Mér er líka ofarlega í huga að spyrja, hvaða arfahlut þið hefðuð úthlutað mínum ættingjum, ef þið hefðuð fyrstir komið að fjársjóðnum óvörðum og okkur dauðum?“
„Það er ekki nema sanngjörn spurning,“ svaraði Bárður. „En þið eruð nú einu sinni ekki dauðir og við erum engir ræningjar. Hitt er mikilvægara að hinir auðugu sýni þeim bágstöddu miskunn framar réttarkröfum, ekki síst þegar þeir liðsinntu ykkur sjálfum í neyð. Og enn er öðrum kröfum mínum ósvarað.“
„Ég mun, eins og ég hef áður sagt, ekkert ráðslag eiga við vopnaða menn fyrir mínum hliðum. Og alls ekki fyrir nokkurn mun við fulltrúa álfakóngsins sem ég get ekki minnst með mikilli góðvild. Á slíkri ráðstefnu á hann engan sess. Hafið ykkur á braut áður en örvar okkar fljúga! Og ef þið viljið nokkuð aftur við mig ræða, þá er ykkur nær að senda þessar álfasveitir aftur inn í skógana þar sem þær eiga heima. Að því uppfylltu getið þið komið aftur og lagt niður vopnin áður en þið nálgist þröskuld minn.“
„Álfakonungurinn er vinur minn og hann gerðist svo góður að liðsinna Vatnafólkinu í neyð af hinni mestu mannúð, þótt engin sérstök vináttutengsl væru þar á milli,“ svaraði Bárður. „Við munum nú gefa þér tíma til að endurskoða og taka aftur orð þín. Leita ráðslags visku þinnar áður en við snúum aftur!“ Að svo búnu hvarf hann á brott og sneri aftur til búða.
Að mörgum stundum liðnum sneru fánaberarnir aftur og lúðraþeytarar komu fram og knúðu trómet sín:
„Í nafni Ásgerðisborgar og Skógarins,“ var hrópað, „mælum við til Þorins Þráinssonar Eikinskjalda, sem kallar sig Konung undir Fjalli, að við biðjum hann vel að íhuga þær kröfur sem skorað hefur verið á hann um, eða heita annars yfirlýstur óvinur vor. Hið minnsta skal hann afhenda Bárði sem drekabana og erfingja Girions tólfta hluta fjársjóðsins. Af þeirri upphæð mun Bárður sjálfur leggja fram hlut til hjálpar Ásgerðingum. En ef Þorinn vildi ávinna sér vináttu og virðingu allra nágranna sinna eins og fornir ættfeður hans gerðu, ætti hann líka að leggja fram sinn hlut til að bæta hag Vatnabúa.“
Þá þreif Þorinn sjálfur boga af stórgripahornum görvan og skaut ör að kallaranum. Hún hæfði skjöld hans og stóð þar dirrandi.
„Fyrst þetta er svar þitt,“ var kallað til baka, „lýsi ég yfir umsátri um Fjallið. Þú munt eigi fá að yfirgefa það, fyrr en þú óskar af þinni hálfu eftir vopnahléi og ráðstefnu. Við berum þig engum vopnum en látum þig eftir hjá gulli þínu og máttu eta það, ef þú hefur lyst á!“
Að svo búnu hurfu sendimennirnir skjótt á brott og dvergarnir voru skildir eftir einir til að íhuga sitt mál. En svo harðsvíraður var Þorinn nú orðinn, að jafnvel þó einhver úr hópnum hefði ekki verið sammála honum, hefði enginn þorað að benda honum á það, en auk þess voru þeir allir einhuga á bandi hans — nema kannski feiti Vambi og þeir Fjalar og Kjalar. Bilbó var hinsvegar að sjálfsögðu algjörlega andsnúinn því hvaða stefnu málin höfðu tekið. Hann hafði þegar fengið meira en nóg af Fjallinu, og það var allra síst að hans smekk að vera nú enn innilokaður og umsetinn í því.
„Hér er alls staðar þessi óþolandi drekadaunn,“ muldraði hann við sjálfan sig, „og mér verður óglatt af honum. Og þetta kram er hreinlega farið að standa í mér.“
XVI. KAFLI
Þjófur á nóttu
Dagarnir liÐu hægt og í leiðindum. Margir dverganna vörðu tíma sínum í að umstafla og flokka fjársjóðina og nú ræddi Þorinn við þá um Erkistein Þráins og bað þá umfram allt að svipast um eftir honum í hverju horni.
