Выбрать главу

„Við getum ekki skilið hann,“ sagði Balinn, „en ég er handviss um að þessi gamli fugl skilur okkur. Gætum nú vel að og sjáum hvað gerist!“

Ekki leið á löngu áður en heyrðist mikill vængjaþytur og þrösturinn kom aftur, en nú var í fylgd með honum hinn aumasti og hrörlegasti allra gamalla fugla. Hann var að verða blindur, gat varla flogið og hausinn var næstum allur sköllóttur. Þetta var geysistór og forgamall hrafn. Hann hlammaði sér stirðlega á jörðina hjá þeim, blakaði hægt vængjum og rambaði til móts við Þorin.

„Ó, Þorinn Þráinssonur og Balinn Fundinssonur,“ krjáaði í honum (og meira að segja Bilbó gat auðveldlega skilið hvað hann sagði, því að hann mælti á venjulegu máli en ekki fuglamáli). „Ég er Hróki sonur Karka. Nú er Karki fallinn frá en þið þekktust vel. Nú eru hundrað ár og þrjátíu og fimm síðan ég kom úr eggi, en ég gleymi engu sem faðir minn sagði mér. Nú er ég orðinn hrafnahöfðingi Fjallsins. Við erum að vísu fáir en minnumst vel konungsins til forna. Flestir mínir þegnar eru nú horfnir í fjarska, því að mikil tíðindi eru að gerast í suðrinu — sum gleðitíðindi fyrir ykkur, en önnur óhagstæðari.

Sjá! Fuglarnir flykkjast aftur til Fjallsins og á Dal úr suðri, austri og vestri, því að orð berast út, að Smeyginn sé dauður!“

„Dauður! Dauður?“ hrópuðu dvergarnir hver upp í annan. „Dauður! Þá höfum við ekkert þurft að óttast — og fjársjóðurinn er okkar!“ Þeir stukku allir á fætir og fóru að dansa og láta öllum illum látum af einskærri gleði.

„Já, hann er dauður,“ sagði Hróki. „Sjálfur þrösturinn, megi fjaðrir hans aldrei falla, sá hann drepast, og við getum treyst orðum hans. Hann sá drekann falla í orustu við íbúa Ásgerðis fyrir þremur nóttum undir rísandi tungli.“

Það tók Þorin langan tíma að róa dvergana og þagga niður í þeim svo þeir gætu hlustað áfram á frásögn hrafnsins. Að lokum, þegar hann hafði lýst allri orustunni fyrir þeim, hélt hann áfram:

„Þetta voru þá gleðitíðindin, Þorinn Eikinskjaldi. Nú getur þú snúið aftur öruggur til hallar þinnar og allir fjársjóðirnir eru þínir — í bili. En margt fleira en fuglarnir er byrjað að flykkjast hingað. Fréttirnar af dauða fjársjóðshaldarans mikla hafa borist langt og víða og lýsingarnar af auðlegð Þrórs hafa síst minnkað með árunum. Margir eru æstir í að krækja í sinn hluta af ránsfengnum. Nú þegar er stór herfylking álfa á leiðinni hingað og fylgja þeim heilu skýin af hræfuglum í von um orustu og slátrun. Á bökkum vatnsins ganga menn þrumandi um og fjölyrða um það að allar þeirra hörmungar séu ykkur dvergunum að kenna. Vesalings fólkið er nú heimilislaust og margir hafa dáið, því að Smeyginn eyddi borg þeirra. Þeir vonast líka eftir að finna uppbót í fjársjóði þínum og hyggjast hirða sinn skerf að þér dauðum eða lifandi.

Þú verður nú að ákveða þig af eigin visku. Þið eruð aðeins þrettán eftir, og er það lítið, af hinni miklu Durins þjóð sem eitt sinn dvaldist hér en hefur síðan dreifst um víða veröld. Ef þið viljið hlýða mínum ráðum, treystið þá ekki á Borgarstjóra þeirra Vatnabúa, betri er sá sem skaut drekann með boga sínum. Bárður heitir hann og er ættaður af Dal, af ætt Girions. Hann er harðskeyttur maður en heiðarlegur. Við vildum aftur fá að sjá hér frið meðal dverga, manna og álfa eftir hina áralöngu eyðingu, en það gæti kostað ykkur of fjár í gulli. Ég hef lokið máli mínu.“

