Выбрать главу

Því næst komu álfarnir úr dalnum fram og heilsuðu þeim og fylgdu þeim yfir ána að húsi Elronds. Þar var þeim tekið tveim höndum og mörg voru forvitnu eyrun til að hlýða á frásagnirnar af ævintýrum þeirra. Bilbó var orðinn þegjandalegur og syfjaður svo að Gandalfur sagði frá. Sjálfur hafði Bilbó lítinn áhuga á að hlusta á það flest, því að hann gjörþekkti það, hafði sjálfur staðið í eldinum og þurfti því ekki að láta segja sér neitt. Enda hafði vitkinn það mestallt frá honum, því að Bilbó hafði rakið það allt fyrir honum á leiðinni eða í viðdvölinni í húsi Bjarnar. En við og við rifaði þó í annað augað á honum og áhuginn vaknaði, ef vitkinn skaut inn einhverjum atvikum sem hann vissi ekki um.

Þannig komst hann að því hvar Gandalfur hefði haldið sig allan tímann sem hann var í burtu, því að hann lýsti því fyrir Elrond. Af því mátti skilja að Gandalfur hefði setið mikla ráðstefnu hvítu vitkanna, höfðingja fornra fræða og meinlausra hvítagaldra og að þeir hefðu loksins afrekað það að hrekja Násuguna úr sínu dimma bæli í suðurhluta Myrkviðar.

„Áður en langt um líður,“ sagði Gandalfur, „ætti eitthvað heilbrigðara að fara að vaxa í Skóginum. Ég vona þá að öll Norðursvæðin losni endanlega við allan þann hrylling. Helst hefði ég óskað þess að seiðskrattinn hefði verið bannfærður úr víðri veröld.“

„Víst væri það landhreinsun,“ sagði Elrond, „en hræddur er ég um að það takist ekki á þessari öld heimsins og varla á mörgum öldum þar á eftir.“

Þegar ferðasagan hafði verið rakin, var tekið til við aðrar frásagnir og enn aðrar sögur, sem gerðust endur fyrir löngu og aðrar alveg nýjar og tímanlausar sögur, þar til höfuð Bilbós hneig niður á bringuna og hann hraut svo notalega í horninu sínu.

Þegar hann vaknaði lá hann í drifhvítu rúmi og tunglið skein inn um opinn glugga. Fyrir neðan á árbakkanum sungu margir álfar hátt og snjallt.

Syngjum af gleði, syngjum öll saman, sönginn í trjánum, blæinn í skuggum. Stjörnur út springa, tunglið í blóma, næturbirta í himinsins gluggum Dönsum af gleði, dönsum öll saman, dúnmjúkt er gras undir fjaðrandi fæti. Silfurá flýtur í flöktandi straumi. Fagnandi maí-tíð með gleðinnar læti. Fögnum af gleði, fögnum öll saman, friðsælan blíða draumum oss vefur, vaggar í svefninn í fagnaðar faðmi. förusveininum hvíldina gefur. Sofðu rótt, sofðu rótt, hljóðni hlynur og reynir. Sofðu rótt, sofðu rótt, þagni álmur og einir. Blíða nótt, sofðu rótt, aðeins andblær á vegi, uns birtir af degi

„Jæja, kátu vinir!“ sagði Bilbó og horfði út til þeirra. „Hvaða tími tunglsins er nú? Vögguljóð ykkar eru svo hávær að þau gætu vakið drukkinn drísil! Samt þakka ég ykkur fyrir.“

„Og hroturnar í þér gætu vakið steingerðan dreka — samt þökkum við þér fyrir,“ svöruðu þeir hlæjandi. „Nú nálgast dögun og þú hefur sofið allt frá náttmálum. Ef til vill líður þreytan úr þér á morgun.“

„Svolítill blundur er besta lækningin í húsi Elronds,“ svaraði hann, „og ég þarf að verða mér úti um alla þá lækningu sem fáanleg er. Og þá í annað skipti, góða nótt, fögru vinir!“ Og þar með sneri hann aftur inn í rúm sitt og svaf langt fram á dag.

Brátt hvarf öll þreyta af honum í þessu húsi og hann átti þar margar góðar stundir við leik og dans, jafnt ár og síð með álfum úr dalnum. En jafnvel þessi staður fékk ekki lengi tafið hann, því að alltaf voru heimaslóðirnar efst í huga hans. Eftir aðeins viku kvaddi hann Elrond og færði honum einhverjar þær smágjafir sem hann vildi þiggja og reið enn af stað með Gandalfi.

Varla voru þeir fyrr komnir út úr dalnum, en það dimmdi að í vestri og vindurinn og regnið börðust í andlit þeirra.

„Mætur er maí!“ sagði Bilbó, þegar slagviðrið lamdi hann í framan. „Við höfum nú snúið baki við öllum ævintýrum og komum heim. Ætli þetta veðurlag sé ekki forsmekkurinn að því.“

„Enn er löng leið eftir,“ sagði Gandalfur.

„Já, en þetta er síðasti áfanginn,“ svaraði Bilbó.

Þeir komu að ánni sem myndaði síðustu markalínu óbyggðanna og að vaðinu undir háa bakkanum sem þið ættuð að minnast. Áin var uppbólgin bæði af hláku vorkomunnar og af daglöngu úrhelli. En þeir komust yfir hana, þó ekki alveg vandræðalaust, og greikkuðu sporið fram að fyrstu kvöldkomunni í þessum síðasta áfanga ferðarinnar.

Ferðin gekk eins og áður, nema ferðalangarnir voru færri og þögulli. Nú rákust þeir heldur ekki á nein tröll. Hvar sem þeir fóru um veginn rifjuðust upp fyrir Bilbó ótal atvik og orð sem gerst höfðu fyrir ári — nema honum fannst þau jafnast á við tíu ár — þannig mundi hann glöggt hvar hesturinn hafði dottið í ána og þeir höfðu beygt út af veginum og lent í hinu háskalega ævintýri með Þumba og Berta og Villa.

Rétt utan við veginn fundu þeir tröllagullið sem þeir höfðu grafið. Þar lá það enn falið og ósnert. „Ég hef nóg gull fyrir mig að leggja alla mína lífstíð,“ sagði Bilbó, eftir að hafa grafið það upp. „Þú ættir nú að taka þetta handa þér, Gandalfur. Þú hlýtur að geta eitthvað notað það.“

„Víst væri það enginn vandi,“ sagði vitkinn. „En jafnt skulu sáttir skipta! Þú munt hafa meiri þörf fyrir það en þú heldur.“

Þeir settu því gullið í poka og lögðu það á hestana sem þó voru lítt hrifnir af þessari þungahleðslu. Nú hægði á ferð þeirra, því að þeir urðu að teyma hestana lengst af. Hér var landið svo yndislega grænt og grasloðið hvar sem hobbitinn óð ánægður um það. Hann þurrkaði sér í framan með rauðum silkiklút – nei, enginn, ekki einn einasti af öllum klútunum hans var eftir, þennan léði Elrond honum Nú var júní og sumarið komið sólbjart og heitt.