„Því að Erkisteinn föður míns,“ sagði hann, „er dýrmætari í sjálfu sér en nokkuð gullfljót, og fyrir mig er hann algjörlega ómetanlegur. Þennan eina dýrgrip úr öllum fjársjóðnum eigna ég sjálfum mér, og ég skyldi hefna mín grimmilega á hverjum þeim sem fyndi hann og leyndi honum fyrir mér.“
Bilbó heyrði þessi ummæli hans og brá mjög í brún. Hvað skyldi gerast, ef steinninn fyndist — vafinn inn í vöndul með alls kyns dóti og smáhlutum sem hann notaði gjarnan sem kodda undir höfuðið? Samt gaf hann það ekki upp, því að eftir því sem leiði daganna þyngdist, fór svolítil hugmynd að mótast í huga hans.
Þannig stóðu málin um stund, þangað til hrafnarnir báru fréttir af því að Dáinn með meira en fimm hundraða liði dverga sem farið hefði hraðfari frá Járnhólum, nálgaðist úr landnorðri og væri nú aðeins tveggja daga hergang frá Dal.
„En þeir komast aldrei óséðir að Fjallinu,“ sagði Hróki, „og þá óttast ég mest að ljósti saman í orustu niðri í dalnum. Það þykir mér ekki vel ráðið. Þótt þeir séu harðskeyttir, er ólíklegt að þeir geti yfirbugað umsátursherina, og jafnvel þó þeir gerðu það, hver er þá ávinningurinn? Með vetrinum mun brátt fenna í spor þeirra. Á hverju ætlið þið svo að lifa án vináttu og góðvildar nágrannanna? Þá gæti fjársjóðurinn orðið banabiti ykkar og þyrfti engan dreka til!“
En Þorinn var óhagganlegur. „Vetrarharðindi munu ekki síður bitna á mönnum og álfum,“ sagði hann, „og víst verður það þá engin sæla fyrir þá að hafast við úti á víðavangi. Þegar vinir mínir koma aftan að þeim og vetur er að skella á, verða þeir eftirgefanlegri í samningum.“
Kvöldið eftir þetta gerði Bilbó upp hug sinn. Himinninn var dimmur og ekkert tungl á lofti. Þegar komið var svartamyrkur læddist hann inn í skot á litlum klefa rétt innan við hliðið. Þar tók hann upp úr pússi sínu svolítið reipi ásamt Erkisteininum sem hann vafði inn í klút og setti í hnýti. Svo klifraði hann upp á varnarvegginn. Þar stóð Vambi einn síns liðs, því að nú var hans vakt og dvergarnir létu aðeins einn vera á verði í einu.
„Það er hræðilega kalt!“ sagði Vambi. „Ég vildi óska að ég gæti kynt bál hérna uppi eins og þeir í herbúðunum fyrir neðan.“
„En það er svo ágætlega hlýtt hér fyrir innan,“ sagði Bilbó.
„Sjálfsagt er það. En ég stend hér bundinn í báða skó á verðinum til miðnættis,“ stundi feiti dvergurinn. „Æ, þetta er ferlega leiðinlegt allt saman. Ekki svo að ég myndi dirfast að mæla í gegn Þorni, megi skegg hans vaxa og dafna. En hann hefur nú alltaf verið stífur á meiningunni.“
„Ekki þó eins stífur og fæturnir á mér,“ sagði Bilbó. „Ég er orðinn dauðuppgefinn á öllum þessum steinstigum og steingöngum. Ég vildi gefa mikið fyrir að mega aftur finna gras undir fótum.“
„Ég vildi gefa mikið fyrir að finna rammbeiskan drykk í kverkum og fyrir mjúkt rúm eftir góðan kvöldverð!“
„Það get ég víst ekki veitt þér meðan umsátrið stendur. En nú er orðið svo langt síðan ég hef verið á verði, á ég ekki að taka vaktina fyrir þig, ef þú vilt? Ég er ekki vitund syfjaður í kvöld.“
„Þú ert góður vinur í raun, herra Baggi, og ég vil glaður þiggja boð þitt. Ef eitthvað skyldi á bjáta, vildirðu þá vera svo góður að vekja mig fyrst! Ég ætla að leggja mig í innri klefanum til vinstri, hér rétt fyrir innan.“
„Farðu bara!“ sagði Bilbó. „ég skal vekja þig um miðnætti og þú getur þá vakið þann næsta á vaktinni.“
Strax og Vambi var farinn, setti Bilbó upp hringinn, festi reipið, lét sig renna út af veggnum og var horfinn. Hann hafði um fimm stundir til stefnu. Hann var viss um að Vambi myndi allan tímann sofa værum svefni (hann gat sofið hvenær sem var og eftir ævintýrið í skóginum sóttist hann alltaf eftir að komast aftur inn í draumana). Allir hinir voru önnum kafnir með Þorni. Það var afar ólíklegt að nokkur þeirra, ekki einu sinni Fjalar og Kjalar, kæmu út fyrr en að þeirra vakt kæmi.