„Vel af sér vikið, herra Baggi!“ sagði hann og klappaði Bilbó á bakið. „Alltaf stendurðu þig betur en búist er við!“ Þetta var þá enginn annar en Gandalfur.
Í fyrsta skipti í marga daga, lyftist heldur en ekki brúnin á Bilbó. En það gafst enginn tími fyrir allar þær spurnir sem hann langaði til að spyrja.
„Allt hefur sinn tíma!“ sagði Gandalfur. „Nú fer að nálgast lokin, ef mér skjátlast ekki. Þú átt óskemmtilega reynslu fyrir höndum, en hertu þig bara upp. Ef til vill gengur þetta allt upp hjá þér. Nú eru ný tíðindi í aðsigi, sem ekki einu sinni hrafnana órar fyrir. Góða nótt!“
Undrandi en glaður hraðaði Bilbó sér áfram. Honum var fylgt að öruggu vaði og leiðbeint þurrum fótum yfir, svo kvaddi hann álfana og hélt varlega áfram upp að hliðinu. Mikil þreyta seig yfir hann, en hann kom tímanlega vel fyrir miðnætti, handstyrkti sig upp reipið aftur — það var þar enn á sínum stað, þar sem hann skildi við það. Svo leysti hann það, stakk því á sig, settist niður á múrinn og beið áhyggjufullur þess sem verða vildi.
Um miðnætti fór hann og vakti Vamba, og hringaði sig sjálfur upp í sínu horni og vildi ekki hlusta á þakklæti gamla dvergsins (sem honum fannst hann heldur varla verðskulda). Brátt var hann steinsofnaður og laus við allar áhyggjur fram á morgun. Satt að segja var hann þá að dreyma um egg og fleskjur.
XVII. KAFLI
Fárviðrið brestur á
Snemma daginn eftir kváðu lúðrar við úr búðunum. Brátt sást til staks hlaupara sem hraðaði sér upp eftir þröngum stígnum. Í mátulegri fjarlægð staðnæmdist hann og bar fram kveðjur og spurðist fyrir um það, hvort Þorinn vildi nú ræða við aðra sendinefnd, þar sem nýrra tíðinda væri að vænta sem gætu breytt málum.
„Það hlýtur að vera út af Dáni!“ sagði Þorinn þegar hann heyrði þetta. „Þeir hafa fengið veður af því að þeir nálgast. Já, grunaði mig ekki að þá myndi koma annað hljóð í strokkinn! — Bjóðið þeim að koma fáum saman og vopnlausum, og ég mun hlýða á boðskap þeirra,“ kallaði hann til sendiboðans.
Um hádegisleytið mátti enn sjá fána Skógarins og Vatnabyggðar borna fram. Um tuttugu manna flokkur nálgaðist. Þar sem mjói stígurinn byrjaði lögðu þeir niður sverð og spjót, og nálguðust Hliðið. Sér til furðu sáu dvergarnir að þar í flokki voru þeir nú báðir Bárður og álfakóngurinn en fyrir þeim gekk gamall maður hulinn kufli og hettu sem bar smákistil úr járnspengdum viði.
„Heill sé þér, Þorinn!“ sagði Bárður. „Ertu enn sama sinnis?“
„Hugur minn sveiflast ekki til og frá þó nokkrar sólir rísi og setjist,“ svaraði Þorinn. „Eða komstu bara til að spyrja mig einskisverðra spurninga? Enn hefur álfaherinn ekki horfið á braut eins og ég krafðist! Fyrr en það gerist, þýðir ekkert að ætla að semja við mig.“
„Er þá ekkert sem þú vildir þiggja af okkur fyrir að afsala þér einhverju af gullinu?“
„Ekkert sem þú eða þínir vinir hafa að bjóða.“
„En hvað segirðu þá um Erkistein Þráins?“ mælti Bárður og samstundis opnaði gamli maðurinn kistilinn og hélt dýrgripnum á loft. Það var eins og ljósið gusaðist upp úr lófa hans, bjart og hvítt í dagsbirtunni.
Þá varð Þorinn svo furðu lostinn og ruglaður að hann kom ekki upp nokkru orði. Enginn mælti neitt langa hríð.
Loks rauf Þorinn þögnina, rödd hans rám af reiði, „Þennan stein átti faðir minn og hann er nú mín eign,“ sagði hann. „Hví ætti ég að kaupa mína eigin eign?“ Svo náði tortryggnin valdi á honum og hann bætti við: „En hvernig hafið þið komist yfir erfðagrip ættar minnar — sé nokkuð vit í að spyrja þjófa slíkrar spurningar?“
„Við erum engir þjófar,“ svaraði Bárður. „Við viljum aðeins fá þér það sem þitt er í stað þess sem er okkar.“
„Hvernig komust þið yfir hann?“ öskraði Þorinn í stigmagnandi vonsku.
