem kölluð var á Dal og var mikill uppgangur á. Konungar þeirra á Dal réðu gjarnan smiði okkar í þjónustu sína og launuðu þeim vel, jafnvel hinum lélegri. Feðurnir á Dal báðu okkur um að taka syni sína í læri og greiddu okkur vel fyrir, einkum í ýmiskonar matvælum sem við hirtum lítt um að rækta eða afla okkur sjálfir. Þegar á heildina var litið voru þetta sannarlega uppgangstímar fyrir okkur og jafnvel þeir fátækustu meðal okkar höfðu nóga eyðslupeninga, gátu jafnvel fengið fé að láni og tekið sér tíma til að smíða fagra gripi aðeins sér til augnagamans, að ekki sé minnst á hin frábæru galdraleikföng, en ekkert slíkt þekkist lengur í heiminum. Vegna hinnar miklu framleiðslu urðu salarkynni afa míns full af allskyns brynjum og dýrgripum, steinskornum skrautmunum og bikurum og leikfangamarkaðurinn á Dal varð undur Norðurslóða.
Sjálfsagt var það nú einmitt þessi mikli auður sem vakti athygli drekans. Drekar eru þekktastir fyrir það, eins og þú veist, að ræna gulli og gersemum frá mönnum, álfum og dvergum, hvar sem þeir geta fundið þá. Þeir draga þessa dýrgripi til sín og gæta ránsfengs alla ævi (sem er næstum endalaus nema þeir séu drepnir). Þeir ásælast alla þessa dýrgripi, án þess að hafa þeirra nokkur not. Satt að segja kunna þeir ekki að greina á milli vandaðs hlutar og hnoðs, þótt stundum séu þeir nokkuð naskir á markaðsverð þeirra. Sjálfir geta þeir ekkert smíðað, ekki einu sinn fest lausa hreisturplötu í brynhúð sína. Þá var svo margt um dreka á Norðurslóð, að smámsaman fór að bera á gullskorti, svo að sumir drekarnir lögðu á flótta til suðurs og sumir voru drepnir en hvar sem þeir komu fylgdi þeim sú almenna eyðilegging og sóun sem Drekar allsstaðar valda og fór síversnandi. Þarna var líka einn þeirra alveg sérstaklega gráðugur, kröftugur og illvígur ormur sem kallaðist Smeyginn. Dag nokkurn hóf hann sig á loft og hélt suður á bóginn. Við heyrðum fyrst eins og vindsúg af norðanfárviðri þar sem furutrén á Fjallinu brustu og brökuðu í vindinum. Sumir af okkur dvergunum voru þá af tilviljun staddir úti við (og ég var sem betur fer einn þeirra — ævintýraglaður og duglegur unglingur, vildi helst alltaf vera á randi, og það varð mér til bjargar) — við sem sagt sáum úr fjarlægð að Drekinn lenti á Fjallinu okkar í logabáli. Svo færði hann sig niður eftir hlíðinni og þegar hann kom að skóginum fuðruðu öll trén samstundis upp. Þá var samhringt öllum bjöllum og klukkum á Dal og kapparnir vígbjuggust. Obbinn af dvergunum þusti út um Stórhliðið, en þar tók Drekinn á móti þeim. Enginn komst lífs af á þeirri útleið. Öll áin gufaði upp í suðubólstrum, þoka lagðist yfir Dal, og út úr þéttri þokunni birtist Drekinn og tortímdi næstum öllum stríðsköppunum — sama ógæfusagan og endurtók sig annars staðar í þá daga. Svo sneri hann við og smeygði sér inn um Aðalhliðið og rændi og ruplaði alla sali og hol, göng, kjallara, bústaði og ganga. Að því búnu voru engir Dvergar eftirlifandi í sölunum og hann lagði alla fjársjóði þeirra undir sig. Líklegt er talið, að hann hafi að hætti Dreka safnað öllu fémætu í einn haug lengst inni í neðanjarðarsölunum og liggi á því sem svefnbeð sínum. Síðan smug hann út um Stóra hliðið og réðst að næturlagi á Dalabyggðina og rændi fólki, einkum ungum stúlkum og reif þær í sig og á því gekk þar til allir Dalir voru eyddir og íbúarnir ýmist dauðir eða flúnir. Eigi veit ég gjörla hvernig ástandið þar er núna, en ég býst ekki við að neinn geti hafst við nær Fjallinu en á fjarlægari bakka Langavatns nú á dögum.
Við þessir fáu sem höfðum verið utan Hliðsins sluppum á lífi en snerum grátandi í felur og við formæltum Smeygni. Það kom á óvart að afi minn og faðir komu til okkar og bættust í hópinn með sviðin skegg. Þeir voru þungbrýnir mjög en sögðu fátt. Þegar ég spurði þá, hvernig þeir hefðu komist undan, sögðu þeir mér að halda mér saman, ég skyldi fá að vita það síðar á viðeigandi stund. Eftir það héldum við á brott landflótta, sviptir öllum eigum og höfum síðan orðið að vinna fyrir viðurværi okkar eftir bestu getu á flakki okkar fram og aftur um löndin, stundum orðið að leggjast lágt sem járnsmiðir eða við kolanám. En aldrei hafa fjársjóðirnir sem stolið var frá okkur getað liðið úr huga okkar. Og jafnvel þó hagur margra okkar hafi nú batnað,“ hér þagnaði Þorinn við og strauk gullkeðjuna um háls sér, „erum við staðráðnir í að vinna þá aftur og koma hefndum okkar og öllum bölvunum fram á Smeygni — ef við mögulega getum.