Выбрать главу

Svo fór að lokum að hann vildi aðeins taka með sér tvær litlar kistur, aðra með silfri, hina með gulli, mátulega byrði fyrir stæltan smáhest. „Ætli það sé ekki mátulegt handa mér að ráða við,“ sagði hann.

Loks var komið að skilnaðarstund og Bilbó kvaddi vini sína. „Vertu sæll Balinn!“ sagði hann, „og vertu sæll Dvalinn, og vertu sæll Dóri, Nóri, Óri, Óinn, Glóinn, Bifur, Bógur og Vambi!“ Megi skegg ykkar aldrei þynnast né skrælna.“ Svo sneri hann sér að Fjallinu og bætti við: „Vertu sæll, Þorinn Eikinskjaldi! Og veriði sælir Fjalar og Kjalar! Megi minning ykkar aldrei dofna!“

Allir dvergarnir hneigðu sig djúpt fyrir honum á hlaðinu framan við Hliðið, en orðin stóðu föst í hálsi þeirra. „Vertu sæll og gæfan fylgi þér, hvert sem þú ferð!“ stundi Balinn loksins upp. „Ef þú einhvern tímann gætir heimsótt okkur aftur þegar salir standa fagrir enn á ný í allri sinni dýrð, skyldum við halda veislu sem tæki öllum fram!“

„Ef þið ættuð nokkurn tímann leið framhjá mínum húsum,“ sagði Bilbó, „skuluð þið ekki hika við að berja að dyrum! Tetíminn er eins og venjulega klukkan fjögur, en auðvitað eruð þið velkomnir á hvaða tíma dags sem er.“

Svo sneri hann á braut.

Álfaherinn hélt heim á leið, og þótt þungur harmur væri kveðinn að þeim mörgu sem fallið höfðu, gátu þeir glaðst yfir því að hinn norðlægi heimshluti yrði notalegri til íveru um langa hríð. Drekinn var dauður og veldi dríslanna hnekkt. Vetur nálgaðist hnig og þeir horfðu glaðir fram til vorsins.

Gandalfur og Bilbó riðu á eftir Álfakónginum og meðfram þeim stikaði Björn, aftur í mannslík. Hann hló stórum og söng hástöfum á leiðinni. Þannig héldu þeir áfram þar til þeir nálguðust jaðar Myrkviðar aðeins norðan við framhlaup Skógár. Þar var áð, því að vitkinn og Bilbó hugðust ekki halda inn skóginn og það þótt kóngurinn byði þeim þangað að veislum. Ætlun þeirra var að fara meðfram skógarjaðrinum fyrir norðurenda hans og út á auðnirnar á milli skógarins og undirhlíða Gráufjalla þar fyrir norðan. Þetta var löng og óskemmtileg leið, en nú eftir að dríslarnir höfðu verið brotnir á bak aftur virtist þeim hún öruggari en hin skelfilega skuggaleið í gegnum skóginn. Auk þess myndi Björn verða þeim samferða.

„Far vel! Ó, Álfakóngur!“ sagði Gandalfur. „Megi gleði ríkja í grænskógi meðan jörð er enn ung! Og megi gleði ríkja með öllu þínu fólki!“

„Far vel! Ó, Gandalfur!“ svaraði kóngurinn. „Megir þú ætíð birtast þar sem þín er mest þörf og síst við þér búist! Og því oftar sem þú hefur viðdvöl í mínum sölum, þeim mun ánægðari verð ég!“

„Fyrirgefðu,“ sagði Bilbó stamandi og steig upp í annan fótinn, „en má ég biðja þig að taka við þessari gjöf!“ og hann tók upp hálskeðju úr silfri og perlum sem Dáinn hafði gefið honum að skilnaði.

„En ég veit nú ekki með hverju ég hafi unnið til slíkrar gjafar, Ó, hobbiti?“ sagði konungur.

„Ja, sko, ég hugsaði, ja, þú veist það líklega ekki,“ sagði Bilbó hálf hvumsa, „að, sko, að þetta getur verið svolítil greiðsla fyrir gestrisni þína. Ég á við að jafnvel innbrjótur getur átt sínar tilfinningar. Og víst drakk ég mikið af víni þínu og át mikið af brauði þínu.“

„Víst mun ég þiggja gjöf þína, Ó, Bilbó hinn Veglyndi!“ sagði konungurinn alvarlega. „Og hérmeð útnefni ég þig Álfvin og margblessa þig. Megi skuggi þinn aldrei rýrna (því að þá yrði alltof auðvelt fyrir þig að stela)! Farðu vel!“

Svo sneru álfarnir til skógar, en Bilbó lagði af stað í hina löngu leið heim.

