„Veriði sælir!“ hrópaði hann til þeirra. „Ég vona að við megum hittast aftur sem vinir.“
„Snáfaðu burt!“ hrópaði Þorinn. „Þú ert í brynju, handaverki minnar þjóðar og er hún alltof góð fyrir þig. Á hana bíta engar örvar, en ef þú ekki snautar burt hið bráðasta, get ég skotið í fæturna á þér. Svo flýttu þér!“
„Ekkert liggur á!“ sagði Bárður. „Við gefum þér frest til morguns. Um hádegi komum við aftur til að sjá hvort þú hefur reitt fram þann útdeilda skerf af fjársjóðnum sem á að ganga á móti steininum. Sé það gert undanbragðalaust, munum við hverfa á braut og álfaherinn halda aftur inn í skóginn. Á meðan köstum við kveðjum á þig!“
Með það sneru þeir aftur til herbúða sinna. En Þorinn fékk sendiboða hrafnsins Hróka til að fara til móts við Dáin og segja honum hvað í hefði skorist og biðja hann að hraða sér sem mest hann mætti en fara þó varlega.
Sá dagur leið að kvöldi og nóttin með. En daginn eftir snerist vindurinn í vestrið og himinninn varð dimmur og drungalegur. Árla morguns heyrðist hrópað í herbúðunum. Hlauparar komu með þau tíðindi að sést hefði til dvergahers handan austurrana Fjallsins sem nálgaðist óðum á Dal. Dáinn var þar kominn með allt sitt lið. Hann hafði hraðað för og gengið alla nóttina svo að hann kom fyrr en þeir höfðu búist við. Allir voru þeir búnir brynserkjum úr stálhringjum sem náðu niður að hnjám, og fæturnir líka varðir hosum úr afar fíngerðu og teygjanlegu málmneti, en gerð þeirra var leyndarmál brynjugerðarmanna Dáins. Dvergar eru afar sterkir eftir stærð, og í þessu liði voru eintómir afrenndir kappar. Í orustum beittu þeir tvíblaða öxum, en báru einnig breiðar sverðbreddur við hlið sér og höfðu brugðið hringlaga skjöldum yfir öxlina. Skeggjum sínum höfðu þeir tjúgað í tvær fléttur sem þeir festu undir belti sér. Hjálma höfðu þeir af járni og voru járnskæddir til fótanna, en svipur þeirra var harðskeyttur sem grjót.
Lúðrar kvöddu menn og álfa til vopna. Brátt sást til dverganna koma upp úr dalnum á fleygiferð. Meginher þeirra nam staðar milli árinnar og austurranans, en nokkrir drógu sig þó út úr, óðu yfir ána nálægt búðunum, og lögðu niður vopn sín og réttu upp hendur að friðartákni. Bárður fór á móti þeim og Bilbó fylgdi honum.
„Við erum fulltrúar Dáins Náinssonar,“ sögðu þeir, þegar þeir höfðu verið spurðir til heitis. „Við erum á hraðri ferð til ættmenna okkar í Fjallinu, þar sem við höfum frétt að hið forna konungsríki Dverga hafi verið endurreist. En hví hafið þið búist fyrir á sléttunni sem óvinir framan við varða múra?“ Þetta var auðvitað bara kurteisleg en fremur gamaldags ræða við slík tækifæri, og þýddi einfaldega: „Hvað eruð þið að flækjast hér fyrir okkur. Við viljum fá að halda áfram, víkið því frá eða við verðum að grípa til vopna!“ Það virtist ætlun þeirra að halda áfram förinni milli fjallsranans og árbugðunnar, því að þröng landræman þar á milli virtist lítt varin.
Bárður þverneitaði dvergunum að sjálfsögðu för að Fjallinu. Hann var staðráðinn í að hleypa þeim ekki lengra, fyrr en gullið og silfrið hefði verið fram reitt í skiptum fyrir Erkisteininn, því að hann grunaði að það myndi farast fyrir, eftir að virkið yrði mannað af svo miklum og herskáum liðsafla. Dvergaherinn hafði líka tekið með sér mikið af birgðum því að dvergar eru ótrúlegir burðarjálkar og nærri allir í sveit Dáins höfðu, þrátt fyrir hraðferðina, mikla vistabagga á bakinu auk vopnanna. Ef þeir kæmust í Fjallið gætu þeir haldið út margra vikna umsátur og þá yrðu fleiri dvergar komnir á vettvang og aftur enn fleiri, því að Þorinn átti fjölda ættingja í öllum áttum. Þá hefðu þeir liðsafla til að opna og hafa varðstöðu á fleiri hliðum, svo að umsátursliðið yrði að króa af allt fjallið og til þess hefðu þeir ekkert bolmagn.
Sú var einmitt ráðagerð þeirra dverganna (og höfðu þeir haft samráð um hana fyrir milligöngu hrafnanna sem voru stöðugt á ferðinni milli Þorins og Dáins). En nú var leiðin lokuð, og eftir að heitingar höfðu gengið á milli urðu dvergsendiboðarnir frá að hverfa en bölvuðu niður í skeggið. Bárður lét sendiboða þá þegar fara upp að hliðinu, en þeir fundu ekkert gull né neina útborgun. Þess í stað dundi örvahríðin á þeim strax og þeir komu í færi, og þeir sneru frá í ofboði. Allt var nú í uppnámi og búist til bardaga, því að dvergaher Dáins sótti fram eftir austurbakkanum.
