Выбрать главу

Ég hef oft velt því fyrir mér, hvernig faðir minn og afi sluppu út. Ég þóttist skilja að þeir einir mundu hafa vitað um leyndan útgang. Nú fæ ég allt í einu að vita að þeir hafi meira að segja gert uppdrátt, og vildi gjarnan fá að vita hvernig þú Gandalfur komst yfir hann, og hversvegna hann barst ekki til mín, hins lögmæta erfingja.“

„Ég komst ekkert „yfir hann,“ heldur var mér beinlínis fenginn hann,“ svaraði vitkinn. Afi þinn Þrór féll eins og þú munt vita í Moríanámunum fyrir dríslinum Azogi.“

„Bölvað sé það nafn, já,“ sagði Þorinn.

„Og Þráinn faðir þinn hélt af stað burtu þaðan hinn tuttugasta og fyrsta apríl og voru nákvæmlega hundrað ár liðin síðan nú á fimmtudaginn og eftir það hafði aldrei neitt til hans spurst.“

„Satt og rétt er það,“ svaraði Þorinn.

„Jæja, þá vil ég upplýsa þig um það, að faðir þinn fékk mér þetta kort og bað mig um að afhenda þér. En þú getur varla áfellst mig fyrir það, þótt það hafi dregist fyrir mér hverjum og hvernig ég skyldi afhenda það, ef þú vissir um alla þá fyrirhöfn sem það hefur kostað mig að leita þig uppi. Faðir þinn mundi hvað hann hét sjálfur, þegar hann fékk mér plaggið og sagði mér aldrei nafn þitt. Svo mér finnst að mér beri fremur þakkir fyrir að hafa uppi á þér og koma því til skila! Hér er það þá,“ sagði hann og rétti Þorni kortið.

„Ég skil nú samt ekki . . .“ sagði Þorinn og Bilbó hefði viljað taka undir þau orð. Því að þeim fannst þetta svo sem engin útskýring.

„Afi þinn,“ hélt vitkinn þá áfram hægt og alvarlega, „fékk syni sínum, það er föður þínum, þetta kort til öryggis áður en hann hélt inn í námur Moría. Síðan hélt faðir þinn af stað með kortið, eftir að afi þinn var fallinn, og hugðist freista gæfunnar með því. En hann varð þá fyrir hverju óhapptilfellinu á fætur öðru mjög svo óþægilegu, svo það gat varla verið einleikið, en komst aldrei í nánd við Fjallið eina. Hvernig hann svo lenti í Dol Guldúr veit ég ekki, en þar fann ég hann sem fanga í dyflissum Násugunnar.“

„En hvað í ósköpunum varstu að gera þar?“ spurði Þorinn og fór hrollur um hann, en skjálfti kom í alla dvergana.

„Skiptu þér ekki af því. Ætli ég hafi ekki eins og venjulega verið að athuga eitthvað, en það var líka nógu ógeðslegt. Sjálfur ég, Gandalfur, slapp aðeins burt þaðan með herkjum. Ég reyndi að bjarga föður þínum en það var þá orðið of seint. Hann var skynlaus og reikull í ráði og hafði gleymt næstum öllu nema uppdrættinum og lyklinum.“

„Við létum dríslana í Moríu fá fyrir ferðina,“ sagði Þorinn. „Nú ættum við að snúa okkur að Násugunni.“

„Láttu þér ekki detta það í hug. Hún er öflugri sem óvinur en allir dvergar til samans, þó hægt væri að kveðja þá saman á einn stað úr öllum heimsins hornum. Faðir þinn átti sér aðeins eina ósk, að sonur hans skoðaði þetta kort og notaði lykilinn. Drekinn í Fjallinu er líka meira en nóg viðfangsefni fyrir þig einn sér!“

„Heyr, heyr!“ hrópaði Bilbó og óvart upphátt.

