Выбрать главу

„Láttu nú ekki eins og bjáni Bilbó Baggi!“ sagði hann við sjálfan sig, „að þú skulir láta þér detta í hug að vera að hugsa um dreka og aðrar slíkar endemis vitleysur og það á þínum aldri!“ Hvað um það, hann setti á sig svuntu, kveikti eldinn, hitaði upp vatnið og þvoði allt upp og tók til í húsinu. Að svo búnu fékk hann sér sjálfur þægilegan morgunverð áður en hann loftaði út úr borðstofunni. Þá var sólin komin á loft og skein yfir landið og hann opnaði útidyrnar og hleypti inn hlýrri vorgolunni. Bilbó fór að blístra hástöfum með sjálfum sér til að gleyma öllu sem gerðist kvöldið áður. Já, ef satt skal segja var hann að setjast niður í borðstofunni við opinn gluggann til að fá sér seinni skattinn, þegar inn gekk Gandalfur.

„Kæri drengurinn minn,“ sagði hann. „Ertu ekkert að koma? Hver var að tala um að leggja snemma af stað? — og hér situr þú við að háma í þig morgunmatinn og klukkan orðin hálf ellefu! Þeir skildu eftir orðsendingu til þín, — gátu ekki beðið.“

„Hvaða orðsendingu?“ spurði vesalings herra Baggi og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.

„Hjálpi mér allir flekkóttir fílar!“ sagði Gandalfur, „þú ert ekki með sjálfum þér í dag — ertu ekki einu sinni búinn að þurrka af arinhillunni!“

„Hvað kemur arinhillan málinu við? Heldurðu að það hafi ekki verið nóg verk að þvo upp eftir fjórtán!“

„Ef þú hefðir þurrkað rykið af arinhillunni, hefðirðu fundið þetta undir klukkunni,“ sagði Gandalfur og rétti Bilbó orðsendingu (auðvitað skrifaða á hans eigin bréfsefni).

Og hann las eftirfarandi:

Frá Þorni og félögum til Brjótaþjófsins Bilbós! Kærar þakkir fyrir gestrisni og tilboð þitt um faglega sérfræðiaðstoð sem við tökum með þökkum. Samningskjör: Staðgreiðsla við afhendingu, allt upp að en ekki yfir fjórtánda hluta af öllum ágóða (ef nokkur). Ábyrgð tekin á öllum ferðakostnaði hvað sem í skerst. Við – eða fulltrúar okkar – tökum á okkur útfararkostnað, ef þörf gerist og málið verður ekki með öðrum hætti leyst.

Þar sem vér töldum óþarft að raska þínum virðulega svefni, héldum við af stað á undan til að vinna að nauðsynlegum undirbúningi, og bíðum eftir þinni virðulegu persónu á kránni Græna Drekanum á Árbakka, á mínútunni ellefu stundvíslega. Við treystum því að þú verðir stundvís.

Við höfum þann heiður að

vera þínir innvirðulegu

Þorinn og félagar.

„Það eru aðein s tíu mínútur til stefnu. Þú verður þá að bregða undir þig betri fætinum,“ sagði Gandalfur.

„En –,“ sagði Bilbó.

„Það er enginn tími til þess,“ sagði vitringurinn.

„En –,“ sagði Bilbó enn.

„Enginn tími heldur fyrir það! Af stað með þig!“

Alla sína lífstíð sem hann átti eftir, var Bilbó það hulin ráðgáta, hvernig hann komst út í snarhasti, hattlaus, staflaus og peningalaus, og allslaus við allt sem hann var vanur að taka með sér á ferðalögum, eða hvernig hann hrökklaðist upp frá seinni morgunmatnum hálfkláruðum og óuppþvegnum, hvernig hann þeytti húslyklunum í hendur Gandalfs og hljóp svo hratt sem kafloðnir fæturnir toguðu hann niður stíginn framhjá stóru Myllunni og yfir Ána og skrönglaðist áfram á harðahlaupum heila mílu í viðbót eða lengra.

Það var því engin furða, þótt hann væri lafmóður þegar hann kom að Árbakka rétt í því að klukkan sló ellefu og uppgötvaði að hann hafði ekki einu sinni munað eftir að taka með sér vasaklút.

„Húrra!“ sagði Balinn sem stóð við kráardyrnar skimandi eftir honum.

Rétt í því birtust allir hinir fyrir hornið á veginum inn í þorpið. Þeir sátu á smáhestum sem auk þess voru klyfjaðir allskyns böggum, pökkum, bögglum og lausadóti. Þar var einn í viðbót sérlega lítill smáhestur, Bilbó ætlaður.

