Выбрать главу

„Til mín! Til mín! Álfar og Menn! Komið allir til mín. Og þið Dvergar, allir ættingjar mínir!“ hrópaði hann og rödd hans glumdi við og skalf eins og hornablástur yfir allan dalinn.

Niður, niður, án tillits til skipulags eða reglu þustu allir dvergar Dáins óstöðvandi honum til hjálpar. Þar í hóp bættust líka margir Vatnamenn, því að Bárður gat ekki haldið aftur af þeim og frá hinni hliðinni komu æðandi ótal spjótliðar álfanna. Enn á ný voru dríslarnir í dalnum hraktir og sallaðir niður og þeir hlóðust upp í gnæfandi valkesti þar til allt á Dal varð morandi og mengað af viðbjóðslegum skrokkhræjum þeirra. Öllum Vörgunum var drepið á dreif og Þorinn stefndi markvisst beint að lífverði Belgs. En honum tókst þó ekki að rjúfa skjaldborg þeirra.

Að baki honum inn á milli hinna dauðu drísla lá nú líka fallinn fjöldi manna og dverga, og margur fagur álfurinn sem annars hefði fengið að lifa langt líf í fögnuði í skóginum. Og eftir því sem dalurinn víkkaði út eftir, dreifðist sóknin og hægði á framrásinni. Þorinn var alltof fáliðaður og fylkingararmarnir alltof opnir og óvarðir. Brátt snerist taflið við, sótt var að þeim úr öllum áttum og þeim þröngvað inn í skjaldhring, til að verjast í allar áttir, umkringdir dríslum og úlfum sem sneru við hinir gráðugustu til gagnáhlaups. Og nú kom lífvarðarlið Belgs æðandi að þeim og réðist inn í raðir þeirra eins og haföldur á molnandi sandsteinsklettum. Og nú gátu vinir þeirra ekki komið þeim til hjálpar því að árásirnar ofan af Fjallinu hófust að nýju með margföldum krafti og úr báðum áttum var smám saman verið að saxa niður menn og álfa.

Með öllu þessu fylgdist Bilbó í volæði og vonleysi. Hann hafði komið sér fyrir ósýnilegum við Hrafnaborg meðal álfanna — að sumu leyti af því að þar sýndust honum mestir möguleikar á að komast undan, en einnig þó (eftir Tókaeðli sínu) vegna þess að ef barist yrði til hinsta manns, kaus hann helst að verja álfakonunginn. Var Gandalfur einmitt þar, sitjandi á jörðinni eins og í djúpum þönkum og var, ef ég skil það rétt, líkast til að undirbúa eitthvert töfradúndur áður en yfir lyki.

Endalokin virtust ekki langt framundan. „Já, það líður víst ekki á löngu úr því sem komið er,“ hugsaði Bilbó „að dríslarnir ná Hliðinu á sitt vald og okkur verði öllum slátrað eða hraktir á flótta og handteknir. Það er reglulega grátlegt að svona skyldi þurfa að fara, eftir allt sem ég hafði nú lagt á mig. Og það verð ég nú að segja, að ég vildi miklu heldur að gamli Smeyginn hefði fengið að halda öllum þessum óhræsis fjársjóði, en að þessar ógeðslegu skepnur hreppi hann. Og ég get ekki til þess hugsað, að vesalings vesalings gamli Vambi og Balinn og Fjalar og Kjalar og allir hinir eigi að hljóta svona grimm örlög. Að maður ekki nefni Bárð og Vatnamennina og alla kátu álfana. Æ, hvað þetta getur allt saman verið ömurlegt! Ég sem hef heyrt svo marga orustusöngva og þar er því stundum haldið fram að ósigur sé eitthvað svo afskaplega dýrðlegur. Ég get ekki fundið það nú, þvert á móti finnst mér hann harla óþægilegur, að maður segi ekki vandræðalegur. Ég vildi að ég væri hér hvergi nærri.“

Vindurinn tætti skýin og roðasól kvöldsins litaði Vestrið. Þá fannst Bilbó skyndilega að hann yrði var við eitthvert blik uppi í drunganum og hann leit við. Hann rak upp heljaróp: Það var sjón sem fékk hjarta hans til að hoppa hátt, dimmar útlínur en tignarlegar bar við fjarskaglóðina.

„Ernirnir! Ernirnir!“ hrópaði hann. „Ernirnir eru að koma!“

Bilbó var ekki vanur að láta neinar ofsjónir blekkja sig. Ernirnir komu raunverulega svífandi að undan vindi, þeir komu í löngum röðum, svo miklir himinsins herskarar að því liði virtist hafa verið safnað frá öllum arnarhreiðrum á Norðurslóð.