„Heyra hvað?“ sögðu þeir allir og horfðu hissa á hann. Hann varð svo flaumósa í fátinu, að til þess að bjarga sér út úr því svaraði hann: „Heyrið hvað ég hef að segja!“

„Og hvað er það?“ spurðu hinir.

„Það sem ég vildi sagt hafa er, að það gefur auga leið að þið ættuð að halda í Austur og kanna allar aðstæður þar. Nú er loksins vitað um þessar leyndu hliðardyr og drekar hljóta einhvern tímann að þurfa að sofa, eða ég býst við því. Ef þið svo bara bíðið nógu lengi á þröskuldinum, þykist ég viss um að þið finnið eitthvað út úr því. En hitt verð ég líka að segja, að mér finnst að við höfum talað nógu mikið fyrir heila nótt, ef þið skiljið hvað ég meina. Hvernig væri nú að fara strax í rúmið og snemma á fætur í fyrramálið svo þið getið verið vel upp lagðir. En ég skal hafa tilbúinn góðan morgunverð, áður en þið leggið af stað.“

„Þú átt við áður en við leggjum af stað,“ sagði Þorinn. „Eða átt þú ekki einmitt að vera sjálfur innbrjóturinn? Og er það ekki þitt hlutverk að sitja þarna á dyrahellunni, að ég nú ekki tali um að komast inn um dyrnar? En hinu get ég verið sammála um rúmið og morgunverðinn. Ég vil fá sex egg með fleskinu, þegar ég er að leggja af stað í langferð. Þau eiga að vera spæld en ekki gufusoðin, og mundu umfram allt að láta ekki rauðuna springa.

Eftir að allir höfðu pantað sér sinn sérstaka morgunverð, án þess svo mikið sem að segja einu sinni svei þér (og Bilbó grútfúll yfir því), risu allir úr sætum. Nú kom að hobbitanum að vísa þeim öllum til sængur, en öll gestaherbergin fylltust og hann varð að gera hinum legupláss úr stólum og bekkjum, þangað til hann var búinn að hola þeim öllum niður einhvers staðar í hrúgum og gat háttað ofan í sitt eigið litla rúm. Hann var þó engan veginn ánægður með sjálfan sig og hafði skipt um skoðun. Hann ætlaði ekki að nenna að fara að rífa sig upp í bítið í fyrramálið og útbúa alla þessa andstyggilegu sérrétti handa öllum hinum. Tókaeðlið var á undanhaldi svo hann var hreint ekkert viss um að hann legði af stað í neitt ferðalag á morgun.

Þar sem hann lá í rúmi sínu, heyrði hann enn til Þorins söngla lágt við sjálfan sig í besta svefnherberginu næst við hliðina.

Um Þokufjöll við förum köld með forynjum og hellafjöld. Við heimtum okkar hörpugull vor harmaskál er barmafull

Með þann óm í eyrunum sofnaði Bilbó og hann hafði af honum mjög óþægilega drauma. Hann vaknaði ekki fyrr en löngu eftir dögun.

II. KAFLI

Kindakrof

Bilbó Þaut upp úr rúminu, brá sér í sloppinn sinn og hélt fram í borðstofuna. Þar var engan að sjá en næg ummerki um morgunverð í ógnarlegum flýti. Allt var í rusli í stofunni og staflarnir af óhreinu leirtaui í eldhúsinu. Svo var að sjá, að hver einasti pottur og panna í öllu húsinu hefði verið tekinn til handargagns. Uppþvotturinn sem nú beið Bilbós var svo hrikalega raunverulegur að hann neyddist til að trúa því, að þetta undarlega samkvæmi kvöldið áður hefði ekki aðeins verið vondur draumur, sem hann var þó að vona. En svo létti honum við þá notalegu tilfinningu að nú væru þeir allir farnir og hefðu skilið hann eftir, ekki nennt að hafa fyrir því að vekja hann (ekki mikið að þakka fyrir sig, hugsaði hann), en það undarlegasta var þó að honum fannst hann í og með sakna þeirra. Sú tilfinning kom honum mjög á óvart.