Þá rauk Þorinn upp í fári miklu: „Þakkir áttu skildar Hróki Karkasonur. Ég mun aldrei gleyma þér né þinni þjóð. En eitt vil ég bara láta þig vita, að engu gulli skulu þjófar stela, né ofbeldismenn ræna mig, meðan ég er enn á lífi. Ef þú vildir ávinna þér enn meiri þakkir okkar, gætirðu fært okkur fregnir af því þegar þeir nálgast. Líka vildi ég biðja þig ef nokkrir ykkar eru enn ungir og sterkir á væng, að þið létuð sendiboða fara til frænda okkar í Norðurfjöllum bæði fyrir vestan og austan og segið þeim af vanda okkar. En farið þó sérstaklega til frænda míns, Dáins í Járnhólum, því að hann ræður yfir fjölskipuðum og vel vopnuðum dvergaher og býr líka næst okkur. Biðjið hann að hraða för.“

„Ég mun ekki frekar skipta mér af því, hvort ráð þín eru góð eða slæm,“ krjáði gamli Hróki, „en ég skal gera hvað ég get.“ Svo flaug hann hægt í burtu.

„Snúum strax aftur til Fjallsins!“ hrópaði Þorinn. „Við megum engan tíma missa.“

„Við höfum heldur engan mat til að missa!“ hrópaði Bilbó, sem alltaf var hagsýnn í búrfræðum. Sjálfur hafði hann haldið að þessu ævintýri ætti nú réttilega að vera lokið með dauða drekans — en nú kom í ljós að það var mesti misskilningur — en sjálfur hefði Bilbó strax verið reiðubúinn að gefa eftir mest af sínum hlut í fengnum ef það mætti aðeins verða til að ljúka þessu friðsamlega.

„Aftur til Fjallsins!“ æptu dvergarnir í kór eins og þeir hefðu ekki einu sinni heyrt síðustu athugasemd hans um matarbirgðirnar, og hann varð þá líka að fylgja þeim til baka.

Þar sem helstu atburðir, þeirra er samhliða gerðust, hafa nú þegar nokkuð verið raktir, býst ég við að þið gerið ykkur grein fyrir því að dvergarnir höfðu enn nokkra daga til stefnu. Þeir tóku sig fyrst til og gerðu ýtarlega úttekt á hellunum. Þá komust þeir að því, eins og þá hafði grunað, að einungis Framhliðið væri fært. Öll hin hliðin (auðvitað fyrir utan leynidyrnar) hafði Smeyginn fyrir löngu brotið og bramlað og sáust engar leifar þeirra lengur. Þeir hófu því að vinna af miklum krafti að því að styrkja varnir Aðalhliðsins og gera nýjan stíg út frá því. Hér skorti auðvitað ekki margvísleg verkfæri til námugreftrar, steinhöggs og múrsmíði en allir dvergarnir voru einmitt mjög færir í því fagi.

Á meðan þeir unntu sér engrar hvíldar við þetta, fluttu hrafnarnir þeim stöðugt fréttir. Þannig fréttu þeir að álfakóngurinn hefði sveigt af leið niður að vatninu, en við það fengu þeir lengri frest. Þá bárust þeim þau góðu tíðindi að þrír af hestum þeirra hefðu sloppið og gengju lausir niðri á bökkum Hlaupár, ekki langt frá birgðastöð þeirra. Svo meðan hinir héldu áfram virkjagerðinni, voru Fjalar og Kjalar sendir af stað undir leiðsögn hrafns til að handsama hestana og flytja með þeim upp eftir allar þær vistir sem þeir gætu borið.

Þeir voru fjóra daga í burtu og þá var svo komið að þeir vissu að sameinaður her Vatnabúa og Skógarálfa skundaði í áttina að Fjallinu. En nú voru dvergarnir orðnir djarfari, því að þeir höfðu nægar vistir í margar vikur ef vel var á haldið — auðvitað mestmegnis kram sem þeir voru orðnir óskaplega leiðir á. En kram var þó allavega betra en ekki neitt — og þá voru þeir líka búnir að loka hliðinu með vegghleðslu úr kanthöggnum steinum, að vísu án steinlíms en til að bæta úr því var veggurinn hafður afar þykkur og hár og lá þvert yfir innganginn. Í vegginn voru raufar sem þeir gátu horft (eða skotið) út um, en enginn gangur. Sjálfir klifu þeir inn eða út með lausum stigum og drógu efnivið að sér með taugum. Til að hleypa árstraumnum út höfðu þeir hlaðið lágan boga undir vegginn, en breytt svo þröngum farveginum að löng uppistaða myndaðist allt frá klettinum í fjallinu og út að fossbrúninni þar sem áin féll niður á Dal. Nú varð ekki komist að hliðinu (utan syndandi) nema eftir mjórri syllu undir klettinum, það er á hægri bakkanum séð frá Hliðinu. Þeir teymdu hestana aðeins að þrepunum yfir hrundu brúnni, þar tóku þeir af þeim og sögðu þeim að snúa aftur til fyrri húsbænda sinna og sendu þá mannlausa af stað í suðurátt.