„Ernirnir! Ernirnir!“ hrópaði Bilbó og dansaði og baðaði út höndunum. Að vísu gátu álfarnir ekki séð hann en þeir gátu vel heyrt í honum. Brátt tóku þeir fullum hálsi undir hróp hans og þau endurómuðu yfir þveran dalinn. Ótal undrandi augu gægðust upp, þó enn sæist ekkert nema frá suðuröxl Fjallsins.

„Ernirnir!“ hrópaði Bilbó enn einu sinni, en á samri stundu skall fljúgandi steinn hart á hjálmi hans og hann féll niður með dynk og vissi ekki meira af sér.

XVIII. KAFLI

Heimferðin

Þegar Bilbó kom til sjálfs sín mátti sannarlega segja að hann væri í raun og veru sjálfs sín. Hann lá nefnilega á flötu plötunni við Hrafnaborg og ekki nokkur sála neins staðar nálægt. Það var skýskafinn himinn, en kalt í veðri. Hann hríðskalf, kaldur eins og klettur, en logaði í höfðinu.

„Núnú, hvað skyldi hafa gerst?“ sagði hann við sjálfan sig. „Ég er að minnsta kosti ekki enn kominn í hóp þessara föllnu hetja. En sjálfsagt hef ég líka nógan tíma til þess.“

Hann settist upp með herkjum. Þegar honum varð litið niður í dalinn sá hann enga drísla þar á randi. Eftir nokkurn tíma dró úr hausverknum og hann gat ekki betur séð en að álfar væru á ferli í urðinni fyrir neðan. Hann nuddaði sér um augun. Jú, stóðu ekki herbúðirnar enn á sínum stað á sléttunni fyrir neðan? Og var ekki stöðugur erill uppi við Hliðið? Dvergarnir virtust í óða önn að velta um múrnum. Annars var allt steinhljótt. Engin hróp heyrðust og enginn ómur af söng. Þungur harmur lá í loftinu.

„Við höfum þá haft sigur eftir allt saman!“ sagði hann og strauk auman hausinn. „Samt er þetta allt hundleiðinlegt.“

Allt í einu varð hann þess var að maður kom klífandi upp hlíðina í áttina að honum.

„Hæ, þú þarna!“ hrópaði hann hásum rómi. „Hæ, þú þarna! Hvað er títt?“

„Hvaða rödd talar þar meðal steinanna?“ sagði maðurinn, nam staðar ekki langt frá þeim stað þar sem Bilbó sat og skimaði í kringum sig.

Þá mundi Bilbó allt í einu eftir hringnum! „Ja, hver fjárinn!“ sagði hann. „Það getur líka haft ókosti í för með sér að vera ósýnilegur. Ég býst við að það hafi haft það af mér að fá að liggja í hlýju og þægilegu bóli í nótt!“

„Það er ég Bilbó Baggi, félagi Þorins,“ hrópaði hann og tók í skyndi ofan hringinn.

„Það var mikið að ég fann þig!“ sagði maðurinn og kom arkandi að honum. „Þín er sárt saknað og við höfum lengi leitað þín. Þú hefðir endanlega verið talinn til hinna föllnu sem víst eru margir, ef vitringurinn Gandalfur hefði ekki sagt að hann hefði síðast heyrt til þín hérna uppi. Ég var sendur hingað í síðustu leit. Ertu mikið meiddur?“

„Ég fékk víst bölvað högg á hausinn,“ sagði Bilbó. „En ég hafði hjálm og harða höfuðskel. Samt líður mér hálf illa og fæturnir lyppu líkastir.“

„Ég skal þá bera þig niður að herbúðunum í dalnum,“ sagði maðurinn og lyfti honum upp léttilega.

Maðurinn var fljótur og fótviss. Það leið því ekki á löngu áður en hann setti Bilbó niður framan við tjald eitt á Dal. Þar stóð Gandalfur með annan handlegginn í fatla. Sjálfur vitkinn hafði ekki einu sinni komist hjá meiðslum enda voru fáir ósárir í öllum hernum.

Þegar Gandalfur sá Bilbó, varð hann himinlifandi. „Bilbó!“ hrópaði hann. „Nú dámar mér ekki! Þú hefur þá sloppið lifandi eftir allt saman — hvort ég er glaður! Ég var farinn að óttast, að þín alkunna heppni hefði nú ekki dugað þér lengur! Þetta var líka hræðileg rimma og munaði engu að illa færi! En önnur tíðindi mega bíða. Komdu hingað!“ sagði hann í alvarlegri tón. „Þín er beðið með óþreyju.“ Svo vísaði hann hobbitanum með sér inn í tjaldið.