Að því kom eina nóttina, að mikið ljóshaf, eldar og blys sáust skyndilega fyrir sunnan á Dal.
„Þeir eru komnir!“ hrópaði Balinn. „Þetta eru voldugar herbúðir. Þeir hljóta að hafa komið upp á Dal í skjóli rökkursins eftir báðum bökkum árinnar.“
Dvergunum varð ekki svefnsamt um nóttina. Í fölasta morgunroðanum sáu þeir hóp nálgast. Sjálfir stóðu þeir á bak við hlaðna vegginn og sáu hina koma upp úr dalbotninum og leita hægt á brattann. Brátt greindu þeir að þar fóru bæði Vatnamenn vígbúnir til stríðs- og bogmenn álfa. Loksins birtust þeir fyrstu upp um klungrið og klappirnar og bar við fossbrún. Sér til mikillar undrunar sáu aðkomumenn lónið fyrir framan sig og hvernig gert hafði verið að hliðinu með nýrri steinhleðslu.
Meðan þeir stóðu þar patandi og hjalandi hver við annan, kvaddi Þorinn þá: „Hverjir eruð þið,“ kallaði hann þrumandi röddu, „sem komið með ófriði að hliðum Þorins Þráinssonar, Konungs undir Fjalli, og hvað viljið þið?“
En komumennirnir svöruðu engu. Sumir sneru sér þegar við og viku snöggt burt, hinir sem þó stöldruðu við um stund skoðuðu forvitnilega Hliðið og varnir þess, en létu sig síðan hverfa. Um daginn færðu þeir herbúðirnar allar saman á einn stað á austurbakkann, beint á milli Fjallrananna. Klettarnir endurómuðu málklið og söngva þeirra en slíkt hafði ekki gerst um langan aldur að þvílíkt fjölmenni væri saman komið á Dal. Þar mátti líka heyra samhljóma af álfahörpum og blíðri tónlist, og þegar ómarnir bárust upp til hinna í hellinum, var sem svali loftsins yljaðist og þeir fyndu daufan ilm af skógarblómum springa út á vori.
Mikið þráði Bilbó þá að mega sleppa út úr þessu dimma virki og fara niður á dalinn til að taka þátt í gleðskapnum og veisluhöldunum við eldana. Sumir yngri dvergarnir urðu líka mjög snortnir og muldruðu í barm sér að mikið vildu þeir hafa gefið til þess að málin hefðu þróast öðruvísi, svo að þeir hefðu mátt bjóða allt þetta fólk velkomið sem vini. En Þorinn gretti sig og við það var ekki komandi.
Þá sóttu yngri dvergarnir sjálfir hörpur og önnur hljóðfæri úr fjárhirslunni og léku fyrir hann til að reyna að milda skap hans. Það var þó enginn álfasöngur, heldur minnti helst á lagið sem þeir sungu fyrir löngu í hobbitaholu Bilbós.
En söngur þeirra virtist falla Þorni vel í geð. Hann gat aftur farið að brosa og varð kátur. Svo fór hann að leggja niður fyrir sér vegalengdina til Járnhóla og hvað langur tími myndi líða áður en Dáinn næði með liðsauka sinn til Fjallsins eina, ef hann hefði lagt af stað strax og boðin bárust honum. En Bilbó hryggðist bæði við sönginn og tal dverganna, sem honum fannst vera alltof herskáir.
Snemma næsta morguns sást flokkur spjótliða vaða yfir ána og koma arkandi upp dalinn. Þeir fylktu sér undir grænum fána álfakóngsins og bláum fána Vatnabúa og linntu ekki för fyrr en þeir stóðu beint fyrir framan hliðvegginn.
Enn kvaddi Þorinn þá hárri röddu: „Hverjir eruð þið sem komið vopnaðir með ófriði að hliðum Þorins Þráinssonar, Konungs undir Fjalli?“ Og í þetta skipti var honum svarað.
Hávaxinn maður steig fram, dökkhærður og harðskeyttur á svip og hann hrópaði: „Heill sé þér Þorinn! Hví girðir þú þig inni sem ræningi í bæli? Þó erum við ekki enn neinir óvinir og við fögnum því að þú skulir gagnstætt vonum enn vera á lífi. Við bjuggumst ekki við að finna neinn hér uppistandandi, en nú þegar við hittumst er mál að við komum saman á ráðstefnu og hefjum samninga.“
„Hver ert þú og um hvað eigum við að semja?“
„Ég er Bárður, sem með eigin hendi felldi drekann og leysti þannig fjársjóð þinn. Skiptir það þig nokkru máli? Auk þess er ég í beinan karllegg afkomandi Girions af Dal og í fjárhaugnum má finna í bland alla þá dýrgripi úr höll og borg sem Smeyginn stal frá honum. Er það ekki nokkuð sem við þyrftum að ræða? Ennfremur eyddi Smeyginn í síðustu orustunni bústöðum fólksins í Ásgerði og er ég fulltrúi Borgarstjóra þeirra. Í hans nafni spyr ég þig hvort þig skipti engu máli sorg og neyð þjóðar hans. Þeir styrktu þig þó þegar þú áttir í nauð og það eina sem þeir fá að launum eru rústir tómar, þó að það sé vissulega ekki vísvitandi þín sök.“
Allt voru þetta fögur orð og sönn, borin fram af vissu stórlæti og harðneskju. Að þeim orðum mæltum þótti Bilbó fyrir sína parta alveg sjálfsagt að Þorinn viðurkenndi allar þessar sanngirniskröfur. Hann bjóst svo sem ekki við að neinn myndi eftir því að það var hann einn sem hafði fundið út veika blettinn á drekanum, og það var kannski eins gott að enginn minntist á það. Hinsvegar reiknaði hann ekki með því ógnarvaldi sem gullið hefur, einkum það gull sem dreki hefur lengi legið á og ekki síst ef dvergahjörtu eiga hlut að máli. Undanfarna daga hafði Þorinn dvalist löngum stundum í fjárhirslunni og ágirnd hans hafði því stöðugt verið að ágerast. Þó að hann væri að vísu lang mest á höttunum eftir sjálfum Erkisteininum, hafði hann líka auga fyrir mörgum öðrum kostagripum sem lágu þar í kös og margir þeirra voru vafðir margháttuðum minningum úr starfi og harmi þjóðar hans.
„Þú taldir lakasta málsstaðinn síðast og settir hann á oddinn,“ svaraði Þorinn. „En eitt vil ég strax taka fram, að enginn á nokkra minnstu kröfu til fjársjóðs þjóðar minnar, því að Smeyginn stal ekki aðeins þessum fjármunum frá okkur, heldur rændi okkur lífi og heimili. Fjársjóðurinn var aldrei eign Smeygins og því verður ekki bætt fyrir gerðir hans með minnsta hluta af honum. Kostnaðinn við þá aðstoð og vistir sem við fengum frá Vatnamönnum munum við greiða að fullu — þegar þar að kemur. En við munum ekkert gefa, ekki einnar brauðsneiðar virði, og allra síst undir hótunum um ofbeldi. Meðan vopnaður her býr um sig framan við dyr okkur, munum við líta á ykkur sem fjendur og þjófa.