„Á bak með ykkur báða, svo leggjum við í hann!“ sagði Þorinn.

„Því miður, ég get það ekki,“ sagði Bilbó. „Bæði er ég hattlaus, gleymdi vasaklútnum mínum og alveg peningalaus. Ég fékk ekki skilaboðin frá ykkur fyrr en kl. 10.45 — til að vera nákvæmur.“

„Þú þarft nú ekkert að vera upp á púnkt og prik,“ sagði Dvalinn, „og hafðu engar áhyggjur! Ætli þú verðir ekki að venja þig á að vera vasaklútslaus og sjálfsagt laus við ótal margt fleira, áður en ferðinni lýkur. Og hvað hattinum viðvíkur, þá er ég með aukahettu og úlpu í farangri mínum.“

Þeir lögðu af stað á brokki frá kránni á fögrum morgni rétt fyrir maíbyrjun á ofklyfjuðum hestum. Bilbó setti á sig dökkgræna hettu (svolítið upplitaða) og samlita úlpu sem Dvalinn lánaði honum. Allur þessi útbúnaður var alltof stór á hann og hann leit asnalega út í honum. Ég þori varla að ímynda mér hvað Búngó faðir hans hefði sagt, ef hann hefði séð hann. Eina bótin var þó að enginn hefði villst á honum og dverg, þar sem hann var skegglaus.

Ekki höfðu þeir langt riðið þegar Gandalfur náði þeim, ríðandi á glæstum hvítum fáki. Hann hafði tekið með sér fjölda vasaklúta og pípu Bilbós og tóbak með. Eftir það kom upp mikil kátína í hópnum og þeir sögðu sögur eða sungu og þannig riðu þeir áfram allan daginn, nema auðvitað þegar þeir námu staðar til að fá sér að borða. Matartímarnir voru þó ekki alveg nógu margir að áliti Bilbós, en þó fór honum að finnast, þegar öllu var á botninn hvolft, að ævintýri þyrftu ekki að vera svo afleit.

Í fyrstu lá leið þeirra um heimalönd hobbita, víð héruð og virðulega byggð með heiðarlegu fólki, góðum vegum og vegakrám hér og þar. Við og við áttu Dvergar eða bændur leið hjá. Síðar komu þeir í lönd þar sem fólk talaði undarleg tungumál og söng söngva sem Bilbó hafði aldrei heyrt áður. Og áfram var haldið út á Auðnirnar, þar sem engin byggð var lengur og engar krár og vegirnir fóru síversnandi. Skammt framundan sáu þeir skuggalegar hæðir sem risu hærra og hærra, dimmar af skógum. Á sumum þeirra risu gamlir kastalar, illúðlegir eins og eintóm illmenni hefðu reist þá. Allt varð líka drungalegra fyrir það að veðrið hafði versnað. Fram að því hafði það verið eins gott og búast mátti við af veðri í maí, þá lék allt í lyndi, en nú var það orðið kalt og rakt. Meðan þeir voru á Auðnunum höfðu þeir orðið að slá upp búðum sínum hvenær sem hægt var, en þá hafði þó verið þurrt.

„Að hugsa sér að bráðum skuli vera kominn júní,“ tuldraði Bilbó ríðandi í aurbleytunni. Það var á tetíma en regnið gusaðist niður og hafði gert það allan daginn. Bleytan lak í dropatali af hettunni í augu hans og úlpan var orðin gegnsósa. Hesturinn hans var orðinn lúinn og hnaut á steinum. Allir voru komnir í svo vont skap að þeir sögðu ekki aukatekið orð. „Og best gæti ég trúað að raki sé kominn í þurru fötin og matartöskurnar,“ hugsaði Bilbó. „Fari til fjandans öll innbrot og allt sem þeim við kemur! Ég vildi óska að ég væri heima í góðu holunni minni, sæti við eldinn og teketillinn minn að byrja að blístra.“ Það var nú hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem þessi mynd kom upp í huga hans!

En áfram héldu dvergarnir á brokki og horfðu aldrei um öxl né hirtu hið minnsta um hobbitann! Einhvers staðar á bak við gráa skýjaflókana hlýtur sólin að hafa sigið til viðar, því að það dimmdi að skjótt þegar þeir riðu niður í djúpan dal en á rann eftir dalbotninum. Nú jók í vindinn og víðitrén á bökkunum sveigðust og mörruðu. Sem betur fer lá leiðin yfir ána á fornri steinbrú, því að áin gusaðist áfram uppbólgin af úrfellinu og kom beljandi ofan úr hæðum og fjöllum í norðri.