Hann lenti í margskonar erfiðleikum og ævintýrum áður en hann komst heim. Villulöndin voru enn villt og margt var þar á ferli í þá daga utan drísla. En góða fékk hann leiðsögnina og verndina, — því að sjálfur vitkinn fylgdi honum og Björn einnig mikinn hluta leiðarinnar — og hann var því aldrei í neinni hættu. En um miðsvetrarleytið komu þeir Gandalfur og Bilbó, eftir að hafa riðið meðfram skógarjaðrinum, að húsi Bjarnar og þar dvöldust þeir um hríð. Á jólunum var hlýtt í skálanum og glatt á hjalla og menn komu víða að veislum eftir boði Bjarnar. Dríslar Þokufjalla voru nú bæði fáir og skelfdir og leyndu sér í dýpstu holum sem þeir gátu fundið og Vargarnir voru horfnir á braut úr skógunum svo menn gátu ferðast um óttalaust. Raunar gerðist Björn að þessu loknu voldugur höfðingi yfir þeim héruðum og ríkti yfir allri landspildunni milli fjallanna og skógarins. Og sagt var að í margar kynslóðir hafi menn af hans Birningaætt getað tekið á sig bjarnarmynd en þeir voru sumir grimmúðgir og vondir en flestir þó að hjartalagi líkir Birni, þó þeir væru minni vexti og ekki eins hamrammir. Á þeirra dögum voru síðustu dríslarnir hraktir burt frá Þokufjöllum og friður ríkti á ysta hjara Villulanda.

Komið var vor, og það hið fegursta með góðviðrum og sólarbirtu, áður en þeir Bilbó og Gandalfur loks kvöddu og þó Bilbó væri haldinn heimþrá, hvarf hann burt með söknuði frá Birni, því að blómin í garði hans blómstruðu svo glæst sem á hásumri væri.

Loks komu þeir eftir löngum þjóðveginum upp í fjallaskarðið þar sem dríslarnir áður höfðu fangað þá. Þeir komu í háskarðið að morgni til og er þeim varð litið um öxl sáu þeir skjannahvíta sólina skína yfir víðfeðm löndin. Þar fyrir handan lá Myrkviður blár í fjarskanum og þó enn dekkri á nálægari jaðrinum jafnvel þótt vor væri. Enn fjær greindu þeir Fjallið eina á mörkum sjónsviðsins. Á hæsta tindinum glytti enn dauft í óbráðna mjöll.

„Þannig breiðir snjórinn voð sína yfir eldinn og jafnvel drekar bíða sín endalok!“ sagði Bilbó og að því búnu sneri hann baki við ævintýrinu. Tókaparturinn hans var nú orðinn ósköp daufur í dálkinn, en Bagginn í honum styrktist með hverjum degi. „Ég vildi nú aðeins óska að ég sæti aftur heima í hægindastólnum mínum!“ sagði hann.

XIX. KAFLI

Síðasti áfanginn

Það bar upp á fyrsta maídaginn þegar þeir félagar komu loksins fram á brún Rofadals, þar sem Hinstahöll (eða Fyrstahöll eftir því hvernig á það var litið) heimsins stóð. Komið var fram á kvöld, klárarnir orðnir þreyttir, einkum klyfjahesturinn, og allir voru þeir þurfandi fyrir hvíld. Þegar þeir komu ríðandi niður brattan stíginn, heyrði Bilbó að álfarnir sungu enn í trjánum eins og þeir hefðu ekki gert neitt hlé á síðan hann hvarf á braut. Og strax og riddararnir komu niður í lægri rjóður skógarins hófu þeir líkan kvæðasöng og áður. Eitthvað á þessa leið:

Drekinn er visinn, bein hans brotin, brynja hans gisin, ógn hans þrotin. Sverðið hið skarða og hásæti garða, í herstyrk hins harða, hátt rís sem varða. Gras mun þá gróa, og grænskrúð hlíða og laufskrúð víða lifna um skóga. Kristöllum klingjum álfar og syngjum Komið tra-la-lala niður til dala. Stjörnur skína skærar en skart á fögrum fljóðum. Tunglið lýsir tærar en silfurspöng í sjóðum. Eldur logar hlýrri í arinskuggans glóðum, en gull úr námu nýrri í gróðaseggsins skjóðum. Klukkum við hringjum álfar og syngjum Komið tra-la-lala niður til dala. Hvert skal núna halda, hvar ætliði að tjalda. Árnar áfram renna, stjörnurnar brenna. Léttu af öllum þunga, burt með þennan drunga, gleðstu meðal ungra álfa og álfameyja. – Eitt sinn skal hver deyja! Vín á glösum klingjum álfar og syngjum Komið tra-la-lala niður til dala.