„Ég fékk þeim hann!“ skrækti Bilbó og gægðist yfir múrinn dauðans skelkaður.
„Þú! Þú!“ æpti Þorinn, sneri sér að honum og þreif í hann með báðum höndum. „Þú ræfils hobbitinn þinn! Þú, þú, þinn dvergvaxni — innbrjótur!“ hrópaði hann en varð svo orðvant, — hristi bara vesalings Bilbó eins og hann væri einhver tuska.
„Ó, við skegg Durins! Ég vildi óska að Gandalfur væri hér til að standa fyrir máli sínu! Bölvun sé yfir honum fyrir að velja þig! Megi skegg hans visna! Og þér, já, þér skal ég kasta út af klettunum!“ æpti hann og hóf Bilbó á loft í örmum sér.
„Kyrr! Ósk þín er veitt!“ heyrðist rödd segja. Gamli maðurinn með kistilinn varp af sér hettu og kufli. „Hér er Gandalfur! Og það mátti ekki seinna vera. Þó þér líki ekki við Innbrjótinn sem ég valdi þér, máttu ekki skaða hann. Leggðu hann niður og hlustaðu fyrst á, hvað hann hefur að segja.“
„Þið eruð allir í samsæri gegn mér!“ sagði Þorinn en sleppti Bilbó á múrbrúninni. „Aldrei framar skal ég eiga samskipti við neinn vitka eða vini hans. Hvað hefurðu þá að segja, þú afkomandi rotta?“
„Ó, hjálpi mér! Hjálpi mér!“ sagði Bilbó. „Víst er þetta er allt ósköp vandræðalegt. En manstu ekki þegar þú sagðir, að ég mætti sjálfur velja mér og stinga út minn fjórtánda part! Ef til vill tók ég það of bókstaflega — og svo hefur mér líka verið sagt að dvergar séu stundum kurteisari í orði en á borði. En þetta var nú víst einhvern tímann, þrátt fyrir allt, þegar þér fannst ég hafa orðið að einhverju liði. Jæja, og svo er ég afkomandi rotta, einmitt! eru það svo öll launin sem þú og fjölskylda þín lofuðuð mér, Þorinn? Jæja, það má þá fara þannig að ég hafi þar með tekið út allan minn hlut eins og ég óskaði!“
„Víst má það fara þannig,“ sagði Þorinn grimmúðlega. „Og þú skalt líka fara þannig — og við skulum aldrei framar hittast!“ Svo sneri hann sér við og hrópaði yfir múrinn. „Ég hef verið svikinn,“ sagði hann. „Og víst er það rétt til getið að nú á ég engra kosta völ, ég gæti aldrei annað en innleyst Erkisteininn, dýrgrip ættar minnar. Ég vil þá afhenda fjórtánda part fjársjóðsins í silfri og gulli og þar á meðal líka gimsteina og skal á það líta sem greiðslu hins fyrirheitna hlutar svikarans, og með þann hlut skal hann hafa sig á braut, en þið getið skipt honum milli ykkar eins og þið kjósið. Þið fáið honum sjálfsagt einhverja hungurlús, ég efast ekki um það. Takið hann þá ef hann skal lifa, en engin vinátta frá minni hendi skal fylgja honum.“
„Snautaðu þá niður til vina þinna!“ sagði hann við Bilbó, „eða ég kasta þér niður.“
„En hvar er þá gullið og silfrið?“ spurði Bilbó.
„Það mun á eftir fylgja samkvæmt síðari ráðstöfun„“ sagði hann. „Niður með þig!“
„Þangað til höldum við steininum,“ hrópaði Bárður.
„Ekki er hægt að segja, Þorinn, að þú byrjir veglega þinn konungdóm undir Fjalli,“ sagði Gandalfur. „Þó gæti enn skipast veður í lofti.“
„Ætli það ekki!“ sagði Þorinn. En hann átti við það að liðsauki Dáins nálgaðist. Og svo var hann forhertur af tryllingi ágirndarinnar að það sem hann hafði í huga var að endurheimta Erkisteininn með valdi, svo að hann þyrfti ekki að greiða hinn útdeilda hlut.
Því næst var Bilbó sveiflað niður af múrnum og varð hann að hafa sig á braut, slyppur og snauður, án þess að fá nokkuð fyrir sitt framlag að undanskilinni brynjunni sem Þorinn hafði þegar fært hann í. Sumum dverganna fannst þetta smánarlegt og fundu til einlægrar samúðar með honum.