„Fáráðlingar!“ sagði Bárður glottandi, „að ætla sér að sækja þannig inn með fjallsrananum. Þeir virðast ekki kunna neina stríðslist ofanjarðar, kunna líklega að berjast niðri í námum. Fjöldi bogmanna okkar og spjótliða leynist nú bak við klettana á hægri armi. Dvergabrynjur eru sjálfsagt góðar, en það fær nú að reyna á það. Nú ráðumst við til atlögu á þá frá báðum hliðum, áður en þeir ná að hvíla sig!“
En álfakonungurinn sagði: „Lengi vil ég láta á reyna, fyrr en ég byrja þetta stríð út af eintómri ágirnd í gull. Dvergarnir komast ekki framhjá án okkar vilja, né geta neitt það gert sem við höfum ekki gagnráð við. Reynum heldur að lifa í voninni um að eitthvað færi okkur saman í sátt. Ofurefli okkar í liði ætti alltaf að nægja, ef að lokum kæmi til ógæfuátaka.“
En hann reiknaði ekki með svæsnu innræti dverganna. Vitneskjan um að Erkisteinninn væri í höndum umsátursliðsins brann þeim logaheitt í hamsi. Ef til vill grunaði þá líka að Bárður og vinir hans myndu hika, og ákváðu því að láta til skarar skríða óvænt, meðan hinir væru enn í viðræðuskapi.
Skyndilega og fyrirvaralaust réðust þeir fram til atlögu. Það small í bogum og örvar þutu. Orustan var að hefjast.
Enn sneggri urðu þó umskiptin í lofti þegar myrkrið skall yfir ótrúlega skjótt! Kolsvart ský þandi sig yfir himininn. Vetrarþrumur ultu yfir með ofsaroki og drundu og þrumuðu í Fjallinu meðan eldglæringar lýstu upp tindinn. Og undir þrumufleygnum komu í ljós aðrir sortahnútar sem hnykluðust áfram yfir landið, en undarlegt að þá bar ekki undan vestanstorminum, heldur komu þvert á hann úr norðri undir risavöxnu fuglageri, svo þéttu að engin ljósglæta fékk smogið milli vængja þeirra.
„Hættið!“ hrópaði Gandalfur. Nú birtist hann skyndilega og tók sér stöðu aleinn með útrétta arma í víglínunni mitt á milli dverganna sem sóttu fram og herskaranna sem biðu þeirra. „Hættið tafarlaust!“ kallaði hann með þrumuraust og stafur hans blossaði með leiftri sem af eldingu. „Skelfingin vofir yfir öllum! Því miður skellur hún nú yfir skjótar en ég bjóst við. Dríslarnir æða yfir ykkur. Belgur* sækir fram úr norðri, Ó, Dáinn! sonur þess sem þú vóst í Moría. Sjá! leðurblökurnar fljúga yfir fylkingum hans eins og engisprettur. Þeir ríða á úlfum og Vargar eru í liði þeirra.“
Undrun og fát greip þá alla. Jafnvel á þeim stutta tíma meðan Gandalfur var að mæla þessi orð, mátti sjá mun á hve myrkrið óx. Dvergarnir létu bogana síga og störðu upp í loftið. Álfarnir ráku upp margradda óp.
„Komið!“ kallaði Gandalfur. „Enn er tími til samráðs. Biðjið Dáin Náinsson að koma strax til ráðagerða við okkur!“
Þannig hófst sú orusta sem enginn hafði búist við. Hún varð fræg í sögunni sem Fimmherjaorustan og var alveg óskapleg. Annars vegar voru Dríslarnir og villtu Úlfarnir, hinum megin Álfar, Menn og Dvergar. Þannig bar hana að. Allt frá því Stórdrísillinn í Þokufjöllum féll, hafði hatur dríslanna á dvergum blossað upp í offorsi. Sendiboðar voru sífellt á þönum fram og aftur um allar borgir þeirra, nýlendur og virki. Nú voru þeir ákveðnir í að beita samræmdu átaki til að ná fullkomnum yfirráðum yfir öllum Norðurslóðum. Þeir öfluðu sér upplýsinga á laun og um leið hófu þeir í laumi mikla vopnasmíð í allsherjar vígbúnaði undir öllum fjöllum. Svo héldu fylkingar þeirra af stað til liðsafnaðar um hæðir og dali, en mest drógu þeir liðið þó saman í jarðgöngum eða í myrkri nætur, þar til gífurlegur her þeirra var saman kominn undir hinu mikla Gundabað-fjalli nyrst í Þokufjöllum sem var einskonar höfuðsetur þeirra, og þaðan bjuggust þeir til að steypa sér óvænt í rjúkandi fárviðri suður á bóginn. Þá fréttu þeir af dauða Smeygins og fylltust fögnuði yfir þessu gullna tækifæri og hröðuðu sér nótt eftir nótt eftir fjallaleiðum og komu að lokum skyndilega út úr Norðrinu rétt á eftir Dáni og sveitum hans. Þeir fóru svo leynt að ekki einu sinni hrafnarnir vissu af ferð þeirra, þangað til þeir komu út á auðnirnar að baki Fjallsins eina og milli hæðanna þar fyrir aftan. Ekki er ljóst hve mikið Gandalfur vissi, en þó verður að telja ólíklegt að hann hafi búist við svo skyndilegri framrás þeirra.